27. apríl 2008

Óvenjulegir dagar

Sumarið er komið.
Fokkstóra býflugan í glugganum mínum hvíslaði því að mér.

Annars hafa undanfarnir dagar verið nett óvenjulegir.

Síðasta laugardag var massívt afmæli hjá Andreu á Hverfisbarnum sem leiddi til viðbjóðslegs þynnkujarðfræðipróflesturs á sunnudeginum sem varð þó til þess að prófið á mánudeginum gekk furðulega vel.

Á þriðjudaginn var ég kominn í jakkaföt 20 mínútum eftir að ég vaknaði og var í þeim langt fram eftir degi á síðasta skóladegi mínum í MR.
Það var frekar furðuleg tilfinning að sitja í sinni síðustu kennslustund í menntaskóla - sorgleg gleði, einhvers konar.

Miðvikudagurinn einkenndist af leðri, drykkju, gervihári, drykkju, hatri, hvítu meiki og drykkju:
Dimissio.
6.Z tók sig til og klæddi sig upp sem gotharar og vakti mikla lukku. Nei, ekki lukku - hatur. Fólki virðist almennt vera afskaplega illa við gothara. A.m.k. er það frekar hrætt við þá, sem er kannski skiljanlegt þegar 20 þeirra ganga saman í hóp. Ekki skemmir það fyrir þegar þeir eru svona glæsilegir.

Reyndar verður að taka fram að okkur var ekki sýndur neinn áhugi inni í Menntaskólanum við Hamrahlíð, enda víst daglegt brauð að sjá svona föngulegan hóp lífhatandi þunglyndissinna.

Á furðulega þynnkulausum fimmtudegi barst mér svo bréf frá Listaháskóla Íslands þar sem ég fékk þær upplýsingar að ég er ekki að fara til Rhodos í sumar. Peningurinn fer frekar í skólagjöld þar sem ég er kominn inn.

Föstudagurinn var svo litaður af afar yfirborðskenndri fegurð þegar ég fór með Guðrúnu og vinkonum hennar á Ungfrú Reykjavík á Broadway. Þetta er mín fyrsta fegurðarsamkeppni og jafnframt ein furðulegasta keppni sem ég hef horft á.
Ég veit ekki af hverju, en hún var bara eitthvað svo spes.
En ef við eigum að ræða furðulegt - af hverju er Merzedes Club vinsæl hljómsveit? Með forsprakka eins og Ceres 4 og Gazman eða hvað þeir nú heita sem eru takt- og litlausari (fyrir utan feykinóg af brúnku) en dáinn maður skil ég ekki af hverju fólk vill hlusta á þetta. En kannski er ég bara ekki töff og skil þetta ekki...
...sénsinn!

Í gær vann ég í rólegri bókabúð, horfði á rólegan Supernatural þátt, borðaði á rólegum pizzustað og fór á rólegt spólukvöld við afskaplega órólega og fáránlega mynd. Mannætukindur? Hvernig getur það klikkað?
T.d. með því að gera bíómynd um þær.

Í dag hef ég svo lifað í grískri goðafræði með aðstoð sögubókarinnar minnar með Ixíon, sem eignaðist mannhesta með skýi, Metis, sem var breytt í flugu og étin af Seifi, og Díógenes, kaldhæðnum kynista sem bjó í tunnu í Aþenuborg.

Eðlileg vika, ekki satt?

19. apríl 2008

Númer 46

Lokaverkefni okkar í kvikmyndagerð í MR.


Endilega látið í ykkur heyra.

8. apríl 2008

Fyrsta hjalla náð

Jæja... nú hef ég verið boðaður í viðtal vegna náms í LHÍ næsta haust.

Ég treysti því að þið krossleggið öll fingur fyrir mig.

3. apríl 2008

Baráttukveðjur

Ég vil bara nota tækifærið og senda harðar og hlýjar baráttukveðjur til vörubílstjóra á Íslandi!
Þið eruð að standa ykkur, strákar!
Of lengi hafa Íslendingar keyrt um götur borgarinnar eins og þeim sýnist! En nú er komið nóg!
Hlustum á vörubílstjórana og hættum að keyra!

...

Þið skuldið mér eitt stykki kvikmyndafræðifyrirlestur!