26. ágúst 2008

Litið um öxl

Ég var næstum því farinn að blogga þegar ég hætti við það.
Ég var næstum því hættur í tölvunni þegar ég skoðaði eldri bloggfærslur ársins.
Ég var næstum því hættur við að blogga þegar ég hætti við það að hætta við.

Ég er búinn að vera ótrúlega lélegur bloggari á þessu ári (og endurspeglast það bersýnilega í kommentafjöldanum). Til dæmis, nú er þetta 18. færsla ársins, á meðan á sama tíma í fyrra hafði ég skrifað 42 og árið 2006 voru þær 66! Ástæðan fyrir þessu hruni er mér ekki alveg ljós, þó mig gruni þær tengist fleiri fótboltaæfingum, tíðari spólukvöldum og kærustu (og ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að kvarta undan þessum "truflunum", ef truflanir má kalla!).

En þetta átti samt ekki að verða aðalefni þessarar færslu, því þá væri hún ekkert frábrugðin fyrri færslum ársins. Þess vegna ætla ég bara að koma mér að efninu.

Hvað varð um sumarið?
Í próftörninni í maí horfði maður björtum og vonarfullum augum til sumarsins og sá í hyllingum alla afslöppunina og gleðina sem maður átti eftir að upplifa í sumar; útilegur, partý, utanlandsferðir, hittingar, stefnumót o.s.frv. Hvað varð um allt þetta plan?
Jú, jú - maður gerði nú eitthvað, en ekki nærri því jafnmikið og vonast hafði verið til.

Farið var í eina útilegu og hitti hún einmitt á helgina þegar veðrið var leiðinlegt.
Ég fór aldrei til útlanda, en það var reyndar meðvituð ákvörðun, tekin af fjárhagslegum ástæðum.
Bíóferðir hafa verið færri í ár en í fyrra - 23 í ár miðað við 35 í fyrra.
Parýin voru m.a.s. færri, fannst mér.

Á móti kemur reyndar að miklum tíma var eytt með Guðrúnu og græt ég hann ekki vitund.
Önnur ástæða er vinnan í Eymundsson. Þegar maður vinnur á lykiltíma dagsins, 10-18, er voða lítið hægt að fara í bæjarferðir og þvíumlíkt stúss.
Og fótboltaæfingar voru einnig gríðarstór partur af sumrinu.

Kannski er þetta smá snertur af einhverju haustþunglyndi. Ég veit það ekki.
Það sem ég veit er það að ég hef enga ástæðu til að þjást af nokkru slíku. Ég er að byrja í nýjum, framandi og spennandi skóla, ég mun minnka við mig í vinnu og fótboltinn fer í dágott frí eitthvað fram eftir hausti. Það er allt opið!

Nú er bara málið að grípa tækifærin til að læra, leika og upplifa, því það er auðvelt að missa af þeim. Og þegar það hefur gerst er bara hægt að vona að þau komi aftur, sem er harla ólíklegt.

25. ágúst 2008

Guð minn góður... það lifir!

Ótrúlegt en satt, þá er þetta nú vesæla blogg mitt enn á lífi - eða öllu heldur, endurfætt. Ég veit ég hef áður sagst ætla að taka mig á og gera þetta að sama lifandi stað og hann var fyrir 3 árum með 30-50 komment á færslu, en ég hef ekki staðið við það.

Aftur á móti finnst mér það réttur tímapunktur að lífga þetta við núna; nýr vetur, nýr skóli, ný byrjun.

Og bara svona til að vinna upp skort á uppfærslum um mitt líf í sumar, þá kemur hér stutt yfirlit.

•Ég er búinn að vera að vinna eins og ég get í Eymundsson í Mjódd, sem er afskaplega gott fyrir skipulagsþráhyggjufrík eins og mig. Bækurnar hafa aldrei verið í jafngóðri stafrófsröð og nú.
•Leiktíðin í boltanum kláraðist í gær með 1-1 jafntefli við Þrótt Vogum og enduðum þar með í 3. sæti riðilsins með 21 stig. Þessi stigafjöldi var þó ekki nægur til að forða okkur frá veðmálinu sem gert var við þjálfara liðsins - en frásagnir af því veðmáli koma þegar refsingunni er lokið.
•Ég byrja í LHÍ á morgun með skólakynningu og -setningu og ég er verulega spenntur.
•Bróðir minn, Vancouverbúinn, hefur lokið lokaverkefni sínu úr VFS, stuttmyndinni „Friends?“, þar sem músíkin er eftir yðar einlægan.

Þá held ég að aðalatriðin séu komin og ef eitthvað er að gleymast þá svekk fyrir ykkur.