16. febrúar 2011

Óskarsvangaveltur

Já, þessi tími ársins er kominn aftur sem þýðir bara eitt: Ég er búinn að horfa á sjittlód af bíómyndum undanfarna daga. Ég hef lagt það í vana minn undanfarin ár að sjá a.m.k. allar myndirnar sem tilnefndar eru sem besta mynd áður en verðlaunin eru tilkynnt; Verkefni sem var ekki auðveldað þegar þeir fjölguðu tilnefndu myndunum upp í 10. En þá kemur sér vel að þetta er verkefni sem mér leiðist alls ekki að sinna.
En ég er sumsé búinn að horfa á hinar 10 tilnefndu myndir sem og nokkrar til viðbótar sem tilnefndar eru í öðrum flokkum og hef að mestu leyti gert upp hug minn hvað varðar sigurvegara.
Listinn lítur þá svona út:
(Athugasemd 1: Ég mun ekki ræða neitt ítarlega um *ALLA* flokkana. Ég meina - hver myndi nenna að lesa það?
Athugasemd 2: Myndir sem ég hef ekki séð eru skáletraðar.
Athugasemd 3: Stóru, "merkilegu" flokkarnir eru neðst í listanum.
Athugasemd 4: Djók - það er engin athugasemd 4.
Athugasemd 5: Sigurvegarar í hverjum flokki eru feitletraðir.
Athugasemd 6: Haha - aftur! Rúst!
Athugasemd 7: Þessi listi táknar frekar það sem ég *vil* að vinni frekar en það sem ég *held* að muni vinna)

Best Short Film, Live Action
The Confession
The Crush
God of Love
Na Wewe
Wish 143


Þetta skot er algjörlega út í bláinn, þar sem ég hef hvorki séð né heyrt um þessar myndir.

Best Short Film, Animated
Day & Night
The Gruffalo
Let's Pollute
The Lost Thing
Madagascar, a Journey Diary


Þetta er nokkuð mikið gisk, þó ögn minna en hér fyrir ofan, en Day & Night er eina myndin af þessum sem ég hef séð. Burtséð frá því, þá skemmti ég mér mjög vel yfir henni - enda um Pixar verkefni að ræða.

Best Documentary, Short Subjects
Killing in the Name
Poster Girl
Strangers No More
Sun Come Up
The Warriors of Qiugang


Aftur hef ég ekki séð neina þessara mynda, en ég ætla að skjóta á Poster Girld - bara því þetta er amerísk hátíð og myndin fjallar um klappstýru sem fer í herinn. Bandaríkjamenn elska svoleiðis.

Best Documentary, Features
Exit Through the Gift Shop
GasLand
Inside Job
Restrepo
Waste Land


Ágiskun - og ekki einu sinni menntuð.

Best Achievement in Visual Effects
Alice in Wonderland
Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 1
Hereafter

Inception
Iron Man 2

Af hverju? Því Inception er effin' drullutöff.

Best Achievement in Sound Mixing
Inception
The King's Speech
Salt
The Social Network
True Grit

Aftur - Inception er ýkt mergjuð.

Best Achievement in Sound Editing
Inception
Toy Story 3
TRON: Legacy
True Grit
Unstoppable

TRON fannst mér hreinlega bjóða upp á meira af svölum hljóðum en Inception til að fokka í. Auk þess var hljóðið þegar tölvugaurarnir sundruðust í pixla eftirminnilega töff. A.m.k fannst mér það. Já - ég er nörd - og finnst það bara töff.

Best Achievement in Costume Design
Alice in Wonderland : Colleen Atwood
I Am Love : Antonella Cannarozzi

The King's Speech : Jenny Beavan
The Tempest : Sandy Powell
True Grit : Mary Zophres

Breskar períodumyndir virðast alltaf vinna þetta. Ég sé ekki af hverju það ætti að breytast núna (og nei, Helga Jó, ég sá ekkert athugavert við búningana - enda kannski ekki undir smásjánni hjá mér þegar ég horfði á myndina).

Best Achievement in Makeup
Barney's Version : Adrien Morot
The Way Back : Edouard F. Henriques, Greg Funk, Yolanda Toussieng

The Wolfman : Rick Baker, Dave Elsey

Förðunin var það eina - og þá meina ég ÞAÐ EINA - sem var töff við The Wolfman. Framleiðendanna vegna, vona ég að hún vinni þó þetta.

Best Achievement in Art Direction
Alice in Wonderland : Robert Stromberg, Karen O'Hara
Harry Potter and the Deathly Hallows: Part 1 : Stuart Craig, Stephenie McMillan

Inception : Guy Hendrix Dyas, Larry Dias, Douglas A. Mowat
The King's Speech : Eve Stewart, Judy Farr
True Grit : Jess Gonchor, Nancy Haigh

Er soldið reikull á milli Inception og Lísu í Undralandi - en ætla að skjóta á Inception. Ég meina - þeir voru í draumi inni í draumi inni í draumi inni í draumi...

Best Achievement in Editing
127 Hours : Jon Harris
Black Swan : Andrew Weisblum
The Fighter : Pamela Martin
The King's Speech : Tariq Anwar
The Social Network : Kirk Baxter, Angus Wall

Ég hef ekki hugmynd um þetta, í raun og veru, en ég ætla að halda með 127 Hours. Nógu mikið af fríkí flashbacksplitscreensjitti til að leika sér með.

Best Achievement in Music Written for Motion Pictures, Original Song

127 Hours : A.R. Rahman, Rollo Armstrong, Dido ("If I Rise")
Country Strong : Tom Douglas, Hillary Lindsey, Troy Verges ("Coming Home")
Tangled : Alan Menken, Glenn Slater ("I See the Light")

Toy Story 3 : Randy Newman ("We Belong Together")

Það er kominn tími á að Alan Menken vinni aftur. Ég hef ekki heyrt lagið, en ég þykist vita að það sé gott. Þetta er nú einu sinni Alan Menken.

Best Achievement in Music Written for Motion Pictures, Original Score
Nominees:
127 Hours (2010): A.R. Rahman
How to Train Your Dragon : John Powell
Inception : Hans Zimmer
The King's Speech : Alexandre Desplat
The Social Network : Trent Reznor, Atticus Ross

Bara ekki láta A. R. Rahman eða Trent Reznor vinna - músíkin er bara ekki nógu töff fyrir minn smekk. Eins finnst mér King's Speech ekki vera óskarsefni, þar sem eina atriðið þar sem músíkin gerði sig breiða og gaf mér eitthvað í áttina við gæsahúð var ekki eftir Alexandre Desplat, heldur annað öllu stærra og dauðara tónskáld. Ég var alveg handviss um Zimmer sigur þar til í gær þegar ég horfði á How to Train Your Dragon, sem mér fannst líka alveg gullfallegt og flott score - eeeen Zimmer hefur ekki unnið síðan 1995, þ.a. hann á það soldið inni. Ekki skemmir fyrir flotta Edith Piaf pælingin á bakvið músíkina.

Best Foreign Language Film of the Year
Biutiful : Alejandro González Iñárritu (Mexico)
Dogtooth : Giorgos Lanthimos (Greece)
In a Better World : Susanne Bier (Denmark)
Incendies : Denis Villeneuve (Canada)
Outside the Law : Rachid Bouchareb (Algeria)


Danir eru nú einu sinni frændur okkar...

Best Achievement in Cinematography
Black Swan : Matthew Libatique
Inception : Wally Pfister
The King's Speech : Danny Cohen
The Social Network : Jeff Cronenweth
True Grit : Roger Deakins

Eins og það var aðdáunarvert að ná að fela myndavélarnar í öllum speglasenunum í Black Swan og eins og t.d. snúningsgangasenan í Inception var ógó geggjuð, þá var True Grit ofboðslega falleg. Líka það að þetta væri þá 10. tilnefning Rogers Deakins án þess að vinna... sem er bara leim.

Best Writing, Screenplay Written Directly for the Screen
Another Year : Mike Leigh
The Fighter : Scott Silver, Paul Tamasy, Eric Johnson, Keith Dorrington
Inception : Christopher Nolan
The Kids Are All Right : Lisa Cholodenko, Stuart Blumberg
The King's Speech : David Seidler

„Knighthood?“ segir allt sem segja þarf.

Best Writing, Screenplay Based on Material Previously Produced or Published
127 Hours : Danny Boyle, Simon Beaufoy
The Social Network : Aaron Sorkin
Toy Story 3 : Michael Arndt, John Lasseter, Andrew Stanton, Lee Unkrich
True Grit : Joel Coen, Ethan Coen
Winter's Bone : Debra Granik, Anne Rosellini

Hverjir skrifa betri samtöl en Coen bræður? (Kannski fyrir utan Tarantino...)


Best Animated Feature Film of the Year
How to Train Your Dragon : Dean DeBlois, Chris Sanders
The Illusionist : Sylvain Chomet
Toy Story 3 : Lee Unkrich

Toy Story 3 vinnur þetta - klárlega. Samt, ef þetta væru ekki trilogíulok á mjög merkilegri seríu, þá myndi ég hugsanlega velja How to Train Your Dragon...

Best Achievement in Directing
Darren Aronofsky for Black Swan
Ethan Coen, Joel Coen for True Grit
David Fincher for The Social Network
Tom Hooper for The King's Speech
David O. Russell for The Fighter

Mig grunar að David Fincher muni taka þetta - en mig langar að halda með Aronofsky í þetta sinn. Black Swan var bara það mögnuð.

Best Performance by an Actress in a Supporting Role
Amy Adams for The Fighter
Helena Bonham Carter for The King's Speech
Melissa Leo for The Fighter
Hailee Steinfeld for True Grit
Jacki Weaver for Animal Kingdom

Ég gæti vel trúað því að Helena Bonham Carter vinni fyrir King's Speech og hún var mjög góð - hún má eiga það - en aftur á móti fannst mér hennar hlutverk ekki eins krefjandi og hlutverk Melissu Leo í Fighter, sem mér fannst ótrúlega töff.

Best Performance by an Actor in a Supporting Role
Christian Bale for The Fighter
John Hawkes for Winter's Bone
Jeremy Renner for The Town
Mark Ruffalo for The Kids Are All Right
Geoffrey Rush for The King's Speech

Hann er svona 50 kílóa krakkháður egóisti, nagaður af svekkelsi - ef það er ekki óskarshlutverk, þá veit ég ekki hvað. En ef ég þyrfti að velja varamann, þá er það klárlega Geoffrey Rush.

Best Performance by an Actress in a Leading Role
Annette Bening for The Kids Are All Right
Nicole Kidman for Rabbit Hole
Jennifer Lawrence for Winter's Bone
Natalie Portman for Black Swan
Michelle Williams for Blue Valentine

Ef þú hefur séð Black Swan, þá skilurðu hvað ég meina.
Ef þú hefur ekki séð Black Swan, þá skaltu fara og sjá hana svo þú skiljir hvað ég meina.

Best Performance by an Actor in a Leading Role
Javier Bardem for Biutiful
Jeff Bridges for True Grit
Jesse Eisenberg for The Social Network
Colin Firth for The King's Speech
James Franco for 127 Hours

100% viss. Og hananú!

Best Motion Picture of the Year
127 Hours
Black Swan
The Fighter
Inception
The Kids Are All Right
The King's Speech
The Social Network
Toy Story 3
True Grit
Winter's Bone

Mjög erfitt val - og þá meina ég MJÖG erfitt - en ef ég miða við bíóupplifunina, þá hafði Black Swan mestu áhrifin á mig. Þetta gekk bara allt upp, einhvern veginn, og skildi mig eftir í nettu sjokki (á góðan hátt, samt).
Samt grunar mig að King's Speech taki þetta... og ég yrði bara ekkert sár ef það gerðist.

Jahá!
Þetta voru soldið fleiri flokkar en ég hélt...
...eeen endilega látið í ykkur heyra!

Löngu kominn tími á góðan kommentafjölda hérna...

4. janúar 2011

Hækuannáll 2010

Nú er komið að persónulegum fréttaannál fyrir árið 2010.
En þar sem ég er skemmtilega furðulegur ætla ég ekki að hafa hann í hefðbundnum texta, heldur í hækuformi, þar sem hver mánuður á sitt erindi.

Janúar
Ár hófst, að vanda.
Við Guðrún vorum ei meir -
Mjög vondur tími.

Febrúar
Lífið hélt áfram,
varð tuttugu og tveggja,
Fékk mörg jelloshots.

Mars
Safnaði mottu,
Tapaði í Útsvari.
Fokking Garðabær...

Apríl
Breytti herbergi.
Elli sprengdi lærið mitt.
Fagnaði vori.

Maí
Ég samdi tónlist
fyrir tvær töff stuttmyndir.
Datt svo vel í það.

Júní
Naut sumarsins vel
Vann eins og brjálæðingur
á milli teita.

Júlí
Samdi fínt djammlag
fyrir vinaárshátíð
Naut lífs og vina.

Ágúst
Fór á Þjóðhátíð
var með mjög svo flottan hatt.
Sjitt - það var gaman!

September
Skólinn byrjaði.
Fór að hlusta á Steve Reich
Samdi svo tónlist.

Október
Varð semi-frægur
Fyrir að autotuna
- fékk ekki píkur.

Nóvember
Sinnti skólanum
og samdi drög að ritgerð.
Hún klárast í vor.

Desember
Fór til Amsterdam,
Amsterdjammaði mikið.
Kláraði árið.

Nú er bara málið að krossleggja fingur og vona að nýja árið verði enn betra og að næsti annáll verði ítarlegri!

30. desember 2010

Heitastrenging

Ég hef aldrei lagt það neitt sérstaklega í vana minn að strengja áramótaheit.
A.m.k. aldrei af neinni alvöru. Ég hef mögulega hent fram einhverju klassísku klisjumarkmiði eins og að „hætta að borða nammi“ eða „ná heimsyfirráðum fyrir júlí“ eða eitthvað álíka - en venjulega gefist upp á þeim nokkuð snemma.
En ég ætla að gera tilraun til að strengja nokkur stór áramótaheit fyrir árið 2011.
Því þetta er árið 2011.
Ég verð 23 ára árið 2011.
Það er svolítið klikkað að sjá það svona svart á hvítu (eftir að ég birti þetta blogg, þá verður það reyndar hvítt á svörtu - en hugmyndin er sú sama.)

En hvað um það.
Hér koma nokkur alvöru áramótaheit.

1. Léttast um slatta af kílóum
Ég geri mér grein fyrir því að þetta markmið er álíka algengt á áramótunum og klám er á netinu - en þetta er eitthvað sem ég *MUN* standa við! Ég hef logið þessu að sjálfum mér áður en ég hef fulla trú á því að í þetta sinn muni ég geta staðið við það.
Ég er nefnilega orðinn ógeðslegur í vexti.
...
Ógeðslegur er kannski fullsterkt til orða tekið, en ég er kominn einu skrefi nær því að verða ógeðslegur en ég kæri mig um.
Til dæmis núna þar sem ég sit við tölvuna og skrifa þetta inn, lít ég niður á magann á mér og - hvað á maður að segja... - ég verð ekki glaður. Langt frá því.
Sumsé - nú er ég 'a' kíló og planið er að í útskriftinni minni í júní verði ég (√'a' x 9) kíló! (Einnig má líta á það sem 'a' - 15 kíló ef ykkur finnst það auðveldara...)

2. Læra á gítar
Já - ég sagði það.
Ég vil hafa möguleikann á að detta í 'trúbadorinn' í partýum - þó svo ég lofi engu um að ég muni gera það, þá vil ég hafa möguleikann. Auk þess er gítarinn ögn handhægari en flygill...

3. Búa einn
Taka skal fram að 'einn' þýðir í þessu tilfelli ekki endilega bókstaflega 'einn', heldur þýðir þetta meira 'ekki í foreldrahúsum'.
Hvort sem það verði í Amsterdam eða Reykjavík eða Hafnarfirði eða Dubai (það verður ekki í Dubai) þá langar mig að upplifa það að búa og lifa á eigin forsendum (ekki það að ég búi undir einhverju harðræði hjá mömmu og pabba). Ég held ég hafi bara gott af því. Ég meina, ég verð nú einu sinni 23 ára árið 2011...

4. Semja betri tónlist en áður
Ef mér tekst þetta ekki, þá á talsvert stórt vandamál frammi fyrir mér...

5. Taka stærri skref
Líf-lega séð, ekki spor-lega.
Sjá færslu 1 og færslu 2.
Ég er orðinn mjög þreyttur á þessari blessuðu skel minni, þó svo - jú - ég hafi flutt í stærri skel fyrir örfáum árum, þá er nýja skelin ennþá fullþröng.

Þannig hljóðar þetta.
Stórt ár fyrir höndum...

...bring it on, bitches!

Gleðilegt nýtt ár!


(P.S. Yfirlit yfir árið 2010 kemur stuttu eftir áramót - stay tuned!)

20. desember 2010

Neikvæður innblástur

Ég hata hvað mig langar oft að setjast niður og skrifa einhvern fallegan texta þegar ég hlusta á fallega músík. Verst hvað tónlistin sem ég er að hlusta á er alltaf miklu fallegri en það sem mér tekst að klóra fram.
Hún er í raun og veru fallegri en hvað sem ég geri, burtséð frá listformi.

Sköpunargleðin fæðist andvana.

2. nóvember 2010

Handan glersins

"Hvað er málið með þennan gæja?!"
Hann sat í sætinu við gluggann og hefði það verið eðlisfræðilega mögulegt þá hefði hann setið inni í honum. Það fannst honum alla vega, miðað við hvernig svartklæddi, ljóshærði maðurinn sat alveg upp við hann.
Er þessi fáviti ekki nógu ánægður með að hafa fengið sæti í strætónum yfir höfuð? Þarf hann virkilega að fá mitt líka?
Hann vissi alveg að hann gat leyft sér að drulla yfir ljóshærða manninn í huganum eins og hann vildi - það var ekki eins og hann myndi einhvern tímann láta óánægju sína í ljós í raun og veru. Hann þekkti sjálfan sig nógu mikið til þess að vita að það þyrfti talsvert mikið meira en plássfrekan strætófarþega til að slíta af honum beislin og reita hann virkilega til reiði. Þannig að hann bölvaði manninum einu sinni enn í hljóði, hækkaði í iPodnum og fylgdist með hægri föstudagseftirmið-degisumferðinni út um gluggann. Það var kannski ekkert gríðarlega spennandi viðfangsefni í sjálfu sér, en hann stóð í þeirri trú að með réttri tónlist væri hægt að horfa á málningu þorna og samt verið spenntur.
En einbeitingin var rofin skömmu síðar þegar hann fann hvernig heitur þrýstingurinn á vinstra lærið á honum hvarf. Hann leit snögglega til hliðar og þar blasti við honum svartklæddur afturendi ljóshærða mannsins sem hafði staðið upp og stefni hægum skrefum í átt að afturdyrunum. Augu hans fylgdu ljóshærða manninum varlega eftir eins langt og hann þorði, svo hann væki nú ekki óþarfa athygli annarra farþega, en hann var þó eiginlega alveg búinn að snúa sér við í sætinu þegar ljóshærði maðurinn steig loksins út úr vagninum.
Það var ekki fyrr en hann fann aftur einhverja snertingu við lærið á sér sem hann áttaði sig á því hvernig hann hlyti að líta út, þar sem hann sat allur snúinn í sætinu og sneri sér því leiftursnöggt til baka áður en hann færi að roðna.
En í miðjum snúningi fraus allur hugsunagangur hans.
Ótti hans við smá roða í kinnum varð að engu og pirringurinn út í plássfreka ljóshærða manninn var gleymdur með öllu.
Honum fannst meira að segja tónlistin í heyrnartólunum þagna.

Hann horfði á hana.
Hann starði eiginlega.
Sólsetur yfir sjónum. Grasi gróin fjallshlíð eftir rigningarskúr. Kolsvartur, stjörnubjartur næturhiminn. Allt það sem hann hafði talið vera sanna fegurð vék fyrir nýrri skilgreiningu:
Fegurðin var dökkhærð, í gráum jakka og notaði strætó.

Hann starði í hátt í tvær sekúndur áður en hann kláraði snúninginn sem hann hafði byrjað á í síðasta lífi; Lífi þar sem hann hélt að hann þekkti fegurðina.
Hann sat nánast stjarfur við hliðina á henni og vissi ekkert hvernig hann átti að haga sér. Hann kunni ekkert á þetta nýja líf - þessa nýju fögru tilveru. Hann var ekki einu sinni viss hvort þessi heimur hlýddi sömu eðlisfræðilegu lögmálum og sá gamli hafði gert. Hann snerti rúðuna varlega með vísifingri hægri handar, bara til að athuga hvort hún væri ekki ennþá gegnheil.
Rúðan var alveg hörð og þegar hann var klesstur upp við hana tuttugu sekúndum fyrr.
Hann leit kæruleysislega aftur til vinstri. Eða, hann vonaði að það liti kæruleysislega út. Hefði hann fylgt löngun sinni algjörlega eftir þá hefði hann rofið hljóðmúrinn með snúningshraðanum. En það myndi væntanlega sundra rúðunni og hinum nýja fagra heimi með henni. Það vildi hann ekki.
Þannig að hann leit kæruleysislega til vinstri en að þessu sinni mættust augu þeirra eitt andartak.

Í gegnum árin - þessi rúmu 20 sem hann hafði upplifað - hafði hann heyrt og lesið ótalmargar lýsingar karlmanna þegar þeir litu í augu fagurrar stúlku og hann hafði því búið sig undir að geta "týnt sér í hinu bláa kyrrðarhafi sem voru augu hennar" en það var bara kjaftæði.
Hann sá ekki nein kyrrðarhöf. Hann sá enga glitrandi demanta. Hann sá ekki einhverja ímyndaða hamingjusama framtíð með henni.
Hann sá bara hana.
Hann sá ekkert nema hana.
Það var fallegra en nokkur myndlíking gæti mögulega höndlað.

Hann áttaði sig skyndilega á því að hann hafði ekki hugmynd um hve lengi hann hefði horft í augun á henni en þar sem hún hafði ekki enn litið undan þá gerði hann ráð fyrir því að það hefði alls ekki verið lengi. Hann ákvað því að verða fyrri til og brosti því feimnislega til hennar og leit undan. Hann sá þó útundan sér að hún gerði slíkt hið sama.

Fegurðin tapaði engu á brosinu. Þvert á móti. Við stjörnum prýddan næturhimininn hafði bæst litríkasta norðurljósaslæða sem sést hefur.

En þar sem hann sat við hliðina á henni í troðfullum strætónum áttaði hann sig á því að nú myndu vandamál hans byrja.
Hvað í andskotanum á ég að segja við hana?! Ég verð að segja eitthvað! Ég get ekki leyft sjálfum mér að sitja hérna þögull og brosa bara eitthvað út í loftið eins og einhver fáviti! Það væri móðgun við mannkynið að reyna ekki einu sinni!
Hann renndi hratt í huganum yfir allar mögulegar setningar sem hann gæti sagt til að hefja samræðurnar án þess að hljóma eins og lúði, nörd, fáviti, tilgerðarlegur spaði, pervert, geðsjúklingur eða allt í senn. Ekkert virtist fullnægja skilyrðunum.
Honum varð þó skyndilega hugsað til samræðna vinkvenna sinna. Aðeins fáeinum dögum áður höfðu þær komist að þeirri niðurstöðu að þeim fannst alltaf mest heillandi þegar strákurinn einfaldlega mannar sig upp, gengur til stelp---
„Fyrirgefðu, átt þú þetta?“

Þankagang hans rak í rogastans þegar hann heyrði rödd hennar.
Þessi rödd.
Þessi rödd var fegurri en nokkur tónlist sem hann hafði heyrt.
Þessi rödd hlaut að vera fegurri en nokkur tónlist sem samin hefur verið.
Það bara hlýtur að vera, annars hefði einhverju tónskáldinu dottið í hug að nota rödd hennar í verk sitt; Tónaljóð fyrir strengjakvartett og rödd fegurðarinnar.

Hann leit á hana þar sem hún hélt um iPodinn hans og horfði á hann spurnaraugum. Hann flýtti sér að kippa nú ótengdum heyrnartólunum úr eyrunum. Hann vissi ekkert hvenær iPodinn hafði dottið í jörðina né hvernig það hafði gerst án þess að hann tæki eftir því. „Já - vá - Ö, takk!“ sagði hann og tók við iPodnum. „Vandræðalegt...“ bætti hann við og brosti aftur.
Hann var nokkuð viss um að kinnaroðinn sem hann hafði óttast áðan væri nú mættur af fullum krafti.
„Bara pínu.“ svaraði hún og glotti örlítið.
„Ég veit samt ekki alveg hvernig ég fór að því að taka ekki eftir þessu sjálfur. Ég meina, það er ekki eins og ég hafi verið að hlusta á John Cage eða eitthvað.“

Hefði hann getað það, þá hefði hann slegið sig í heilann á þessu augnabliki.
Þar fór planið um að hljóma ekki eins og nörd!

En hún virtist ekki hneykslast á honum. Hún virtist ekki missa áhugann. Hún virtist ekki hafa uppgötvað að hún sæti við hliðina á „skrýtna gaurnum“ sem er furðulega oft að finna í strætóum landsins. Þess í stað flissaði hún bara og svaraði: „Nei, kannski ekki. Hann er ekki beint svona iPod-í-strætó hlustunarefni.“

Hann brosti. Hann gat ekki annað. Hlátur hennar greip á einhvern hátt í allar brostengdar taugar í líkama hans. Ef það var eitthvað hljóð í þessum heimi fallegra en rödd hennar, þá var það hláturinn. Ef hann væri til á MP3 formi, þá myndi iPodinn ekki innihalda neitt annað. Það væri algjörlega óþarfi.

„En á hvað varstu að hlusta sem var svona grípandi og skemmtilegt?“ spurði hún stríðnislega.
Hann leit á iPodinn. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann hafði verið að hlusta á áður en hún birtist. Það hafði, jú, verið í fyrra lífi.
„Mumford & Sons.“ svaraði hann. „Þekkirðu þá?“
„Hef bara eitthvað smá heyrt í útvarpinu. Ekkert hlustað á þá af ráði. Eru þeir ekki annars gæjarnir með banjóið?“
„Jú, það passar. Hvernig getur hljómsveit sem inniheldur banjó klikkað?“
Hún brosti til hans og svaraði: „Segðu! Það er allt betra með banjói.“
„Banjóið er eins konar beikon tónlistarheimsins.“ bætti hann við og hló.

Aftur hefði heilinn í honum fengið duglegt högg á þessu augnabliki.
Banjóið er beikon tónlistarheimsins?! Hvað í andskotanum var ég að segja?!

En aftur, honum til ánægjulegrar undrunar hló hún bara með honum. Hann var ekki viss hvort hún væri bara að vera kurteis eða hvort hún væri með jafn furðulegt skopskyn og hann, en honum var í raun og veru algjörlega sama. Fegurðin sat og hló með honum. Hann gat ekki beðið um neitt meira í þessu lífi.
Honum varð litið út um gluggann hægra megin við hann. Hann sá eftir því um leið. Strætóinn var að gera sig tilbúinn til að stoppa og það voru ekki nema 5 eða 6 stoppistöðvar þangað til að það kæmi að hans. Honum fannst venjulega 5 eða 6 stoppistöðvar of lengi að líða en í þetta skiptið yrðu þær allt of fljótar. Og jafnvel hefði hann ekki einu sinni svo langan tíma! Hún gæti farið út eftir 3 eða 4! Á þeirri næstu, þess vegna!
„Af hverju er ég þá ekki að tala við hana núna?“ spurði hann sjálfan sig. Hann gat ekki fundið neina trúverðuga afsökun svo hann leit aftur til hennar. Hann sá líka eftir því samstundis.
Hún var staðin upp.

„Heyrðu, ég fer víst út hérna. Takk fyrir spjallið!“ sagði hún og brosti til hans. Hann brosti til baka, þó það væri einna aftast á hans löngunarlista á þessum tímapunkti. „Já, takk sömuleiðis!“ sagði hann. Hún gekk að afturdyrunum, steig út úr vagninum og tók heiminn með sér.

Hann sat einn eftir í sætinu við gluggann og horfði út. Hinn gamli, litlausi heimur hafði tekið hann í faðm sér aftur, en hann kannaðist ekki við sig. Allt var gjörbreytt.
Hann hafði séð fegurðina. Hann hafði talað við hana. Fegurðin hafði setið við hliðina á honum í nokkrar mínútur og hann hafði ekki einu sinni náð nafninu hennar.
Fegurðin er dökkhærð, í gráum jakka og farinn úr lífi hans.
En hún er til.
Hún er til.

-Einar Sv. Tryggvason


(Taka skal fram að þessi frásögn er aðeins 7% sönn - ég hef setið við hliðina á plássfrekum gaur í strætó.)

13. september 2010

Tímamót

Þar sem ég sat á gervigrasinu á sparkvellinum við Garðaskóla, varð mér litið upp í himininn og sá þar stjörnubjart myrkrið. Það sem flaug strax í gegnum huga minn var aðeins eitt:
Það er að koma vetur - og ég hlakka bara til.

Ég hlakka til að þurfa að dúða mig aðeins upp áður en ég fer út.
Ég hlakka til að finna fyrir fyrstu snjókornunum á andlitinu.
Ég hlakka til að koma heim á kvöldin og staldra örlítið við og stara á stjörnurnar áður en ég stíg inn.
Ég hlakka til að þurfa að klöngrast yfir snjóskafla til að komast út í bíl.
Ég hlakka til að semja tónlist í skammdeginu.
Ég hlakka til að eyða köldum vetrarkvöldum - hvort sem það er innandyra eða utan - með vinum mínum.
Ég hlakka til að þroskast, eldast og upplifa.
Ég hlakka til að halda áfram.

7. september 2010

Frestun

Ég var með nokkuð góða hugmynd að bloggi þegar ég kom heim úr skólanum í dag.
Alveg nokkuð fullmótaða og allt!

En ég ákvað að geyma hana til kvölds og skrifa hana meðan ég hlustaði á fallega músík áður en ég færi að sofa.
Nú sit ég, með fallega músík í eyrunum áður en ég fer að sofa og nenni ekki að skrifa færsluna.

Á morgun segir sá lati...