18. júní 2008

Pöntun!

Ég lýsi hér með eftir öllu því sniðuga, flotta, fallega og/eða heimskulega sem ég ku hafa sagt sem nemi í MR.
Ég veit að það er til fullt af því - ég man það bara ekki.

Takk fyrir!

13. júní 2008

Uppgötvanir vikunnar

Í upphafi viku komst ég að því að þættirnir „How I Met Your Mother“ eru hreinlega stórskemmtilegir og karakterinn Barney Stinson er eiginlega ekkert nema ógeðslega svalur. Á þriðjudaginn uppgötvaði ég svo hve þægilegt það er að keyra stóran sjálfskiptan bíl og í framhaldi að því hve mikið vesen það er að þrífa stóran sjálfskiptan bíl.
Það kom mér líka skemmtilega á óvart hve svakalega ég hef verið að setja boltann á æfingum (4-3-2, strákar, 4-3-2). Maður spyr sig hvað ég er að gera í vörninni... þegar ég er á annað borð í liðinu.
Að lokum er ég að fatta að það er afskaplega erfitt að fela punktafærslu í samfelldu máli....

2. júní 2008

Endurheimt

Það er svolítið fyndið hvernig ég fer að því að ýta þessu bloggstússi á undan mér heilu dagana og vikurnar. Eg hef oft hugsað um að láta loksins vaða og blogga eitthvað en mér hefur líka dottið í hug að gefa skít í þessa ímynduðu kröfu ykkar lesenda (lesanda?) um blogg frá mér og hætta þessu veseni.

En það getur verið gaman að blogga og þess vegna bægi ég fljótt seinni hugmyndinni frá.

Ferlið er venjulega alltaf það sama: Ég blogga einhvern tímann og næstu daga finnst mér óþarfi að blogga eða þá að ég hef hreinlega ekkert að segja. Svo kannski gerist eitthvað merkilegt í lífi mínu en þá hreinlega nenni ég ekki að blogga strax. Svo loksins þegar ég nenni að blogga um það þá hefur venjulega eitthvað meira gerst sem mér finnst ég ætti að segja frá, en þá er efni bloggsins orðið svo mikið að mér fallast hendur. Þannig vindur þetta svona skemmtilega upp á sig þar til ég læt fréttir af lífi mínu lönd og leið og kem með einhverja ómerkilega skítafærslu sem inniheldur eitt youtube myndband og setningu á borð við „Guð minn góður!“ eða eitthvað álíka. Ég hef líka átt það til að koma með stikkorða- eða punktafærslu eða jafnvel eitt ljóð eða svo, sem oftast vekur litla hamingju lesenda.

T.d. hef ég núna fullt af fréttum að færa af mér og mínum en ítarleg umfjöllun um þær allar væru allt of löng lesning (svo ekki sé minnst á skrifin) og mér finnst svo leim að koma með enn eina punktafærsluna þ.a. ég væri vís til að sleppa því algjörlega að blogga.

En á móti kemur að eitthvað blogg er betra en ekkert blogg og á það sérstaklega við þegar litið er á rýra blogguppskeru þessa árs, þ.a. til að vinna upp síðustu vikur og með loforði um betri frammistöðu í sumar kemur hér smá punktafréttafærsla um sjálfan mig:
• Stúdentsprófum lauk mánudaginn 26. maí eftir mánaðar langa törn af viðbjóði.
• GTA IV fylgdi í kjölfarið.
• Ég útskrifaðist frá eðlisfræðideild II í MR á föstudaginn og get því ekki lengur titlað mig „menntaskólanema“. Það er verulega flippuð tilhugsun.
• Ég byrja að vinna 16. júní í Eymundsson í Mjódd og ég hvet að sjálfsögðu flesta til að heimsækja mig sem oftast.
• Leiktímabilið í fótboltanum hefur farið brösulega af stað með tveimur töpum í fyrstu tveimur leikjum íslandsmótsins og tapi fyrir Hömrunum/Vinum í bikarnum. Ég hef basically ekkert getað síðan ég meiddist og hefur það valdið mér sem og öðrum miklum vonbrigðum. Aðallega mér.
• Ég er hættur að neyta viðbjóðs á borð við nammi og gos. Taka skal fram að áfengi fellur ekki undir 'viðbjóð' í mínum bókum (Komm on, maður þarf að fá að halda einhverjum ósið).
• Man U owna Chelsea. Langaði bara að koma því að.
• Ég hef engan veginn verið að standa mig sem MacJammer. Ég hef viljað kenna skólanum um en ég er ekki viss hvort ég trúi því sjálfur...

...og á þessum nótum segi ég þessari ó, svo tímabæru færslu lokið.