26. september 2007

Heimferð

„Fyrirgefðu, en þetta er ekki stysta leiðin út á Nes!“
Strax og ég hafði sagt þetta og sá hlátursblandinn hneykslunarsvipinn á fólkinu í kringum gerði ég mér grein fyrir mistökum mínum. Ég var búinn að gleyma því hvernig það var að sitja í strætó.
Ég þagnaði samstundis og ákvað þess í stað, í tilraun til að forðast stingandi augnaráð gömlu konunnar sem sat á móti mér, að stara á beyglaða stuðarann á Toyotunni við hliðina á strætónum. Sú tilraun heppnaðist ekki. Ég fann fyrir augnaráði hennar á eyranu á mér.
Ég leit frá glugganum og á konuna. Hún blikkaði ekki einu sinni. Starði bara á mig í gegnum rautt, úfið hárið og þykkt strætóloftið. Þetta var farið að verða ansi óþægilegt. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvaða ástæðu hún gæti haft fyrir þessari einhliða störukeppni sinni. Hún var varla svona hneyksluð á vingjarnlegu ábendingunni minni til bílsjórans. Það var ekki mögulegt. Eða hvað?
Það var eitthvað við hana sem sagði mér að hún væri tíður gestur í strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins. Kannski var það snjáða, græna dúnúlpan sem hún var í eða Krónupokinn sem hún ríghélt í þar sem hún sat grafkyrr í sætinu sínu og starði inn í höfuðið á mér. Ég reyndi að sjá hvað var í pokanum en miðað við það hvernig hún ríghélt í hann hafði hún greinilega ákveðið að það skyldi enginn gera.
Og enn starði hún.
Ég var farinn að svitna óþægilega mikið. Svo mikið að ég skildi í rauninni ekki af hverju unga stelpan sem sat við hliðina á mér var ekki búinn að færa sig. En hún sat sem fastast og fiktaði í farsímanum sínum og virtist ekki einu sinni taka eftir gömlu konunni. Hvernig fór hún eiginlega að því? Miðað við einbeitingarsvip gömlu konunnar kom það mér á óvart að það heyrðist ekki í augnaráðinu kljúfa loftið. Ég gat ekki verið sá eini sem tók eftir henni. Eftir að hafa litið stuttlega yfir hópinn sá ég að mér skjátlaðist. Allir aðrir voru að hugsa um eitthvað allt annað.
Ég, aftur á móti, gat ekki hugsað um neitt. Hún var farinn að brenna hugsanir mínar jafnóðum og þær urðu til. „Hvað gæti helvítis kellingin verið að hugsa?“ hugsaði ég. En sá þankagangur náði ekki lengra.
Ég prófaði að loka augunum. Ég lokaði þeim svo fast að mig verkjaði, en samt sá ég augun í konunni. Þau voru gróin föst í heilann á mér. Ég lokaði þeim enn fastar og hugsaði aldrei um það hve heimskulegur ég hlyti að líta út. Ég gat það hvort sem er ekki.
Skyndilega opnaði ég augun. Það var ekki mín ákvörðun. Háværi dynkurinn olli því. Ég leit rakleiðis á gömlu konunna og mér til mikillar furðu var Krónupokinn ekki lengur grafinn í fangið á henni. Hann lá nú yfir hnén á henni og innihaldið hafði dottið í gólfið með látum.
Þrjár bjórflöskur rúlluðu nú fram og aftur við fætur hennar í takt við beygjur strætósins. Í pokanum sást svo glitta í tvær til viðbótar sem og litla flösku af hóstasafti. En konan hafði engan áhuga á flöskunum sínum. Hún sat bara sem fastast og boraði smám saman í gegnum höfuðið á mér.
Unga stelpan við hliðina á mér hafði nú litið upp frá símanum sínum. Hún beygði sig fram í sætinu og tók upp eina flöskuna. Af svipnum að dæma var stelpan ekki byrjuð í menntaskóla ennþá. Hún virti fyrir sér flöskuna í andartak áður en hún rétti gömlu konunni.
„Fyrirgefðu, en þú misstir þetta.“
Gamla konan ansaði engu og hélt áfram að kveikja í hugsunum mínum.
„Fyrirgefðu,“ endurtók unga stelpan, „þú misstir flöskuna þína!“
Gamla konan hreyfði sig ekki.
Unga stelpan sveiflaði flöskunni létt fyrir framan hrukkótt andlit gömlu konunnar í leit að viðbrögðum. Hún fann engin.
Nú fóru fleiri farþegar að veita gömlu konunni eftirtekt. Áhugaleysi hennar kom öllum til mikillar furðu. Venjulega myndi fólk sýna einhver viðbrögð við því að vera með skítuga bjórflösku nokkrum sentímetrum frá nefinu á sér, ef ekki nema að skilja eftir smá móðu á glerinu.
Ég var greinilega ekki sá eini sem tók eftir því því nú stóð lágvaxinn, herðabreiður maður og gekk hröðum, litlum skrefum í átt að gömlu konunni. Hann bað ungu stelpuna um að færa sig frá, greip um handlegg konunnar - sem ennþá sýndi enginn viðbrögð og starði sem fastast inn í höfuðið á mér - og leit á úrið sitt.
Eftir nokkrar sekúndur af algjörri dauðaþögn andvarpaði maðurinn. Hann sleppti hönd konunnar. Stóð því næst upp, hallaði sér að henni, lagði höndina yfir andlit hennar og lokaði augunum.
Loksins friður.

-Einar S. Tryggvason

(Taka skal fram að þetta er 98% skáldskapur - ég fór í alvörunni í strætó í dag.)

19. september 2007

Daglegt líf

Er til verri byrjun á skóladegi en að...
...mæta of seint,
...fatta að maður gleymdi mikilvægum bókum,
...vera rekinn út úr tíma fyrir smámuni,
...gleyma því að maður átti að flytja fyrirlestur þennan dag,
...sparka fast í þröskuld á leið í hádegishlé,
...vera að lokum hafnað af stelpunni sem maður er hrifinn af?

Ég held ekki.
Þess vegna er ég helvíti feginn því að minn dagur var ekki svona.

Mig langaði bara að koma því á framfæri.

P.S. Á meðan ég man - hrós dagsins fær Baldvin Kári Sveinbjörnsson fyrir framúrskarandi leik í Veðramótum :)

11. september 2007

Bissí deis!

Alvöru-Einar og Blogg-Einar eru líklega að miklu leyti andhverfur hvors annars. A.m.k. lítur það út fyrir að svo sé. Til að mynda hefur Blogg-Einar ekki gert sjitt í heillangan tíma en á meðan hefur Alvöru-Einar farið hamförum í aðgerðum og stússi.

Fyrst ber að nefna Busadaginn og -kvöldið.
Ég vil ennþá meina að Busavígsla MRinga sé ein svalasta hefð sem ég hef orðið vitni að og hún er bara svalari þegar maður horfir á hana klæddur í tóga. Og málaður. Og ofboðslega reiður út í busakvikindin. Þegar „O Fortuna“ fer á fullt flug og við byrjum öll að öskra á leiðinni upp göngustíginn að MR þá fékk ég svo svakalega gæsahúð að það var ekki fyndið. Og ég neita að trúa því að það hafi nokkuð með það að gera að ég var ekki í neinu nema nærbuxum, laki og sandölum í rigningu og íslenskri septembergolu.
Ég hef sjaldan glaðst svo mikið yfir hræðslu annarra.
Seinna sama dag hófst svo partýið. Sjötti Z og þriðji I fögnuðu þá saman í veislu þar sem drykkjuhlutfallið var tógaklæddum sjötta bekk mjög í hag. Eðlilega.
En til að gera langa og æðislega skemmtilega sögu mjög stutta og frekar óspennandi þá er þetta eflaust besta fyrirpartý sem ég hef farið í. Ballið var aftur á móti ekkert æðislegt, en þá sigtar maður þá minningu bara í burtu.

Föstudagurinn byrjaði á afskaplega þreyttum, mygluðum og hljóðum skóladegi, sem er ekki óalgengt eftir böll sem þessi. En ég var nokkuð hress. Ég þurfti að vera nokkuð hress þar sem mín beið annað partý um kvöldið: Lokahóf meistaraflokks Álftaness.
Eins og við má búast frá slíkum íþróttapartýum var fátt annað gert en að drekka, borða, drekka, reykja og skemmta sér - oftar en ekki við það að drekka. Einhvers staðar á milli atriða í þessu stífa prógrammi var svo verðlaunaafhending. Veitt voru verðlaun fyrir:

Ljótasta mark ársins: Guðbjörn Sæmundsson.
Flottasta mark ársins: Ómar „Bangsi“ Rafnsson.
Gullkorn ársins: Yðar einlægur. („Ég finn greindarvísitöluna mína lækka við það að hlusta á þá tala saman!“)
Vinsælasti leikmaðurinn: Ragnar Arinbjarnarson.
Mestu framfarir: Yðar einlægur.
Leikmaður ársins: Andri Janusson.

Þannig að þið getið ímyndað ykkur hvort ég var ekki ánægður þetta kvöld.
En þegar verðlaunaafhendingu var lokið hélt teitið áfram þar til þar var búið, enda er það venjan með partý.

Laugardagurinn byrjaði svo eldsnemma á fótbolta uppi í Mosfellsbæ á Firmamóti. En vegna atburða kvöldsins á undan var frammistaða mín þar ekkert sem ég ætla að minnast á - því annars gæti ég þurft að skila bikarnum mínum. Ég ætla líka að sleppa því að minnast á landsleikinn sem ég fór á vegna spælingar. Og fyrst ég er í því að minnast ekki á hluti þá ætla ég ekkert að minnast á chillið/rúntinn um kvöldið með Partýpleis-fólkinu, tölvuleikinn sem ég keypti mér í gær og hef verið að spila síðan - eða svo gott sem - og ég ætla alls ekki að minnast á fyrstu æfinguna mína sem þjálfari 8. flokks barna á Álftanesi. Enda var hún svo fámenn og róleg að ef ég myndi minnast á hana, þá mynduð þið biðja mig um að hafa aldrei gert það. Sem ég er að gera - eða... ekki.

...ég er að fá hausverk....

9. september 2007

Nenni ég að blogga?

Greinilega ekki.

Vonandi á morgun.