28. júní 2007

Lagakast

Ég átti mín fyrstu kynni við lögregluna síðasta laugardag og ef það er alltaf svona skemmtilegt þá er ég alveg tilbúinn til að íhuga það að gera þetta að áhugamáli mínu.
Þessi laugardagur hafði verið langur og skemmtilegur. Byrjaði fyrir alvöru þegar ég, Klemmi og Atli fórum í sund í Laugardalslaug og hittum þar fyrir Elfar, Davíð og seinna meir Steinunni. Eftir 2-3 tíma sundsprett (og vægar líkamsmeiðingar) fengum við okkur í gogginn á American Style. Þar leyfði ég myndlistarhæfileikum mínum að blómstra þegar ég skapaði persónu sem ég kýs að kalla "Vegga" (nf = Veggi). Hann samanstóð sem sagt úr grænmetisbitum og kartöflubútum - glæsileg fígúra. Svo glæsileg að stelpan sem tók til af borðinu eftir okkur sótti vinkonu sína til að sýna henni... svo stútaði tíkin Vegga.
...

Eftir ömurlegan póker (allur póker er ömurlegur póker ef veskið er ekki þyngra eftir á...) fórum við niður í bæ. Eftir stutt stopp á N-einum við Hringbraut tókum við stefnuna á Laugaveginn og keyrðum þess vegna eftir gömlu Hringbrautinni og stoppuðum á ljósunum við Snorrabraut.
Þá hófst fjörið.
Viktor stekkur út úr bílnum mínum, með hrekkjalómsglampa í augunum, hleypur að bíl Steinunnar sem var stopp fyrir framan okkur og byrjar að lyfta upp rúðuþurrkum, opna bílhurðir o.þ.h. skemmtilegheit. Klemenz, sem sat í bíl Steinunnar, er ekki náungi sem lætur slíkt viðgangast og gerði því slíkt hið sama við minn bíl, auk þess sem hann stal tösku Davíðs í leiðinni. Davíð rýkur þá út úr bílnum og ræðst á Klemma sem var búinn að fela sig í skottinu á bíl Steinunnar - Yarisnum hennar Steinunnar, svo þið getið ímyndað ykkur plássið.
Þ.a. staðan er svona: Klemmi liggur kraminn í skottinu á Yaris með Davíð ofan á sér, Viktor með rúðuþurrku í höndinni, ég úti að loka bílhurðunum á bílnum mínum og bíllinn minn því ökumannslaus. Þá gerðum við okkur grein fyrir því að hinum megin við götuna hafði stoppað lögreglubíll með blikkandi ljós.

Præsless.

(P.S. Engin sekt - bara ábending um að vera bara heima ef við ætlum að haga okkur eins og fífl.)

Þversögn

Vegna þess hve mikið ég hef haft að gera hef ég efni í gígantískt blogg en ég hef haft svo mikið að gera að bloggið sjálft verður að bíða betri tíma.

...vonandi á morgun...

(Btw: Himininn við sólina kl. 00:30 áðan var ein fallegasta sjón sem ég hef séð...
...nánast efni í blogg út af fyrir sig. Verst að ég hef haft svona mikið að gera.)

19. júní 2007

Djók?

(Keiluhöllinni í Öskjuhlíð kl. 22:30 (ca.))

Afgreiðslustelpa: ...og hvað er skónúmerið þitt?
Ég: 48.
Afgreiðslustelpa: Ertu að grínast?
Ég: Heh, nei.
Random viðskiptavinur: Sjiiiiiiitt....

6. júní 2007

Stríð og friður

Hér með lýkur minni mánaðalöngu eftirhermu af hroðalega lélegum bloggara og vona ég að þið hafið notið vel.

Margt hefur drifið á daga mína síðan ég tók mér ofangreint afrek fyrir hendur á má þar helst nefna:

1. Ég kláraði prófin, stóðst þau öll - sum aðeins tæplegar en önnur - og er því öruggur inn í 6.bekk!

2. Ég hóf í kjölfarið garðvinnu í Garðakirkjugarði á Garðaholti í Garðabæ (það er í svona aðstöðu sem óska þess að ég þekkti einhvern sem heitir Garðar...). Mín biðu þó óvæntar fréttir þar sem ég hafði undirbúið mig undir að hefja störf með 5 stelpum en mætti þess í stað á vinnustað þar sem strákar eru í meirihluta. Ánægjuleg uppgötvun? Við látum svarið bíða betri tíma...

3. Ég held áfram að æfa með meistaraflokki Álftaness sem situr nú eins og stendur í 4. sæti síns riðils í þriðju deildinni með 2 stig eftir 3 leiki. í ljósi þessa gengis finnst mér nauðsynlegt að taka það fram að ég hef ekki spilað í þessum leikjum.

4. Ég sá Sigga Hall ganga syngjandi í átt að bílnum sínum niðri í miðbæ.

5. Ég er skráður á sumarnámskeið í hljómfræði I í Listaháskóla Íslands og fer létt með... ennþá...

6. Ég fór á Álftnesinga-"Reunion" síðustu helgi til að fagna því að við vorum öll í Álftanesskóla á einhverjum tímapunkti. Það er gaman að fagna hlutum. Í góðra vina hóp. Í ágætu veðri. Í partýi þar sem boðið er upp á bollu.

7. Ég keyrði minn fyrsta Laugavegsrúnt á föstudaginn var. Ég varð þreyttur í vinstri fætinum.

8. Ég var kallaður "köttaður" mér til mikillar ánægju. Ánægjan dvínaði örlítið er ég uppgötvaði að hrósið kom frá hálfberum karlmanni.

9. Ég skrifaði langa bloggfærslu.

10. Ég fór að sofa eftir að hafa skrifað langa bloggfærslu.

...