13. september 2010

Tímamót

Þar sem ég sat á gervigrasinu á sparkvellinum við Garðaskóla, varð mér litið upp í himininn og sá þar stjörnubjart myrkrið. Það sem flaug strax í gegnum huga minn var aðeins eitt:
Það er að koma vetur - og ég hlakka bara til.

Ég hlakka til að þurfa að dúða mig aðeins upp áður en ég fer út.
Ég hlakka til að finna fyrir fyrstu snjókornunum á andlitinu.
Ég hlakka til að koma heim á kvöldin og staldra örlítið við og stara á stjörnurnar áður en ég stíg inn.
Ég hlakka til að þurfa að klöngrast yfir snjóskafla til að komast út í bíl.
Ég hlakka til að semja tónlist í skammdeginu.
Ég hlakka til að eyða köldum vetrarkvöldum - hvort sem það er innandyra eða utan - með vinum mínum.
Ég hlakka til að þroskast, eldast og upplifa.
Ég hlakka til að halda áfram.

7. september 2010

Frestun

Ég var með nokkuð góða hugmynd að bloggi þegar ég kom heim úr skólanum í dag.
Alveg nokkuð fullmótaða og allt!

En ég ákvað að geyma hana til kvölds og skrifa hana meðan ég hlustaði á fallega músík áður en ég færi að sofa.
Nú sit ég, með fallega músík í eyrunum áður en ég fer að sofa og nenni ekki að skrifa færsluna.

Á morgun segir sá lati...