30. desember 2010

Heitastrenging

Ég hef aldrei lagt það neitt sérstaklega í vana minn að strengja áramótaheit.
A.m.k. aldrei af neinni alvöru. Ég hef mögulega hent fram einhverju klassísku klisjumarkmiði eins og að „hætta að borða nammi“ eða „ná heimsyfirráðum fyrir júlí“ eða eitthvað álíka - en venjulega gefist upp á þeim nokkuð snemma.
En ég ætla að gera tilraun til að strengja nokkur stór áramótaheit fyrir árið 2011.
Því þetta er árið 2011.
Ég verð 23 ára árið 2011.
Það er svolítið klikkað að sjá það svona svart á hvítu (eftir að ég birti þetta blogg, þá verður það reyndar hvítt á svörtu - en hugmyndin er sú sama.)

En hvað um það.
Hér koma nokkur alvöru áramótaheit.

1. Léttast um slatta af kílóum
Ég geri mér grein fyrir því að þetta markmið er álíka algengt á áramótunum og klám er á netinu - en þetta er eitthvað sem ég *MUN* standa við! Ég hef logið þessu að sjálfum mér áður en ég hef fulla trú á því að í þetta sinn muni ég geta staðið við það.
Ég er nefnilega orðinn ógeðslegur í vexti.
...
Ógeðslegur er kannski fullsterkt til orða tekið, en ég er kominn einu skrefi nær því að verða ógeðslegur en ég kæri mig um.
Til dæmis núna þar sem ég sit við tölvuna og skrifa þetta inn, lít ég niður á magann á mér og - hvað á maður að segja... - ég verð ekki glaður. Langt frá því.
Sumsé - nú er ég 'a' kíló og planið er að í útskriftinni minni í júní verði ég (√'a' x 9) kíló! (Einnig má líta á það sem 'a' - 15 kíló ef ykkur finnst það auðveldara...)

2. Læra á gítar
Já - ég sagði það.
Ég vil hafa möguleikann á að detta í 'trúbadorinn' í partýum - þó svo ég lofi engu um að ég muni gera það, þá vil ég hafa möguleikann. Auk þess er gítarinn ögn handhægari en flygill...

3. Búa einn
Taka skal fram að 'einn' þýðir í þessu tilfelli ekki endilega bókstaflega 'einn', heldur þýðir þetta meira 'ekki í foreldrahúsum'.
Hvort sem það verði í Amsterdam eða Reykjavík eða Hafnarfirði eða Dubai (það verður ekki í Dubai) þá langar mig að upplifa það að búa og lifa á eigin forsendum (ekki það að ég búi undir einhverju harðræði hjá mömmu og pabba). Ég held ég hafi bara gott af því. Ég meina, ég verð nú einu sinni 23 ára árið 2011...

4. Semja betri tónlist en áður
Ef mér tekst þetta ekki, þá á talsvert stórt vandamál frammi fyrir mér...

5. Taka stærri skref
Líf-lega séð, ekki spor-lega.
Sjá færslu 1 og færslu 2.
Ég er orðinn mjög þreyttur á þessari blessuðu skel minni, þó svo - jú - ég hafi flutt í stærri skel fyrir örfáum árum, þá er nýja skelin ennþá fullþröng.

Þannig hljóðar þetta.
Stórt ár fyrir höndum...

...bring it on, bitches!

Gleðilegt nýtt ár!


(P.S. Yfirlit yfir árið 2010 kemur stuttu eftir áramót - stay tuned!)

20. desember 2010

Neikvæður innblástur

Ég hata hvað mig langar oft að setjast niður og skrifa einhvern fallegan texta þegar ég hlusta á fallega músík. Verst hvað tónlistin sem ég er að hlusta á er alltaf miklu fallegri en það sem mér tekst að klóra fram.
Hún er í raun og veru fallegri en hvað sem ég geri, burtséð frá listformi.

Sköpunargleðin fæðist andvana.