30. nóvember 2007

Athyglisbrestur

1: Afhommunarnámskeið?!
2: Á laugardaginn klukkan 2.
1: Bíddu, ertu búinn að skrá mig?
2: Drífðu þig bara, þú hefur gott af því.
1: Ertu ekki að grínast, pabbi?
2: Ég er bara að reyna að hjálpa þér.
1: Fyndið að þú skulir kalla þetta að hjálpa...
2: Grín er mér ekki ofarlega í huga akkúrat núna.
1: Hættu þá að segja svona ömurlega brandara!
2: Indriði minn, ég held bara að þetta sé rétta lausnin.
1: Í guðanna bænum, pabbi!
2: Jonni bróðir sendi Ragnar á þetta námskeið og nú er hann fullkomlega heilbrigður.
1: Klamydía er sjúkdómur, pabbi - samkynhneigð er það ekki!
2: Langar þig ekki að læknast?
1: Maður getur ekki „læknast“ af samkynhneigð!
2: Neikvæðni hjálpar a.m.k. ekki til!
1: Ofboðslega ertu mikill fáviti!
2: Ógeðslega ert þú þrjóskur!
1: Pabbi, þrjóska tengist málinu ekki neitt - ég er bara svona og get ekkert breytt því.
2: Ragnar gat það...
1: Strákurinn er 14 ára; Hvað veit hann?!
2: Tólf... og hann veit greinilega nóg til að gera sér grein fyrir því að heimurinn hatar homma!
1: Umburðarlyndið í hámarki, heyri ég...
2: Útskýrðu bara fyrir mér af hverju þú vilt ekki verða betri manneskja.
1: Vilt þú ekki frekar segja mér af hverju þú ert svona sjúklega mikið á móti hommum?
2: Yngri bræður mínir eru báðir hommar...
1: Ýmir og Mímir?!
2: Þeir komu út sama dag og ég útskrifaðist úr menntó; Stálu allri athyglinni, helvískir...
1: ... Æ, greyið litla að hafa lent í svona skelfilegri lífsreynslu...
2: Öllum er illa við kaldhæðna homma.

Ég ætti kannski að fara að fylgjast með í jarðfræði í stað þess að skrifa svona vitleysu...

P.S. Það er nákvæmlega engin sérstök ástæða fyrir þessu dramatíska stafrófsleikriti... fyrsta orðið passaði bara vel inn og framhaldið þróaðist út frá því.

28. nóvember 2007

Fórnarlamb skammdegisins

Ekki ég.
Mér finnst skammdegið soldið huggulegt.

Bloggið, aftur á móti, er orðið öllu litlausara og kaldara.
En mun svalara fyrir vikið.

Hressti einnig upp á linkana hér til hægri og skellti líka inn þessari fínu mynd sem ég tók úr garðinum mínum í síðustu viku.
Gaman að því.

Langaði bara að koma þessu á framfæri...

27. nóvember 2007

Skammir

Nú ætla ég að skamma nokkra aðila. Vonið bara að þið séuð ekki á eftirfarandi lista.

Baldvin, sóknarmaður Berserkja og MR-ingur:
Ekki vera svona stór, maður!

Sæbjörn Valdimarsson, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins:
2 stjörnur fyrir „Dan in Real Life“? Hún á klárlega meira skilið! Og ég hef ekki enn fyrirgefið þér fyrir „V for Vendetta“ yfirdrullið!

Manchester United, knattspyrnulið:
Hvað eruð þið að gera að tapa fyrir Bolton? Skamm!

Svalldóra, bróðir minn og mágkona:
Það líður lengri tími milli blogga hjá ykkur en mér! Og þá er mikið sagt!

Einar, fullkomin og umfram allt hógvær mannvera:
Hættu að blogga eitthvað út í loftið og drullastu til að læra!

25. nóvember 2007

Note to self:

Aldrei nokkurn tímann, undir neinum kringumstæðum, ætla ég aftur að djamma langt fram á nótt kvöldið fyrir fótboltaleik.

Skamm, skamm, Einar.


Það breytir því samt ekki að við „ownuðum“ leikinn.

20. nóvember 2007

Úps

Ég ætlaði ekkert að blogga. Ég hafði hugsað mér að gera það en hætti við á síðustu stundu.
En hvað gerist?
Ég rek mig í eitthvað og birti þar af leiðandi bloggið mitt. Sem innihélt ekkert. Nákvæmlega ekki neitt.

En það er náttúrulega ekkert nema gígantísk sóun á uppbyggilegu internetplássi, þið vitið - eitthvað heilsusamlegt til að vega upp á móti magni viðbjóðs, sem hægt er að finna alltof auðveldlega. M.a.s. þegar maður er ekki að reyna.

Þannig að vissu leyti má túlka þetta aðgerðarleysisleysi mitt sem tilraun til að gera heiminn að betri stað. A.m.k. vefheiminn.

Mikið djöfull er ég göfugur.

14. nóvember 2007

Leiðréttingar

Ég hef ákveðið að nota þennan miðil minn í að leiðrétta nokkur atriði sem virðast vera algjör misskilningur.

1. Ég er EKKI hættur að blogga, langt í frá. Þannig að, Sía, þú þarft alls ekki að eyða mér úr eftirlætisfrændaminninu. Þú þarft ekki einu sinni að eyða mér úr bookmarks.

2. Ég er EKKI svona feitur um kálfana. Ég er meiddur og bólginn.

3. Litli færanlegi lampaskermurinn heima hjá mér er EKKI einhver klikkuð tækninýjug. Þetta er hún litla vesalings Loppa mín.

4. Ég er EKKI með bíladellu. Furðulegt hvað margir gera ráð fyrir því.

5. Ég er EKKI að trassa fótboltaæfingar. Sjá útskýringu við lið 2.

6. Justin Timberlake er EKKI skemmtilegur tónlistarmaður. Nei nei.

7.Ég er EKKI herra Norðurland. Löng saga. Spyrjið mig endilega út í hana þegar þið hittið mig.

Og þar hafið þið það.

2. nóvember 2007

Tímamót

Hér með er fyrsta skólabloggið mitt á ferlinum hafið.

Erfitt það er rétta úrlausn að fá,
-andskotans torskildi fjári!
Tröllslegt hefur hann tak mér á,
talningarfræðinnar ári.

Og hér með lýkur þessu sama merkisbloggi.
...og húrra fyrir því.