13. nóvember 2008

Síjitt!

Ég veit ég virðist vera hættur að blogga, en ég stóðst bara ekki freistinguna núna, því ég var fyrir skömmu að klára spænsku hryllingsmyndina [REC].

Fyrsta mál á dagskrá er Hollywood. Af hverju þarf Hollywood að endurgera prýðisgóðar kvikmyndir fyrir bandarískan markað? Það er margsannað mál að í langflestum tilfellum er bandaríska útgáfan mun verri.

Allt í góðu, ég skil endurgerðir á myndum frá fyrri hluta 20. aldar, en nú kom t.d. [REC] út 2007. Af hverju í ósköpunum þurftu þeir að gera Quarantine? Eru Bandaríkjamenn það hrokafullir og þröngsýnir að þeir geta ekki horft á myndir sem eru ekki gerðar af öðrum Bandaríkjamönnum? Eru þeir það ólæsir að þeir geta ekki lesið texta? Hvað sem málið er, þá er það bara peningaplokk með engu tilliti til kvikmyndalistarinnar.
Til eru fleiri dæmi um svona. T.d. voru í blöðunum fyrir 2-3 dögum fréttir um að Steven Spielberg ætlar að endurgera Suður-Kóreska meistaraverkið Oldboy, sem kom út 2003! ÓÞARFI!
Auk þess er Oldboy allt of gróf og sjúk fyrir bandarískan almenning, þ.a. ég trúi ekki öðru en að Spielberg láti breyta plottinu, sem er bara dónaskapur við Chan-Wook Park, handritshöfund og leikstjóra upprunalegu myndarinnar.

En já, aðalefni þessarar færslu var aðallega það að lofsama [REC] í hástert!
Þetta er án nokkurs vafa ein óhugnanlegasta mynd sem ég hef séð og kemst þá í flokk hryllingsmynda eins og El Orfanato (líka spænsk) og The Shining. Ekki vondur hópur, þar.

En [REC] er bara svo ógeðslega krípí og raunveruleg (enda tekinn upp með e-s konar handycam fílíng). Baldvin, bróðir minn, gaf mér svo nákvæma útlistingu á muninum á [REC] og Quarantine. T.d. var [REC] miklu bjartari, þ.e. fleiri kveikt ljós og svona. Samt fannst honum [REC] óhugnanlegri. Það þarf nefnilega ekki alltaf myrkur og hávaða til að bregða manni og gera mann hræddan! Það fatta fæstir bandarískir hryllingsmyndagerðarmenn!

Nú er ég búinn að röfla minn skammt í bili og ég hvet ykkur öll til að horfa á [REC] sem allra, allra fyrst!

P.S. Ein spurning: Man einhver eftir bandarískri endurgerð sem er betri en originallinn?