10. mars 2007

Stafrófsflipp

1:Alli sagði að ég væri fífl!
2:Ábyggilega...
1:Bíddu, ertu sammála honum?
2Drengur, ég er að segja að hann hafi ábyggilega sagt það
1:Ertu að kalla mig fífl?
2:Ég er ekki að segja það!
1:Fjandi ertu leiðinlegur!
2:Guð minn góður...
1:Haltu kjafti!
2:Iss, geturðu ekki komið með betra svar en þetta?
1:Í rauninni get ég það ekki...
2:Jú, þú hlýtur að geta betur!
1:Kannski hafði Alli rétt fyrir sér?
2:Láttu ekki svona, þú ert ekki fífl!
1:Má vera, en hvað ef ég er í alvörunni geðveikt fífl?
2:Nonni, þú ert ekki fífl!
1:Ojú - ég er orðinn hræddur um það
2:Ó, Guð minn góður...
1:Prentum bara á bolinn minn „Nonni er fífl“ svo allir viti það örugglega!
2:Reyndar á ég einn slíkan?
1:Seldi Alli þér hann?
2:Tæknilega séð, já.
1:Undarlegur gaur, hann Alli.
2:Útlenskur í þokkabót!
1:Vestur-Íslendingar eru ekki útlendingar...
2:Yngvi segir annað!
1:Ýngvi er líka fífl!
2:Þú meinar „Yngvi“, er það ekki?
1:Æ, hvaða máli skiptir það?
2:Öllu! Ertu fífl eða...?

6. mars 2007

Éreggi fávidi!

Joel Schumacher er greinilega ekki sammála mér.

Ég var á The Number 23 núna áðan og það er svo sem ágæt mynd. Samt sem áður er einn stór galli á henni. Hún er fáránlega mikið „idiot-proof“.

Bíómynd: „Bla bla bla gerðist 19. apríl. 19 plús 4 er 23!“
Ég: [Kaldhæðni] Haaaaa?! [/Kaldhæðni]

Bíómynd: „2/3... ,666. 666 - tala Djöfulsins.“
Ég: [Kaldhæðni] Eins gott þú útskýrðir þetta fyrir mér, ég var nefnilega alveg týndur í samhenginu hérna...[/Kaldhæðni]

Bíómynd: „32! 32 er 23 afturábak!!“
Ég: [Dauðans alvara] Ég get svarið það, gaurinn er að gera grín að mér![/Dauðans alvara]


Boðskapur: Við vorum nógu klár til að koma okkur í bíóið, kaupa bíómiðann og finna réttan sal - við hljótum að vera nógu klár til að geta séð sjálf að 10+13=23.
Eða hvað?

4. mars 2007

Ágætis byrjun

Ég náði merkum áfanga í lífi mínu í gærkvöld þegar ég fór á mína fyrstu alvöru rokktónleika. Fram að þeim var það stærsta sem ég hafði farið á flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Vorblótinu, Bobby McFerrin í Háskólabíói og Sir Elton John í frystihúsi.
En nú hafa tónleikar Incubus í Laugardalshöll vinninginn!

Persónulega fannst mér þessir tónleikar frábærir, þ.e.a.s. strax og Incubus byrjaði að spila, því Mínus finnst mér einstaklega óheillandi hljómsveit og ekki var tónlistin sem var spiluð á milli hljómsveitanna betri. Þögnin hefði verið betri en það.

Þeir tóku lög af flestum geisladiskum sínum (slepptu Enjoy Incubus/Fungus Amongus, enda kannski of gamalt fyrir marga Incubus-aðdáendur) við mikinn fögnuð gesta, þá sérstaklega við þeirra frægustu lög (döh...), þ.e.a.s. Drive, Wish You Were Here, Megalomaniac, Anna Molly o.s.frv. Þeir tóku reyndar ekki Make Yourself - eitt af mínum uppáhalds Incubus lögum - en ég get fyrirgefið þeim það.
Ekki nóg með að tónlistin hafi verið góð og flutningurinn frábær, þá var sýningin allmögnuð líka, sérstaklega laaangi og súrrealískt svali millikaflinn í Sick Sad Little Word.
Æði.

Lang-, lang-, LANGbestu rokktónleikar sem ég hef séð! (döh...)

P.S. Brandon Boyd talaði meiri íslensku en allir meðlimir Mínus til samans.
Gaman að því.

2. mars 2007

Húmor


Breiðhyltingar eru svo barnalegir...

...en við unnum, svo hí á þá!

(Mynd fengin héðan.)