30. mars 2005

Fall glötunar

Í dag gekk ég í raðir glæpamanna, vandræðaunglinga og óþekktarorma þegar mér var vikið úr kennslustund.

Ég hef skyndilega óstjórnlega löngun til að brjóta póstkassa og míga utan í kirkjuveggi...

29. mars 2005

Fear Becomes Total Crap!

Varúð, varúð, varúð!
The Ring 2 er leiðinleg mynd!

Ég hef sjaldan séð eins "óóhugnanlega" hryllingsmynd á ævi minni.
Hún segir frá Rachel, einstæðri móður, og syni hennar Aidan. Þau voru einu lifandi fórnarlömb dauðu stelpunnar Samöru sem réðist á fólk úr draugavídjóspólu. Nú er Samara komin aftur og vill taka sér bólfestu í Aidan.
Myndin er óskaplega bjánaleg, ruglingsleg og algjört kjaftæði á köflum og það eru bara 2 ágætlega óhugnanleg atriði í myndinni. Frekar slappt miðað við mynd sem á að kallast hryllingsmynd.
Það tekst ekki með neinu móti að skapa einhverja samúð með aðalpersónunum, manni er hreinlega skítsama hvort þau deyji eða ekki.
Myndin fær 2 tækifæri til að enda á skikkanlegan hátt en klúðrar þeim báðum herfilega.

Þannig að allt í allt er Ring 2 ekki alvöru hryllingsmynd heldur leiðinleg, misheppnuð drama með dauðri, blautri stelpu í náttkjól sem drepur fólk. Voða hræðilegt.

25. mars 2005

Loksins, loksins!

Loksins er hann kominn heim!
Þrotlaus, löng bið okkar er á enda!
Róbert Fischer er kominn heim!

Fyrir þá í tregari kantinum sem geta engan veginn borið kennsl á kaldhæðni af nokkru tagi, þá var ég að grínast.

Ég hreinlega skil ekki allt þetta umstang í kringum þennan drukkna, ógeðfellda, illa lyktandi (ég álykta svo), bandaríska jólasvein.
Í fyrsta lagi skil ég ekki þessa kæru Bandaríkjamanna.
Ok, hann tefldi skák í Júgóslavíu á meðan viðskiptabanni stóð. Á núna að handtaka alla gaura sem hafa spilað Counter-strike við einhvern annan gaur á Kúbu?
Síðan skil ég ekki hvers vegna í ósköpunum við viljum fá hann heim.
Ok, hann kom Íslandi á kortið með þessu einvígi sínu fyrir 30 árum. Miðað við umsagnir hans um yfirvöld Bandaríkjanna og Japan þá sé ég ekki annað en að hann muni koma okkur á kortið aftur. Þ.e.a.s. kortið sem merkt er "Bomb here".

Og síðan eru fluttir aukafréttatímar vegna komu hans.
"Við rjúfum útsendingu þessa til að færa ykkur þær fregnir að Bobby Fischer er enn á leiðinni."

Gúrkutíð, einhver?

23. mars 2005

Yndislegt

"Yeah, Christy, you're so dumb. When they were handing out brains, you thought that they said trains, so... so... you, like, got on a train, and, like, drove away!"

"I think I have this carpet-tunnel syndrome."
"You, like can't just get it. You can only catch it from, like, a computer.
"Well, some kind of syndrome, anyway."

The wonders of comedy.

18. mars 2005

Sviti og tár

Ég mun lykta eins og búningsklefi í mánuð.
Hvað gerir maður ekki fyrir sigur í gangaslag?

"Hí á 6.bekk"!

9. mars 2005

Glæpamaður

Það er gaman að vera dörtí bissnessmaður...
...sérstaklega gagnvart Tansaníu.


Ljóð dagsins

Virtur kauði, firrtur auði
og myrtur köldu blóði.
Nár og rotinn, sár og skotinn,
hár í rauðu flóði.

-Ég fylgist vel með í stærðfræði...

6. mars 2005

Gott er slæmt

Ég hef komist að því að ekki eru allir góðir hlutir góðir í raun og veru.
Til dæmis: draumar.
Ef maður á vondan draum, þá er maður hreinlega feginn að vakna upp frá honum, nema að hann sé MJÖG slæmur.
Þá er maður í rusli allan daginn.
Það er akkúrat öfugt með góða drauma.
Ef mann dreymir eitthvað frekar gott, til dæmis góðan mat, skemmtilegt partý eða góðan fótboltaleik þá vaknar maður hress og alsæll. En ef það er verulega góður og hamingjusamur draumur þá er maður líka í rusli allan daginn.
Mig dreymdi örugglega besta draum ævi minnar aðfaranótt laugardags og ég er ennþá svekktur! Og það versta er að ég man ekki einu sinni um hvað hann var!
Góðir draumar eru vondir!

1. mars 2005

Næturráf

Á hverjum laugardegi vakna ég upp í öðrum heimi.
Myrkum, köldum og hljóðum heimi.
Köld, litlaus, rám rödd býður mig velkominn til starfa.
Ég er sendiboði.

Fætur eru óþarfir.
Það er svifið eftir götunum.

Þar býr ekkert fólk en samt er fullt af húsum.
Ég svíf upp að húsunum og kíki inn um bréfalúgur í leit að lífi.
Ekkert lifir nema myrkrið og skrjáfið í pappírnum.

Eftir hverja árangurlausa leitina á eftir annarri sný ég heim.
Gatan er líklega köld en ég get ekki sagt til um það.
Röddin kveður mig og ég fer heim.

Heim í hlýjan dúninn.