31. júlí 2007

Heiðarleiki => Powerade

Fótboltaæfing
=>Ganga frá dótinu með Ellunum
=>Finna DVD-disk í mölinni
=>Skila disknum á Bessann
=>Fá Powerade í fundarlaun.

Heiðarleikinn bragðast vel.

19. júlí 2007

Vikan í 17 orðum á dag

Sunnudagur:
Vaknaði seint, þreyttur, eftir grillið hjá Oddi. Fór í tívolíið og í gott bíó með góðu fólki.

Mánudagur:
Fékk mígrenikast þannig að ég sleppti vinnu. Fór á fótboltaæfingu og hitti seinna sama ofangreinda góða fólk.

Þriðjudagur:
Rólegur vinnudagur. Fór á fótboltaæfingu og meiddi mig í tánni. Bauð góðu fólki í grill og gaman.

Miðvikudagur:
Gerðum *ekkert* í vinnunni. Fékk RayBan sólgleraugun mín úr viðgerð og samdi góða byrjun á nýju lagi.

Fimmtudagur:
Blotnaði í vinnunni. Var mjög illt í tánni en fór samt á fótboltaæfingu. Skrifaði frekar súra bloggfærslu.

Af hverju 17 orð á dag?
...af hverju ekki?

14. júlí 2007

Stereoflipp

Þetta er örugglega eitt það flippaðasta sem ég hef hlustað á.
Setjið á ykkur heyrnatól (það verður að hlusta á þetta í heyrnatólum, annars virkar það ekki), smellið á linkinn hér fyrir ofan, hunsið alla portúgölskuna á síðunni og smellið bara beint á "play" takkann og njótið!

10. júlí 2007

Hroki og fáviska

Fólk er fífl.

Þetta er frasi sem ég haft mikla trú á síðustu ár og þá *sérstaklega* í sambandi við internetheiminn. Að sjálfsögðu er þetta ekkert algild regla, því eins og með flestar aðrar reglur (ef ekki allar) eru undantekningar.
Ástæða þess að ég minnist á þetta núna er sú að ég var aðeins í sakleysi mínu að fletta í gegnum www.imdb.com og skoða ýmsar myndir sem og umsagnir um nokkrar þeirra. Það er alveg sama hve góðar myndirnar þykja, það eru alltaf slatti af einstaklingum sem eru mættir til að drulla yfir hlutina.
En ekki misskilja mig. Allir hafa rétt á sínum skoðunum og allt það dæmi. Ef einhver er ekki hrifin af einhverju, þá má sá hinn sami alveg láta það í ljós. Ég veit að ég hef gert það og ég mun halda áfram að gera það (t.d. núna : Mér finnst Dark Side of the Moon með Pink Floyd leiðinlegur). En það er þegar fólk drullar yfir skoðanir annarra og heldur því fram að sínar skoðanir séu þeim æðri sem mér finnst komið nóg.

Ég var sem sagt að lesa umsagnir frá ýmsu fólki um hinar ýmsu myndir, þá sér í lagi Garden State og Oldboy.
Eins og alkunnugt er er Garden State ein af mínum uppáhaldsmyndum og hún hafði einhver áhrif á mig sem engin mynd hefur áður gert. Mér fannst hún bara eitthvað svo hjartnæm og sæt að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Þess vegna fer það mjög illa í mig þegar einhver Gummi fyrir vestan segir: "I just want to reiterate how bad this movie is. If you like this movie, then you just haven't seen many movies. This is a cliché, self indulgent, angst ridden high school teen movie.".
Þetta er það sem ég þoli ekki við "fólk" (munið : undantekningar).
Hvaða rétt hefur þessi manneskja til að fullyrða eitthvað svona um kvikmyndasmekk minn (og greinilega marga annarra - Garden State er með 8,0 í einkunn)?
Sömu sögu er að segja af Oldboy. Þarna er mynd sem vakti áhuga minn á erlendum myndum og opnaði fyrir mér nýjar dyr inn í nýjan kvikmyndaheim. Og aftur fer það í mig þegar einhver Sigga fyrir austan segir : "I realized too late that all of the positive reviews are posted by teenage boys. Grow up, boys. Grow up. Go out and see the world."
Ég kýs að telja mig vera nokkuð þroskaðan einstakling og þess vegna verð ég hreinlega pirraður út í slíkar yfirlýsingar.

Kannski eru margir ósammála mér og finnst ég vera að taka þessu of persónulega.
Það er líka bara allt í lagi. Fólki má alveg finnast það. En strax og það fer að gera lítið úr mínum skoðunum þá fæ ég nóg.

Smekkur fólks og skoðanir er ekki rökræðuhæft efni.

6. júlí 2007

Mr. Skallagrímsson

Kóm(ed)ísku jafnvægi hefur verið komið á á ný.

Í gær fór ég á Evan Almighty með miklar hláturtengdar væntingar og uppskar mjög lítið.
Í kvöld fór ég á Mr. Skallagrímsson með sæmilegar hláturtengdar væntingar og uppskar svo miklu, miklu meira.

Þessi sýning var svo miklu skemmtilegri, svo miklu fyndnari og svo miklu notalegri (óformleg og kammó) en ég hafði ímyndað mér. SVONA á að kenna þetta í menntaskólum!

5. júlí 2007

Evan-gelísk vonbrigði

Ég var kannski ekkert búinn að búa mig undir neitt meistaraverk en ég átti nú von á því að geta hlegið duglega að mynd sem inniheldur Steve Carell, Morgan Freeman, John Goodman og Wöndu Sykes.

"Duglega" voru allt of háar væntingar.

Auðvitað voru sniðugir brandarar í þessu og að sjálfsögðu er alltaf hægt að hlæja að Steve Carell öskrandi af hræðslu. En það endist manni bara í ákveðinn tíma. Húmorinn var miklu fjölskylduvænni en ég átti von á (t.d. má nefna 5 mínútna langa atriðið sem sýnir Steve Carell meiða sig á margvíslegan hátt við smíðar) og eftir hlé (sem ég er ennþá ósáttur við, btw) vék húmorinn fyrir kjánalega augljósri leið til að benda á hinn kristna boðskap myndarinnar. Það er ekki laust við það að maður hafi fengið smá kjánahroll oftar en sex (ca.) sinnum.

Þetta er kannski ekkert svo slæm mynd, ef þú ferð á hana í von um að sjá fyndna fjölskyldumynd með fullt, fullt, fullt af dýrum. En ef þú ert að leita að "frábærri gamanmynd", þá myndi ég bara geyma peninginn og leigja mér Clerks 2 á DVD í staðinn.

3. júlí 2007

Viðlíkingar

Einhver lítil stelpa: *bendir á mig á fótboltaæfingu mfl. Álftaness* "Hey, vá - Eiður Smári er að æfa með þeim!"Heiðdís: "Þú ert nákvæmlega eins og gaurinn, þarna! Þessi sem leikur í "The Mummy"!"Árdís (minnir mig): "Mér hefur alltaf fundist þú soldið líkur Mr. Incredible..."Já... þið segið það...
Hreint út sagt sláandi.