30. apríl 2010

Versta lýsing sögunnar?

Fyrst ætla ég að valda Antoni vonbrigðum með því að taka það fram að þessi færsla tengist lýsingu ("lighting") ekki neitt. Öllu heldur tengist þetta "innihaldslýsingunni" aftan á DVD-hulstri hryllingsmyndarinnar Drag me to Hell, sem ég horfði á fyrir nokkrum dögum.

Þetta er mögulega verst skrifaði texti sem ég hef séð á DVD-hulstri... eða hvaða hulstri sem er, ef út í það er farið.
Ég skal deila þessum texta með ykkur:

Drag Me To Hell er ein besta spennumynd ársins 2009 og er nýjasta kvikmynd leikstjórans Sam Raimi frá hinum sama og færði okkur Army of Darkness árið 1992.“


Ok, ok - þetta er kannski ekkert skelfilega skrifað. Höfundur er kannski ekki mjög hrifinn af greinarmerkjum en það er svo sem fyrirgefanlegt. Einnig finnst mér athyglisvert að af öllum Sam Raimi myndum skuli þeir nefna Army of Darkness frá 1992...
En við skulum halda áfram...

Drag Me To Hell fjallar um Christina Brown sem vinnur í banka einum og er hún að klifra upp metorðalistann í bankanum og á von á stöðu og kauphækkun fljótlega ef all gengur upp hjá henni.


Nú fara skemmtilegheitin að byrja. í fyrsta lagi heitir óheppna sögupersónan okkar ekki Christina, heldur Christine. Í öðru lagi finnst mér ótrúlega sniðugt að hún skuli "klifra upp metorðalistann", þar sem við hin reynum bara við stigann. Sniðug er hún! Það er líka tími til kominn að hún fái stöðu! Greyið manneskjan getur ekki verið stöðulaus í lífinu!

„Allt leikur í lyndi þar til gömul sígaunakona birtist í bankanaum og biður Christinu um biður um aframhaldandi lán til þess að bjarga heimili hennar ef gamla konan fær ekki lánið mun hún missa heimilið sitt.“


Taka skal fram að allar stafsetningar-, málfræði- og innsláttarvillur eru eins og þær eru á hulstrinu. Og þá meina ég ALLAR - þetta er það slæmt.

„Christina þorir ekki að samþykkja lánið í ótta um að það hafi áhrif á stöðuhækkun sína í bankanum og þess vegna missir gamla konan heimilið sitt . Í hefndarhug hefnir gamla konan sín á Christinu með því að leggja á hana Lamia bölvunina á Christinu og eftir þessa bölvun verður líf Christinu að helvíti á jörðu því hún er elt útum allt af illum anda , hún leitar hjálpar hjá ýmsum aðilum sem endar hjá miðli einum sem þekki bölvunina.“


Öhh... já.

„Hvað gerist svo er best fyrir ykkur að sjá sjálf ef þið þorið.“


Hver skrifar svona texta? Ég bara spyr! Og er virkilega enginn tilbúinn að eyða 5 mínútum í að lesa þetta yfir og lagfæra?
Frekar pínlegt...

Og þar með lýkur mesta nördavælubloggi lífs míns.

22. apríl 2010

Horft um öxl

Það hefur verið fastur liður í lífi okkar flestra, ef ekki allra, á einhverjum tímapunkti að setjast reglulega fyrir framan sjónvarpið og fylgjast með ævintýrum þeirra sem á skjánum birtast, hvort sem það er Homer Simpson, Fox Mulder, Mike Scofield, feiti homminn úr Survivor, Michelangelo, Dúa, Ross Geller, steinþursunum eða Simon Cowell. Sú hefð lifir að vissu leyti áfram, þó svo gjarnan sé búið að skipta út sjónvarpinu fyrir tölvuskjá og 'reglulega' fyrir 'hvenær sem er'.
Allir hafa átt sér sína uppáhaldsþætti og uppáhaldspersónur og vissulega hafa sjónvarpsþættirnir haft áhrif á okkur öll.

Sem færir mig að efni þessa bloggs. Hér er ég búinn að útbúa lista með 6 átakanlegustu atriðum sem ég hef séð í sjónvarpsþáttum. Taka skal fram að með 'átakanlegum atriðum' á ég við atriði sem hafa snortið mig meira en venja er.

Ég hef, af öryggisástæðum, útvegað mér örlítið hjálpartæki svo ég skemmi ekki fyrir lesendum ef ske kynni að þeir hafi ekki séð viðkomandi atriði. Þannig hef ég raðað sjónvarpsþáttaröðunum frá 6 og upp í 1, en til að sjá nánari lýsingu á atriðinu sjálfu, þarf einfaldlega að ýta á "Sýna".

Þannig að ef þið hafið ekki séð alla þætti viðkomandi þáttaraðar og haldið að þið eigið eftir að horfa á þá, þá mæli ég gegn því að smella á sýna, þar sem þetta eru ekkert síður nýir þættir en gamlir!


Nú haldið þið áfram á eigin ábyrgð!

Nr. 6: The Big Bang Theory:

The Big Bang Theory eru án nokkurs vafa einir bestu grínþættir síðustu ára og er það að miklu leyti afar góðri persónusköpun að þakka. Hver hefur ekki horft á sjónvarpsþætti eða bíómynd og hugsað: "Vá, þessi gaur gæti alveg verið skotinn núna og mér væri algjörlega sama"? Hinir elskulegu nördar og dama í þessum þáttum falla ekki í þann flokk. Einna elskulegastur er Leonard, sem er svo yndislega ástfanginn af nágranna sínum, gellunni Penny. Þegar þau loksins byrjuðu saman kættist hjartað í mér mjög en eins og í öllu góðu sjónvarpsefni þá koma upp vandræði í paradís. Þegar Will fokking Wheaton fer að skipta sér af og fær Penny til að segja Leonard greyinu upp, þá var mér öllum lokið.
Þið sjáið bara sorgina - og treystið mér, ég var ekkert mikið hressari þar sem ég sat í náttfötunum og horfði í hryllingi á. En ég trúi ekki öðru en að vel fari... en það verður bara að koma í ljós á næstu vikum.Nr. 5: Scrubs:

Ég bar mjög blendnar tilfinningar til þessa lokaatriðis Scrubs seríanna (ég tel 9. seríu ekki með - hún er eitthvað allt annað dæmi).Þar stendur J.D. á tröppum Sacred Heart og horfir á framtíð sína með Peter Gabriel í bakgrunni. Það er bara eitthvað svo hjartnæmt og fallegt við þetta atriði að ég var nánast klökkur. En á sama tíma var ég afskaplega sorgmæddur, vitandi það að þessir stórkostlegu grínþættir voru við það að klárast (aftur - ég tel 9. seríu ekki með!).
Gullfallegt, alveg.Nr. 4: Friends:

Það þekkja allir Friends og vel flestir hafa horft á alla þættina, oftar en einu sinni, og þeir vita það vel að Friends eru uppfullir af fallegum og hjartnæmum atriðum. En það er eitt atriði sem hefur alltaf farið meira í mig en önnur. Það er þegar Chandler er staddur á bar með Joey og nýju kærustunni hans, henni Kathy.
Æjh... Kathy.
Anyways - þegar Chandler gjörsamlega hellir hjarta sínu á gólfið fyrir framan Joey um hve mikið hann sé ástfanginn af Kathy, það gefur hjartanu mínu hnéspark í punginn. Ég finn svo til með honum að það er engan veginn fyndið - en þá er ég ekki að segja að ég hafi lent í þessu sama. Bara að taka það fram.
En já - klárlega sársaukafyllsta atriði Friends sögunnar.Nr. 3: Californication:

Fokksjitt - við erum kominn út djúpan pakka núna. Afar hollt svona seint á kvöldin...
Lokaatriði þriðju seríu Californication er hardcore dæmi. Og þá meina ég hardcore.
Þessar rúmar þrjár mínútur sem "Rocket Man" með Elton John hljómar undir játningu dauðans eru fáránlega magnaðar. Og rétt þegar maður heldur að það versta sé afstaðið, þá hleypur Becca af stað á eftir pabba sínum þar sem honum er troðið inn í lögreglubíl.
Og alltaf syngur Elton John, hress og kátur.
Contrastinn er ógeðslega flottur.


Nr. 2: Scrubs:

Já, það er annað Scrubs atriði á listanum og ótrúlegt en satt - öllu þyngra en lokaatriðið.
Í 20. þætti 5. seríu flagga þau öllu sem hægt er og toga í alla spotta sem tengjast á einhvern hátt sálartetrinu mínu. Aftur er þetta eins og hádramatískt tónlistarmyndband, nema að þessu sinni "How to Save a Life" með The Fray. Hérna á ég auðvitað við atriðið þegar sjúklingarnir þrír deyja vegna mistaka Dr. Cox. Það er sárt þegar maður horfir upp á þá fyrstu tvo deyja, en þegar sá þriðji gefur upp öndina og Cox fríkar út...
...Vó.
Ég táraðist yfir þessu - og klökkna enn.


Nr. 1: Dexter:

Djöfulsins fokking fokksjitt helvíti?!?!?

15. apríl 2010

"There is no Spoon"

Ég uppgötvaði eitt um daginn. Í raun og veru hef ég verið að safna upplýsingum fyrir það í rétt rúm 22 ár en fann ekki hnitmiðaða skilgreiningu á því fyrr en fyrir örfáum vikum.

"Það er ekki til neitt sem heitir vont veður, bara það sem heitir rok."


Ég fór nefnilega að pæla í þessu um daginn.
Rigning ein og sér er í fínu lagi - falleg og endurnærandi - en strax og þú blandar roki saman við hana, þá ertu kominn með eitthvað sem er meira óspennandi en brauðsneið með hnetusmjöri og lifrarpylsu. Fótbolti í rigningu er ein besta íþróttaupplifun sem ég veit en um leið og vindurinn mætir, þá fer gleðin.
Það er sama sagan með snjó. Snjókoma í blankalogni er mjög heillandi og notaleg og fyllir hjartað hlýju og gleði. En þegar Kári blessaður mætir til að fylgjast með, fáum við einhvern viðbjóð sem heitir bylur og er álíka heillandi og andfúll nasisti.
Það er aðeins erfiðara að verja haglél, en það getur enginn heilvita maður mótmælt því að það er skömminni skárra að fá élið í hvirfilinn en andlitið.

Þess vegna legg ég til að orð á borð við "bylur" og orðasambönd líkt og "rok og rigning" verði hér með lögð niður! Þessi orð koma illu orði á annars falleg og skemmtileg fyrirbæri eins og rigningu og snjó.

"En Einar, af hverju segirðu að að það sé vindurinn sem skemmi snjóinn og rigninguna en ekki öfugt"?
Góð spurning, við hverri ég hef gott svar. Þið hafið upplifað það að líta út um gluggann og við manni blasir grænt gras og blár himinn og brjóstið fyllist von og gleði. Svo klæðið þið ykkur í fínustu sumarfötin ykkar og hlaupið hlæjandi út í sumarylinn.
En þið eruð ekki fyrr kominn út en þið neyðist til að drullast inn aftur og klæða ykkur betur því það er svo fokking mikið rok. Þetta eru bara ein mestu vonbrigði sem ég veit um!
Rok í sjálfu sér er nefnilega ekki meinlaust og fallegt, líkt og snjórinn og rigningin. Rok á það nefnilega til að eyðileggja fleira en gleði og von mannsins. Þeir sem hafa upplifað það að tjalda í roki vita að það er jafnleiðinlegt og að fara einn í reiptog. Garðvinna, sér í lagi að raka gras, í hvassviðri er álíka pirrandi og stelpan sem fær alltaf hiksta í jólaprófunum.
Í raun og veru er allt leiðinlegra í roki, með augljósum undantekningum á borð við flugdreka og vindmyllur.

Ég ætlaði að enda þennan reiðilestur á hárbeittri og hnyttinni limru, en hún þarf eiginlega að bíða betri tíma...

5. apríl 2010

Breytingar til hins betra

Hér sit ég við skrifborðið mitt með algjörlega nýja sýn á lífið og tilveruna.
Og með orðunum "lífið og tilveruna" meina ég "herbergið mitt".

Því eftir aðgerðir síðustu viku - sem innihéldu kúbein, hávaða, parket, vélsög, nokkra lítra af málningu, brotna nagla, gólflista, svita, blóð, verðskuldaðan bjór og kannski örfá tár - er herbergið mitt nú brúnt í grunninn, grænt í miðið, hvítt í toppinn og speglað um y=x (ég hef greinilega engu gleymt!).

Það er greinilegt að þessi viðsnúningur á vinnurýminu mínu hefur jákvæð áhrif, a.m.k. svona til að byrja með, því það tók mig ekki nema 2 sólarhringa að ljúka við nýtt lag:


Eye of the Storm