7. ágúst 2010

Svekkjandi

Ég er búinn að eyða dágóðum tíma í að skrifa langa og persónulega færslu um mín einkamál - því ég veit hvað ykkur finnst það gaman - en þegar ég loksins kláraði hana varð ég skyndilega rosalega sjálfsmeðvitaður og finnst hún núna of persónuleg til að ég geti birt hana hér.

Vandræðalegt.

En þess í stað kemur hér lítil vísa um leiðinlegu konuna sem verslaði hjá mér í dag.

"Verðið hátt og úrval lítið.
Starsfólk allt ódannað!
"
Ef þetta er svona fokking slæmt -
drullaðu þér þá bara eitthvað annað!

3. ágúst 2010

Þjóðhátíð 2010

Er ljósin frá flugeldunum lýstu upp andlit þeirra 17.000 gesta sem samankomnir voru í reykfylltum Herjólfsdalnum
- Þá var lífið mikilfenglegt.

Er þessir sömu gestir sameinuðust í söng og þökkuðu Dikta fyrir heiminn
- Þá var lífið stórkostlegt.

Er Árni Johnsen dissaði Anton í klessu
- Þá var líf mitt því miður annars staðar í dalnum.

Er Ragga Gísla sagði öllum frá því hvernig Sísí fríkaði út, þrátt fyrir að allir áheyrendur vissu hvernig
- Þá var lífið frábært.

Er ég stóð í bestu rennibraut landsins og púllaði Supermanninn við mikinn fögnuð sundlaugargesta
- Þá var lífið 'awesome'.

Er 17.000 manns hrópuðu af öllum lífs og sálarkröftum: "GILZ KELLING!"
- Þá var lífið ógeðslega fyndið.

Er við sátum á þilfari Herjólfs og sigldum innan um eyjarnar á leið til Heimaeyjar og ræddum hver þeirra væri best til að standa af sér uppvakningaárás
- þá var lífið furðulega spennandi.

Er eldtungur brennunnar teygðu sig upp í himininn og hituðu upp dalinn
- Þá var lífið gullfallegt.

Er ég kláraði lundabitann sem einhver eyjapeyji gaf mér
- Þá var lífið of fátækt af lundakjöti.

Er Viktor reyndi að koma mér saman við 45 ára gömlu útúrdrukknu konuna sem greip í mig til þess eins að standa í lappirnar
- Þá var lífið vandræðalegt.

Er ég var laus við þessa sömu konu
- Þá var lífið laust við Viktor í dágóðan tíma.

Er blysin kviknuðu í brekkunni og sveipuðu þjóðhátíðargesti fagurrauðum dýrðarljóma
- þá var lífið notalegt.

Er ekkert fékk okkur stöðvað undir stjörnusalnum, inni í Herjólfsdalnum
- Þá var lífið yndislegt.

Er ég sat með vinum mínum í sól og áhyggjuleysi og við spjölluðum saman og hlógum
- Þá var lífið fullkomið.

Takk fyrir mig.