29. mars 2010

Það tók ekki langan tíma

Endurreisnin var ekki fyrr hafin þegar þessu blessaða bloggi virtist fatast flugið.
En við reddum því snöggvast með einni góðri punktafærslu.

...



Takk fyrir.

11. mars 2010

Blogblog?

Stutt færsla í kvöld:

Mér er illt í handleggnum.

Túlki hver sem vill en það mun segja meira um ykkur en mig.



Nýtt öpplód, bæðeúei.


A Forest Trail

3. mars 2010

Ljós í myrkrinu

Hann var búinn að sitja við stýrið í hátt í 8 klukkustundir og það var ekki laust við það að hann væri orðinn heldur þreyttur.
Hann geispaði, hristi höfuðið kröftuglega og sló sig svo tvisvar sinnum utan undir.
-Ég verð að halda mér vakandi! Ég verð!
Hann sló sig einu sinni til viðbótar, bara til að vera viss.
Það ríkti algjör þögn í bílnum fyrir utan nauðið í miðstöðinni. Útvarpið hafði ekki virkað síðan sumarið áður. Það hafði hreinlega gefið upp öndina einn daginn í miðjum flutningi á "Video Killed the Radio Star". Hann hafði alltaf getað brosað að kaldhæðninni.
En hlátur var honum ekki ofarlega í huga þessa stundina.

Það hafði verið hið fínasta veður þegar hann lagði af stað, fyrr um daginn. Að vísu var svolítill snjór en skyggnið var fínt og færðin góð, samkvæmt öllum fréttum. Að vísu var hans ekki vænst fyrr en daginn eftir en það er nú nákvæmlega það sem skilgreinir óvæntar heimsóknir. Hann hafði gert þetta nokkrum sinnum áður og það hafði alltaf glatt þær svo mikið. Hann hafði alltaf verið veikur fyrir fallegu brosi og bros þeirra voru þau fegurstu sem hann gat hugsað sér.

Hann sló sig aftur.
-Koma svo, haltu þér vakandi!
Hann teygði sig í pakka af bréfþurrkum sem lágu í farþegasætinu og tók eina slíka úr plastinu. Þetta var sú næstsíðasta.

Hún hafði alltaf sagt honum að það væru 3 hlutir sem maður ætti alltaf að hafa á sér: Penni, varasalvi og bréfþurrkur. Hann komst snemma að því að pennar kæmu sér alltaf vel, hvort sem það væri fyrir símanúmer, heimilisföng eða fyndna brandara sem hann heyrði hér og þar. Varasalvinn kom sér einnig vel á þurrum, heitum dögum. Eða þá í bíó, þar sem varirnar hans virtust vera allt annað en hrifnar af söltu poppinu.
Þetta var í fyrsta sinn sem hann hafði þurft á bréfþurrkunum að halda.

Hann tók þurrkuna og strauk sér um ennið. Hann braut hana saman og strauk sér aftur.
Þetta var greinilega að skána, fyrir hálftíma hafði þurrkan verið gegnblaut strax og hann snerti ennið á sér. Hann kuðlaði þurrkunni svo saman og kastaði henni á gólfið, farþegamegin. Þar lágu fyrir átta slíkar þurrkur, allar álíka blautar og rauðar.
Miðstöðin þagnaði skyndilega. Ljósin í mælaborðinu dofnuðu hratt og dóu út. Loftljósið fór sömu leið. Nú sat hann einn í þögninni og myrkrinu.
Hann hafði svo sem búist við þessu. Í raun og veru var merkilegt að rafgeymirinn hafði enst svona lengi. Hann tók í hurðarhúninn. Dyrnar opnuðust ekki. Ekki frekar en í hin skiptin. Þögnin var alger. Hann var hættur að heyra í rokinu fyrir utan bílinn. Myrkrið hjálpaði svo ekki til. Hann sá ekki einu sinn eigin andardrátt í kuldanum. Hann gerði ráð fyrir því að það væri ennþá að snjóa. Hann gat ekkert gert nema haldið í vonina um að hjólförin sem lágu af veginum ofan í skurðinn væru ennþá til staðar.
Hann var ekkert gríðarlega vongóður.

Eina ljósið í myrkrinu var brosið þeirra.

2. mars 2010

Helstu tölur febrúarmánaðar:

0 orð voru skrifuð á þetta blogg.
1 lítill sigur hlotnaðist mér í lottói.
3 ný lög voru samin.
23. ár lífs míns hófst.
26 þættir af Q(uite) I(nteresting) glöddu mig.
28 dagar liðu.
38 ummæli voru skrifuð við nýju lögin 3 á MacJams.
102 afmæliskveðjur bárust mér á Facebook.
194 GB af hljóðfærasömplum voru keypt.

Gaman að því.

Úr öskustónni

Þar sem ég sit einn inni í herberginu mínu og hlýði á ljúfa tóna Peter Gabriel í nýju headphonunum mínum er voða erfitt að komast hjá því að láta hugann reika.

Af einhverjum ástæðum ráfaði hann hingað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum vikum sem mér verður hugsað til þessa gamalreynda, góða bloggs. Margar sögurnar hafa ratað hingað í gegnum árin, sem og fjöldinn allur af hálfleirkenndum vísum. Ófáar umræðurnar hafa sprottið fram í ummælahlutanum sem hafa að vísu verið afar mismálefnalegar.

Sumir vilja halda því fram að bloggið sé dautt og hefði einhver spurt mig að þeirri spurningu fyrir örfáum mánuðum þá hefði ég tekið undir það af fullum krafti.
En ég held að það sé kominn tími á endurkomu.

Nú er "bloggbólan" sprungin, þ.a. Moggabloggararnir hafa skriðið aftur ofan í þá myrku holu illskiljanlegra hugleiðinga, lélegra orðabrandara og almenns asnaskaps og kjánaláta sem þeir komu úr fyrir 3 árum eða svo.
Er þá til betri tími en nú fyrir þennan glæsta fönix að rísa úr öskunni og taka á loft upp í stórfenglegt himinhvolfið?
Er ekki kominn tími til að ýta við rithöfundinum innra með mér og segja honum að hans bíði hreint blað?
Er ekki mál að endurreisa mannorð heiðvirðra bloggara?

Það held ég.