30. desember 2010

Heitastrenging

Ég hef aldrei lagt það neitt sérstaklega í vana minn að strengja áramótaheit.
A.m.k. aldrei af neinni alvöru. Ég hef mögulega hent fram einhverju klassísku klisjumarkmiði eins og að „hætta að borða nammi“ eða „ná heimsyfirráðum fyrir júlí“ eða eitthvað álíka - en venjulega gefist upp á þeim nokkuð snemma.
En ég ætla að gera tilraun til að strengja nokkur stór áramótaheit fyrir árið 2011.
Því þetta er árið 2011.
Ég verð 23 ára árið 2011.
Það er svolítið klikkað að sjá það svona svart á hvítu (eftir að ég birti þetta blogg, þá verður það reyndar hvítt á svörtu - en hugmyndin er sú sama.)

En hvað um það.
Hér koma nokkur alvöru áramótaheit.

1. Léttast um slatta af kílóum
Ég geri mér grein fyrir því að þetta markmið er álíka algengt á áramótunum og klám er á netinu - en þetta er eitthvað sem ég *MUN* standa við! Ég hef logið þessu að sjálfum mér áður en ég hef fulla trú á því að í þetta sinn muni ég geta staðið við það.
Ég er nefnilega orðinn ógeðslegur í vexti.
...
Ógeðslegur er kannski fullsterkt til orða tekið, en ég er kominn einu skrefi nær því að verða ógeðslegur en ég kæri mig um.
Til dæmis núna þar sem ég sit við tölvuna og skrifa þetta inn, lít ég niður á magann á mér og - hvað á maður að segja... - ég verð ekki glaður. Langt frá því.
Sumsé - nú er ég 'a' kíló og planið er að í útskriftinni minni í júní verði ég (√'a' x 9) kíló! (Einnig má líta á það sem 'a' - 15 kíló ef ykkur finnst það auðveldara...)

2. Læra á gítar
Já - ég sagði það.
Ég vil hafa möguleikann á að detta í 'trúbadorinn' í partýum - þó svo ég lofi engu um að ég muni gera það, þá vil ég hafa möguleikann. Auk þess er gítarinn ögn handhægari en flygill...

3. Búa einn
Taka skal fram að 'einn' þýðir í þessu tilfelli ekki endilega bókstaflega 'einn', heldur þýðir þetta meira 'ekki í foreldrahúsum'.
Hvort sem það verði í Amsterdam eða Reykjavík eða Hafnarfirði eða Dubai (það verður ekki í Dubai) þá langar mig að upplifa það að búa og lifa á eigin forsendum (ekki það að ég búi undir einhverju harðræði hjá mömmu og pabba). Ég held ég hafi bara gott af því. Ég meina, ég verð nú einu sinni 23 ára árið 2011...

4. Semja betri tónlist en áður
Ef mér tekst þetta ekki, þá á talsvert stórt vandamál frammi fyrir mér...

5. Taka stærri skref
Líf-lega séð, ekki spor-lega.
Sjá færslu 1 og færslu 2.
Ég er orðinn mjög þreyttur á þessari blessuðu skel minni, þó svo - jú - ég hafi flutt í stærri skel fyrir örfáum árum, þá er nýja skelin ennþá fullþröng.

Þannig hljóðar þetta.
Stórt ár fyrir höndum...

...bring it on, bitches!

Gleðilegt nýtt ár!


(P.S. Yfirlit yfir árið 2010 kemur stuttu eftir áramót - stay tuned!)

20. desember 2010

Neikvæður innblástur

Ég hata hvað mig langar oft að setjast niður og skrifa einhvern fallegan texta þegar ég hlusta á fallega músík. Verst hvað tónlistin sem ég er að hlusta á er alltaf miklu fallegri en það sem mér tekst að klóra fram.
Hún er í raun og veru fallegri en hvað sem ég geri, burtséð frá listformi.

Sköpunargleðin fæðist andvana.

2. nóvember 2010

Handan glersins

"Hvað er málið með þennan gæja?!"
Hann sat í sætinu við gluggann og hefði það verið eðlisfræðilega mögulegt þá hefði hann setið inni í honum. Það fannst honum alla vega, miðað við hvernig svartklæddi, ljóshærði maðurinn sat alveg upp við hann.
Er þessi fáviti ekki nógu ánægður með að hafa fengið sæti í strætónum yfir höfuð? Þarf hann virkilega að fá mitt líka?
Hann vissi alveg að hann gat leyft sér að drulla yfir ljóshærða manninn í huganum eins og hann vildi - það var ekki eins og hann myndi einhvern tímann láta óánægju sína í ljós í raun og veru. Hann þekkti sjálfan sig nógu mikið til þess að vita að það þyrfti talsvert mikið meira en plássfrekan strætófarþega til að slíta af honum beislin og reita hann virkilega til reiði. Þannig að hann bölvaði manninum einu sinni enn í hljóði, hækkaði í iPodnum og fylgdist með hægri föstudagseftirmið-degisumferðinni út um gluggann. Það var kannski ekkert gríðarlega spennandi viðfangsefni í sjálfu sér, en hann stóð í þeirri trú að með réttri tónlist væri hægt að horfa á málningu þorna og samt verið spenntur.
En einbeitingin var rofin skömmu síðar þegar hann fann hvernig heitur þrýstingurinn á vinstra lærið á honum hvarf. Hann leit snögglega til hliðar og þar blasti við honum svartklæddur afturendi ljóshærða mannsins sem hafði staðið upp og stefni hægum skrefum í átt að afturdyrunum. Augu hans fylgdu ljóshærða manninum varlega eftir eins langt og hann þorði, svo hann væki nú ekki óþarfa athygli annarra farþega, en hann var þó eiginlega alveg búinn að snúa sér við í sætinu þegar ljóshærði maðurinn steig loksins út úr vagninum.
Það var ekki fyrr en hann fann aftur einhverja snertingu við lærið á sér sem hann áttaði sig á því hvernig hann hlyti að líta út, þar sem hann sat allur snúinn í sætinu og sneri sér því leiftursnöggt til baka áður en hann færi að roðna.
En í miðjum snúningi fraus allur hugsunagangur hans.
Ótti hans við smá roða í kinnum varð að engu og pirringurinn út í plássfreka ljóshærða manninn var gleymdur með öllu.
Honum fannst meira að segja tónlistin í heyrnartólunum þagna.

Hann horfði á hana.
Hann starði eiginlega.
Sólsetur yfir sjónum. Grasi gróin fjallshlíð eftir rigningarskúr. Kolsvartur, stjörnubjartur næturhiminn. Allt það sem hann hafði talið vera sanna fegurð vék fyrir nýrri skilgreiningu:
Fegurðin var dökkhærð, í gráum jakka og notaði strætó.

Hann starði í hátt í tvær sekúndur áður en hann kláraði snúninginn sem hann hafði byrjað á í síðasta lífi; Lífi þar sem hann hélt að hann þekkti fegurðina.
Hann sat nánast stjarfur við hliðina á henni og vissi ekkert hvernig hann átti að haga sér. Hann kunni ekkert á þetta nýja líf - þessa nýju fögru tilveru. Hann var ekki einu sinni viss hvort þessi heimur hlýddi sömu eðlisfræðilegu lögmálum og sá gamli hafði gert. Hann snerti rúðuna varlega með vísifingri hægri handar, bara til að athuga hvort hún væri ekki ennþá gegnheil.
Rúðan var alveg hörð og þegar hann var klesstur upp við hana tuttugu sekúndum fyrr.
Hann leit kæruleysislega aftur til vinstri. Eða, hann vonaði að það liti kæruleysislega út. Hefði hann fylgt löngun sinni algjörlega eftir þá hefði hann rofið hljóðmúrinn með snúningshraðanum. En það myndi væntanlega sundra rúðunni og hinum nýja fagra heimi með henni. Það vildi hann ekki.
Þannig að hann leit kæruleysislega til vinstri en að þessu sinni mættust augu þeirra eitt andartak.

Í gegnum árin - þessi rúmu 20 sem hann hafði upplifað - hafði hann heyrt og lesið ótalmargar lýsingar karlmanna þegar þeir litu í augu fagurrar stúlku og hann hafði því búið sig undir að geta "týnt sér í hinu bláa kyrrðarhafi sem voru augu hennar" en það var bara kjaftæði.
Hann sá ekki nein kyrrðarhöf. Hann sá enga glitrandi demanta. Hann sá ekki einhverja ímyndaða hamingjusama framtíð með henni.
Hann sá bara hana.
Hann sá ekkert nema hana.
Það var fallegra en nokkur myndlíking gæti mögulega höndlað.

Hann áttaði sig skyndilega á því að hann hafði ekki hugmynd um hve lengi hann hefði horft í augun á henni en þar sem hún hafði ekki enn litið undan þá gerði hann ráð fyrir því að það hefði alls ekki verið lengi. Hann ákvað því að verða fyrri til og brosti því feimnislega til hennar og leit undan. Hann sá þó útundan sér að hún gerði slíkt hið sama.

Fegurðin tapaði engu á brosinu. Þvert á móti. Við stjörnum prýddan næturhimininn hafði bæst litríkasta norðurljósaslæða sem sést hefur.

En þar sem hann sat við hliðina á henni í troðfullum strætónum áttaði hann sig á því að nú myndu vandamál hans byrja.
Hvað í andskotanum á ég að segja við hana?! Ég verð að segja eitthvað! Ég get ekki leyft sjálfum mér að sitja hérna þögull og brosa bara eitthvað út í loftið eins og einhver fáviti! Það væri móðgun við mannkynið að reyna ekki einu sinni!
Hann renndi hratt í huganum yfir allar mögulegar setningar sem hann gæti sagt til að hefja samræðurnar án þess að hljóma eins og lúði, nörd, fáviti, tilgerðarlegur spaði, pervert, geðsjúklingur eða allt í senn. Ekkert virtist fullnægja skilyrðunum.
Honum varð þó skyndilega hugsað til samræðna vinkvenna sinna. Aðeins fáeinum dögum áður höfðu þær komist að þeirri niðurstöðu að þeim fannst alltaf mest heillandi þegar strákurinn einfaldlega mannar sig upp, gengur til stelp---
„Fyrirgefðu, átt þú þetta?“

Þankagang hans rak í rogastans þegar hann heyrði rödd hennar.
Þessi rödd.
Þessi rödd var fegurri en nokkur tónlist sem hann hafði heyrt.
Þessi rödd hlaut að vera fegurri en nokkur tónlist sem samin hefur verið.
Það bara hlýtur að vera, annars hefði einhverju tónskáldinu dottið í hug að nota rödd hennar í verk sitt; Tónaljóð fyrir strengjakvartett og rödd fegurðarinnar.

Hann leit á hana þar sem hún hélt um iPodinn hans og horfði á hann spurnaraugum. Hann flýtti sér að kippa nú ótengdum heyrnartólunum úr eyrunum. Hann vissi ekkert hvenær iPodinn hafði dottið í jörðina né hvernig það hafði gerst án þess að hann tæki eftir því. „Já - vá - Ö, takk!“ sagði hann og tók við iPodnum. „Vandræðalegt...“ bætti hann við og brosti aftur.
Hann var nokkuð viss um að kinnaroðinn sem hann hafði óttast áðan væri nú mættur af fullum krafti.
„Bara pínu.“ svaraði hún og glotti örlítið.
„Ég veit samt ekki alveg hvernig ég fór að því að taka ekki eftir þessu sjálfur. Ég meina, það er ekki eins og ég hafi verið að hlusta á John Cage eða eitthvað.“

Hefði hann getað það, þá hefði hann slegið sig í heilann á þessu augnabliki.
Þar fór planið um að hljóma ekki eins og nörd!

En hún virtist ekki hneykslast á honum. Hún virtist ekki missa áhugann. Hún virtist ekki hafa uppgötvað að hún sæti við hliðina á „skrýtna gaurnum“ sem er furðulega oft að finna í strætóum landsins. Þess í stað flissaði hún bara og svaraði: „Nei, kannski ekki. Hann er ekki beint svona iPod-í-strætó hlustunarefni.“

Hann brosti. Hann gat ekki annað. Hlátur hennar greip á einhvern hátt í allar brostengdar taugar í líkama hans. Ef það var eitthvað hljóð í þessum heimi fallegra en rödd hennar, þá var það hláturinn. Ef hann væri til á MP3 formi, þá myndi iPodinn ekki innihalda neitt annað. Það væri algjörlega óþarfi.

„En á hvað varstu að hlusta sem var svona grípandi og skemmtilegt?“ spurði hún stríðnislega.
Hann leit á iPodinn. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann hafði verið að hlusta á áður en hún birtist. Það hafði, jú, verið í fyrra lífi.
„Mumford & Sons.“ svaraði hann. „Þekkirðu þá?“
„Hef bara eitthvað smá heyrt í útvarpinu. Ekkert hlustað á þá af ráði. Eru þeir ekki annars gæjarnir með banjóið?“
„Jú, það passar. Hvernig getur hljómsveit sem inniheldur banjó klikkað?“
Hún brosti til hans og svaraði: „Segðu! Það er allt betra með banjói.“
„Banjóið er eins konar beikon tónlistarheimsins.“ bætti hann við og hló.

Aftur hefði heilinn í honum fengið duglegt högg á þessu augnabliki.
Banjóið er beikon tónlistarheimsins?! Hvað í andskotanum var ég að segja?!

En aftur, honum til ánægjulegrar undrunar hló hún bara með honum. Hann var ekki viss hvort hún væri bara að vera kurteis eða hvort hún væri með jafn furðulegt skopskyn og hann, en honum var í raun og veru algjörlega sama. Fegurðin sat og hló með honum. Hann gat ekki beðið um neitt meira í þessu lífi.
Honum varð litið út um gluggann hægra megin við hann. Hann sá eftir því um leið. Strætóinn var að gera sig tilbúinn til að stoppa og það voru ekki nema 5 eða 6 stoppistöðvar þangað til að það kæmi að hans. Honum fannst venjulega 5 eða 6 stoppistöðvar of lengi að líða en í þetta skiptið yrðu þær allt of fljótar. Og jafnvel hefði hann ekki einu sinni svo langan tíma! Hún gæti farið út eftir 3 eða 4! Á þeirri næstu, þess vegna!
„Af hverju er ég þá ekki að tala við hana núna?“ spurði hann sjálfan sig. Hann gat ekki fundið neina trúverðuga afsökun svo hann leit aftur til hennar. Hann sá líka eftir því samstundis.
Hún var staðin upp.

„Heyrðu, ég fer víst út hérna. Takk fyrir spjallið!“ sagði hún og brosti til hans. Hann brosti til baka, þó það væri einna aftast á hans löngunarlista á þessum tímapunkti. „Já, takk sömuleiðis!“ sagði hann. Hún gekk að afturdyrunum, steig út úr vagninum og tók heiminn með sér.

Hann sat einn eftir í sætinu við gluggann og horfði út. Hinn gamli, litlausi heimur hafði tekið hann í faðm sér aftur, en hann kannaðist ekki við sig. Allt var gjörbreytt.
Hann hafði séð fegurðina. Hann hafði talað við hana. Fegurðin hafði setið við hliðina á honum í nokkrar mínútur og hann hafði ekki einu sinni náð nafninu hennar.
Fegurðin er dökkhærð, í gráum jakka og farinn úr lífi hans.
En hún er til.
Hún er til.

-Einar Sv. Tryggvason


(Taka skal fram að þessi frásögn er aðeins 7% sönn - ég hef setið við hliðina á plássfrekum gaur í strætó.)

13. september 2010

Tímamót

Þar sem ég sat á gervigrasinu á sparkvellinum við Garðaskóla, varð mér litið upp í himininn og sá þar stjörnubjart myrkrið. Það sem flaug strax í gegnum huga minn var aðeins eitt:
Það er að koma vetur - og ég hlakka bara til.

Ég hlakka til að þurfa að dúða mig aðeins upp áður en ég fer út.
Ég hlakka til að finna fyrir fyrstu snjókornunum á andlitinu.
Ég hlakka til að koma heim á kvöldin og staldra örlítið við og stara á stjörnurnar áður en ég stíg inn.
Ég hlakka til að þurfa að klöngrast yfir snjóskafla til að komast út í bíl.
Ég hlakka til að semja tónlist í skammdeginu.
Ég hlakka til að eyða köldum vetrarkvöldum - hvort sem það er innandyra eða utan - með vinum mínum.
Ég hlakka til að þroskast, eldast og upplifa.
Ég hlakka til að halda áfram.

7. september 2010

Frestun

Ég var með nokkuð góða hugmynd að bloggi þegar ég kom heim úr skólanum í dag.
Alveg nokkuð fullmótaða og allt!

En ég ákvað að geyma hana til kvölds og skrifa hana meðan ég hlustaði á fallega músík áður en ég færi að sofa.
Nú sit ég, með fallega músík í eyrunum áður en ég fer að sofa og nenni ekki að skrifa færsluna.

Á morgun segir sá lati...

7. ágúst 2010

Svekkjandi

Ég er búinn að eyða dágóðum tíma í að skrifa langa og persónulega færslu um mín einkamál - því ég veit hvað ykkur finnst það gaman - en þegar ég loksins kláraði hana varð ég skyndilega rosalega sjálfsmeðvitaður og finnst hún núna of persónuleg til að ég geti birt hana hér.

Vandræðalegt.

En þess í stað kemur hér lítil vísa um leiðinlegu konuna sem verslaði hjá mér í dag.

"Verðið hátt og úrval lítið.
Starsfólk allt ódannað!
"
Ef þetta er svona fokking slæmt -
drullaðu þér þá bara eitthvað annað!

3. ágúst 2010

Þjóðhátíð 2010

Er ljósin frá flugeldunum lýstu upp andlit þeirra 17.000 gesta sem samankomnir voru í reykfylltum Herjólfsdalnum
- Þá var lífið mikilfenglegt.

Er þessir sömu gestir sameinuðust í söng og þökkuðu Dikta fyrir heiminn
- Þá var lífið stórkostlegt.

Er Árni Johnsen dissaði Anton í klessu
- Þá var líf mitt því miður annars staðar í dalnum.

Er Ragga Gísla sagði öllum frá því hvernig Sísí fríkaði út, þrátt fyrir að allir áheyrendur vissu hvernig
- Þá var lífið frábært.

Er ég stóð í bestu rennibraut landsins og púllaði Supermanninn við mikinn fögnuð sundlaugargesta
- Þá var lífið 'awesome'.

Er 17.000 manns hrópuðu af öllum lífs og sálarkröftum: "GILZ KELLING!"
- Þá var lífið ógeðslega fyndið.

Er við sátum á þilfari Herjólfs og sigldum innan um eyjarnar á leið til Heimaeyjar og ræddum hver þeirra væri best til að standa af sér uppvakningaárás
- þá var lífið furðulega spennandi.

Er eldtungur brennunnar teygðu sig upp í himininn og hituðu upp dalinn
- Þá var lífið gullfallegt.

Er ég kláraði lundabitann sem einhver eyjapeyji gaf mér
- Þá var lífið of fátækt af lundakjöti.

Er Viktor reyndi að koma mér saman við 45 ára gömlu útúrdrukknu konuna sem greip í mig til þess eins að standa í lappirnar
- Þá var lífið vandræðalegt.

Er ég var laus við þessa sömu konu
- Þá var lífið laust við Viktor í dágóðan tíma.

Er blysin kviknuðu í brekkunni og sveipuðu þjóðhátíðargesti fagurrauðum dýrðarljóma
- þá var lífið notalegt.

Er ekkert fékk okkur stöðvað undir stjörnusalnum, inni í Herjólfsdalnum
- Þá var lífið yndislegt.

Er ég sat með vinum mínum í sól og áhyggjuleysi og við spjölluðum saman og hlógum
- Þá var lífið fullkomið.

Takk fyrir mig.

30. júní 2010

Hneykslunarblogg

Eftirtaldir hlutir eru afskaplega ofarlega í asnalegheitalistanum mínum þessa dagana:

Nr. 1 - Fólk sem finnst í alvörunni að RÚV ætti að endurgreiða þeim afnotagjöldin fyrir þann mánuð sem HM í fótbolta er

Ok, fyrst vil ég taka fram að ég virði það alveg að sumu fólki finnst fótbolti ekki skemmtilegur. Og ég fatta af hverju þeim leiðist að sjá ekkert annað í sjónvarpinu en fótbolta.
EN - ég veit t.d. um FULLT af dagskrárliðum á RÚV sem ég hef engan áhuga á og nenni ekki að horfa á, s.s. Berlínaraspirnar, Kínverskar krásir, Rithöfundur með myndavél og Taggart. Þetta eru bara nokkrir af ótal hlutum sem mig langar ekki að horfa á. Á ég þá bara að krefjast endurgreiðslu?
Nei - og veistu af hverju?
Af því ég veit að það er fullt af fólki sem horfir á þetta og hefur gaman af. HM í fótbolta er ekkert öðruvísi - stærsta mót heims í vinsælustu íþrótt heims? Mér finnst bara nokkuð eðlilegt að sýna það.

Nr. 2 - Fólk sem setur tímarit, bækur og kort ekki á sinn stað í verslunum Eymundsson

Ef þú heldur á Elle blaði og sérð bunka af öðrum, alveg eins Elle blöðum í hillunni - af hverju ættirðu að vilja skila Elle blaðinu þínu í Ude og Hjemme bunkann? Það er bara ekki töff.
Og ef einhver ykkar lesenda (lesanda?) ætlar að púlla „Við erum bara að skapa verkefni fyrir starfsfólkið“-kjaftæðið, þá skal ég taka upp stein úr malarhaug og skila grjótinu í andlitið á viðkomandi - því það skapar atvinnu fyrir lýtalækna. (Ég mun ekki gera það í alvörunni - ég er ekki klikkaður. Ég mun aftur á móti endurtaka þessi rök mín til að hljóma geðveikt töff.)

Nr. 3 - Að vera heitt
Og... ö... já.
Þetta útskýrir sig soldið sjálft.

Nr. 4 - Rauða hellan fyrir utan Eymundsson í Mjódd sem er klárlega ekki á réttum stað
Þetta er sem sé ein rauð hella á göngugötunni í Mjódd, sem fellur ekki inn í munstrið sem búið er að mynda. Eini kosturinn við þessa blessuðu hellu er að ég nota hana gjarnan til að skilgreina skipulagsáráttu mína: Fólk með skipulagsáráttu tekur eftir henni - fólk sem skipulagsþráhyggju miss svefn vegna hennar og enda á því að brjótast inn í Mjóddina um miðja nótt með járnkall og kúbein og færa hana á réttan stað.
Sem ég er klárlega ekki að fara að gera.

Nr. 5 - Að finna ekkert atriði númer 5 í fljótu bragði
Sem þýðir að ég þarf að slútta þessu.

Þessi færsla var aðallega hugsuð sem kontrast við síðustu 2 tilfinningaríku og persónulegu færslur. Ég held það hafi bara gengið upp ágætlega.

23. júní 2010

Hvítur kross á maga

Nýtt blogg á morgun.
Ég lofa.

7. júní 2010

Fyrsta skrefið

Eins og venja er tók ég margar litlar ákvarðanir í dag. Flestar þeirra, ef ekki allar voru minniháttar og báru aldrei meira vægi en það að fá mér Maryland kex í hádegismat og spila aðra umferð af Word Challenge.
Aftur á móti er ein þessara litlu ákvarðana minna sem stendur allrækilega upp úr.

Á ákveðnum tímapunkti í kvöld, þegar ég var búinn að blóðmjólka Word Challenge algjörlega, þá fékk ég þá flugu í höfuðið að kíkja út. Ég var búinn að kúldrast inni í herbergi með þynnkunni minni í allan dag og það hvarflaði að mér að ég hefði kannski bara gott að því að viðra hausinn á mér aðeins.
Þannig að ég smeygði mér í jakkann minn, skellti iPodnum í eyrun og lagði af stað með nýju vinum mínum í Mumford & Sons. Bróðir minn hafði skilið "heimilisreiðhjólið" eftir hjá vini sínum fyrr í dag, þ.a. ég ákvað að rölta yfir nesið og sækja það.

Á miðri gönguleið helltist samt yfir mig furðuleg tilfinning sem ég tel með mikilli vissu að hafi sprottið algjörlega út frá tónlistinni í eyrunum á mér.

Ég fékk þá gríðarlegu löngun til að henda af mér jakkanum og hlaupa af stað.

Hugsanlega stafar þessi hlaupalöngun mín af því að vegna lærmeiðslanna sem hafa hrjáð mig undanfarnar vikur, hef ég ekkert getað hlaupið í langan tíma.
Kannski hélt ég að tónlistin hljómaði betur með vindinn í andlitið.
Kannski var undirmeðvitundin að gefa mér merki um að "drífa í því".

Hver svo sem ástæðan var þá gaf ég undan og hljóp af stað. (Ég hélt mig reyndar í jakkanum af praktískum ástæðum)

En þegar að hjólinu var komið, þá var lönguninni ekki fullnægt. Þannig að ég steig á hjólið og hjólaði af stað og tók stefnuna upp á Garðaholt. Af hverju upp á Garðaholt? Því þegar þú ert búinn að hjóla upp á Garðaholt, þá færðu að hjóla niður Garðaholt. Og ég get sagt ykkur það - tónlistin hljómaði miklu betur með vindinn í andlitinu.

Af hverju, það er ég ekki alveg viss um. Ég hef þó talið mér trú um það að það sé vegna þess að ég dreif í því og fór út; af því ég hljóp af stað; af því ég hjólaði upp á Garðaholt.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög gjarn á það að bíða með hluti fram á síðustu stundu. M.a.s. þessa stundina eru nokkur verkefni sem ég er, af einhverjum ástæðum, ekki búinn að gera. Það er hægt að kenna áðurnefndum dyraverði um eitthvað af þessu en ég held að það sé svolítil einföldun. Ég held, persónulega, að þetta sé vegna þess að líf mitt er á nokkuð öruggum stað þessa stundina, og allar stærri ákvarðanir sem gætu mögulega breytt einhverju í lífi mínu til frambúðar virka áhættusamar og allt að því hættulegar.
En þá er það hin sívinsæla hugsun: Er líf án áhætta það sem maður vill? "If it ain't broke - don't fix it?"
Því eftir allt saman - tónlistin hljómaði betur með vindinn í andlitið...Vó... þessi færsla æxlaðist svolítið öðruvísi en ég lagði upp með.
Ég var eiginlega búinn að ákveða það að verða ekki svona djúpur og væminn aftur nærri því strax.
Ok - ég lofa því að næsta færsla verður stuttur, hugsanlega ósmekklegur, langsóttur brandari - svona eins og í 'gamla daga'.

3. júní 2010

Nei eða já? Af eða á?

Í ljósi þessarar persónulegu og opnu færslu sem ég skrifaði síðast, þá verður þessi öllu ómerkilegri og - tjah - vitlausari að mörgu leyti.

Mér datt í hug að skella saman einni listafærslu, því eins og þið vitið hef ég svo gaman að listum (no pun intended).

Sumir hlutir eiga hreinlega náttúrulega vel saman og það er ekkert hægt að mótmæla því. Þetta eru vinsæl pör eins og
·Popp og kók
·Grill og sumar
·Ross og Rachel
·Fáfræði og rasismi
·Negrar og Hip-hop
·Kex og mjólk

Þessir hlutir tilheyra hverjum öðrum - það er ekkert flóknara en það.
En aftur á móti hef ég kynnst nokkrum pörum á síðustu dögum/vikum/mánuðum sem eiga hreinlega ekki góða samleið hvor með öðrum.
Hefst þá lestur:

·Ridley Scott og Hrói Höttur (Eins og þetta par lofaði góðu...)
·Mjólk og hóstasaft (Om nom nom not)
·Kvef og lífsgleði (Blaaaaaaargh!)
·Kvikmyndahús og hlé (Ekki einu sinni þykjast ekki hafa átt von á þessu)
·Geitungar og heimurinn (Finndu *EINA* manneskju sem er ekki sammála - ég mana þig!)
·Liverpool og Enski úrvalsdeildartitillinn (Ú, hann sagði það!)
·Tómur gaskútur og gasgrill (Doj...)
·Fótbolti og lærið á mér (*Andvarp*)
·Tyrkneska Eurovisionrokkhljómsveitin „Manga“ og rokk (Ég meina - hljómsveitin ykkar heitir Manga...)
·Einar og listafærslur - eða hvað?

31. maí 2010

Hugarfjötrar

Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir á undanförnum vikum að ég er gripinn einhverri skyndilegri og sterkri löngun til að skapa eitthvað. Eitthvað fallegt.
En það er nokkurn veginn það eina sem þessi löngun segir mér.
Hún tekur ekkert fram hvernig ég eigi að gera það. Hún segir ekkert til um hvort ég eigi að grípa í hljómborðið og semja eitthvað lítið lag eða hvort ég eigi að vippa fram þessum blessaða bloggglugga og pikka inn einhverja ljóðræna romsu um hafið og sólina og ástina, eins og ég er vanur að gera endrum og eins.
Þessi óskilgreinda löngun veldur því að ég stend skyndilega frammi fyrir nokkrum vandamálum:

Í fyrsta lagi þarf ég að átta mig á því hvaða form þessi sköpun mín eigi að taka. Það er ekki eins auðvelt og maður myndi halda.
Í öðru lagi þarf ég að vona að það séu engin skylduverkefni sem ég þurfi að sinna þegar þessi löngun tekur yfir, því það er nánast ógjörningur að yfirvinna þessa sköpunarþörf þegar hún sýnir sig.
Í þriðja lagi - sem er í raun og veru ástæða þess að ég ákvað og hripa þessar hugleiðingar mínar niður - þarf ég að yfirvinna ritskoðandann í höfðinu á mér.

Það hafa allir einhverjar hindranir í hugsanagangi sínum, bæði meðvitaðar og ómeðvitaðar. Sumir hafa girt einhverjar minningar eða hugsanir af vegna sársaukans sem fylgir því að draga þær fram. Aðrir ýta ákveðnum hugsunum til hliðar því samviska þeirra mælir gegn því að leyfa þeim að njóta sín (ósmekklegir brandarar og almennur dónaskapur fellur inn í þennan flokk). Helsta hindrunin sem ég - og eflaust flestir aðrir - þarf að glíma við er minn innri ritskoðandi; Tröllvaxna vöðvabúntið sem stendur vörð um útgang heilans og heldur föngnum öllum þeim hugmyndum sem gætu mögulega saurgað orðspor mitt.
Sumsé, allir þeir brandarar sem gætu fallið flatir á jörðina, öll sú list sem fær fólk til að ranghvolfa í sér augunum og allar aðrar aðgerðir sem gætu mögulega látið mig líta út eins og vitlausan, klaufskan, örvæntingarfullan og/eða dónalegan.
Og trúið mér - þessi ritskoðendadyravörður minn er mjög smámunasamur og vandlátur.

Allt frá því í grunnskóla hefur þessi "fangavörður vandræðaleika" verið í fullu starfi og ef eitthvað, þá varð hann bara kröfuharðari með árunum - svo mikið að undir lok 10. bekkjar fór ég lítið sem ekkert út úr mínum hlýja og góða þægindahring. Það verður að segjast að ritskoðandinn slakaði aðeins á þegar ég byrjaði í MR, en ekki meira en það að ég tók afskaplega lítinn þátt í félagslífi skólans, sem og félagslífi utan hans. Ég man að ég átti það til að koma mér upp hinum ýmsu ástæðum til að komast hjá félagslegum samkomum, einfaldlega vegna þess að mér fannst ég ekki þáttökuhæfur. Undantekningalaust spurði ég sjálfan mig í kjölfarið hvað í andskotanum ég hafi verið að gera. Ég hef ekki ennþá getað gefið mér réttmætt svar.
En fyrir örfáum árum fékk ég tækifæri til að þróa vopn gegn þessum ofvirka útkastara í hugsanaferli mínu - Dale Carnegie.
Ég held að það hafi ekki farið framhjá neinum hve miklu það breytti fyrir mig. En bara til öryggis, þá skal ég taka nokkur dæmi:
1. Ég sótti um nám í LHÍ og opinberaði formlega listsköpun mína fyrir öllum sem hana vildu sjá, ólíkt fyrri árum þar sem aðeins mínir allra nánustu vinir vissu að ég semdi tónlist.
2. Ég eignaðist mína fyrstu kærustu. Ég veit ekki hve oft á mínum unglingsárum ég var yfir mig hrifinn af einhverri stelpu og gerði ekkert í því, því ég trúði því ekki að ég ætti nokkurn séns.
3. Ég varð talsvert virkari í öllu félagslífi - eignaðist marga góða vini og enn fleiri kunningja.

Nú er ég farinn að hljóma eins og ég sé einhvers konar talsmaður Dale Carnegie námskeiðsins - en það er einfaldlega raunin að Dale Carnegie breytti lífi mínu til hins betra.

En auðvitað útrýmdi hún ekki vandamáli mínu - hún hjálpaði mér að eiga við það, en það háir mér enn þann dag í dag. Ég þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til gærkvöldsins til að finna atvik þar sem minn innri ritskoðandi hélt aftur af mér til að segja þá brandara sem mig langaði að segja, spyrja þeirra spurninga sem mig langaði að spyrja, stíga þau skref sem mig langaði að stíga.
Og til hvers? Til að forða mér frá skömm og vanlíðan?
Ég er nokkuð viss um það að vonbrigðin sem ég veld sjálfum mér, trekk í trekk, í slíkum aðstæðum valda mér jafnmiklu hugarangri og vandræðaleikinn sem mögulega gæti fylgt því að láta einfaldlega vaða.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að það er nauðsynlegt að hafa smá hemil á sjálfum sér, enda er ég ekki að reyna að drepa þennan dyravörð langana minna - ég er einfaldlega að reyna að ná honum úr steranotkuninni.

30. apríl 2010

Versta lýsing sögunnar?

Fyrst ætla ég að valda Antoni vonbrigðum með því að taka það fram að þessi færsla tengist lýsingu ("lighting") ekki neitt. Öllu heldur tengist þetta "innihaldslýsingunni" aftan á DVD-hulstri hryllingsmyndarinnar Drag me to Hell, sem ég horfði á fyrir nokkrum dögum.

Þetta er mögulega verst skrifaði texti sem ég hef séð á DVD-hulstri... eða hvaða hulstri sem er, ef út í það er farið.
Ég skal deila þessum texta með ykkur:

Drag Me To Hell er ein besta spennumynd ársins 2009 og er nýjasta kvikmynd leikstjórans Sam Raimi frá hinum sama og færði okkur Army of Darkness árið 1992.“


Ok, ok - þetta er kannski ekkert skelfilega skrifað. Höfundur er kannski ekki mjög hrifinn af greinarmerkjum en það er svo sem fyrirgefanlegt. Einnig finnst mér athyglisvert að af öllum Sam Raimi myndum skuli þeir nefna Army of Darkness frá 1992...
En við skulum halda áfram...

Drag Me To Hell fjallar um Christina Brown sem vinnur í banka einum og er hún að klifra upp metorðalistann í bankanum og á von á stöðu og kauphækkun fljótlega ef all gengur upp hjá henni.


Nú fara skemmtilegheitin að byrja. í fyrsta lagi heitir óheppna sögupersónan okkar ekki Christina, heldur Christine. Í öðru lagi finnst mér ótrúlega sniðugt að hún skuli "klifra upp metorðalistann", þar sem við hin reynum bara við stigann. Sniðug er hún! Það er líka tími til kominn að hún fái stöðu! Greyið manneskjan getur ekki verið stöðulaus í lífinu!

„Allt leikur í lyndi þar til gömul sígaunakona birtist í bankanaum og biður Christinu um biður um aframhaldandi lán til þess að bjarga heimili hennar ef gamla konan fær ekki lánið mun hún missa heimilið sitt.“


Taka skal fram að allar stafsetningar-, málfræði- og innsláttarvillur eru eins og þær eru á hulstrinu. Og þá meina ég ALLAR - þetta er það slæmt.

„Christina þorir ekki að samþykkja lánið í ótta um að það hafi áhrif á stöðuhækkun sína í bankanum og þess vegna missir gamla konan heimilið sitt . Í hefndarhug hefnir gamla konan sín á Christinu með því að leggja á hana Lamia bölvunina á Christinu og eftir þessa bölvun verður líf Christinu að helvíti á jörðu því hún er elt útum allt af illum anda , hún leitar hjálpar hjá ýmsum aðilum sem endar hjá miðli einum sem þekki bölvunina.“


Öhh... já.

„Hvað gerist svo er best fyrir ykkur að sjá sjálf ef þið þorið.“


Hver skrifar svona texta? Ég bara spyr! Og er virkilega enginn tilbúinn að eyða 5 mínútum í að lesa þetta yfir og lagfæra?
Frekar pínlegt...

Og þar með lýkur mesta nördavælubloggi lífs míns.

22. apríl 2010

Horft um öxl

Það hefur verið fastur liður í lífi okkar flestra, ef ekki allra, á einhverjum tímapunkti að setjast reglulega fyrir framan sjónvarpið og fylgjast með ævintýrum þeirra sem á skjánum birtast, hvort sem það er Homer Simpson, Fox Mulder, Mike Scofield, feiti homminn úr Survivor, Michelangelo, Dúa, Ross Geller, steinþursunum eða Simon Cowell. Sú hefð lifir að vissu leyti áfram, þó svo gjarnan sé búið að skipta út sjónvarpinu fyrir tölvuskjá og 'reglulega' fyrir 'hvenær sem er'.
Allir hafa átt sér sína uppáhaldsþætti og uppáhaldspersónur og vissulega hafa sjónvarpsþættirnir haft áhrif á okkur öll.

Sem færir mig að efni þessa bloggs. Hér er ég búinn að útbúa lista með 6 átakanlegustu atriðum sem ég hef séð í sjónvarpsþáttum. Taka skal fram að með 'átakanlegum atriðum' á ég við atriði sem hafa snortið mig meira en venja er.

Ég hef, af öryggisástæðum, útvegað mér örlítið hjálpartæki svo ég skemmi ekki fyrir lesendum ef ske kynni að þeir hafi ekki séð viðkomandi atriði. Þannig hef ég raðað sjónvarpsþáttaröðunum frá 6 og upp í 1, en til að sjá nánari lýsingu á atriðinu sjálfu, þarf einfaldlega að ýta á "Sýna".

Þannig að ef þið hafið ekki séð alla þætti viðkomandi þáttaraðar og haldið að þið eigið eftir að horfa á þá, þá mæli ég gegn því að smella á sýna, þar sem þetta eru ekkert síður nýir þættir en gamlir!


Nú haldið þið áfram á eigin ábyrgð!

Nr. 6: The Big Bang Theory:

The Big Bang Theory eru án nokkurs vafa einir bestu grínþættir síðustu ára og er það að miklu leyti afar góðri persónusköpun að þakka. Hver hefur ekki horft á sjónvarpsþætti eða bíómynd og hugsað: "Vá, þessi gaur gæti alveg verið skotinn núna og mér væri algjörlega sama"? Hinir elskulegu nördar og dama í þessum þáttum falla ekki í þann flokk. Einna elskulegastur er Leonard, sem er svo yndislega ástfanginn af nágranna sínum, gellunni Penny. Þegar þau loksins byrjuðu saman kættist hjartað í mér mjög en eins og í öllu góðu sjónvarpsefni þá koma upp vandræði í paradís. Þegar Will fokking Wheaton fer að skipta sér af og fær Penny til að segja Leonard greyinu upp, þá var mér öllum lokið.
Þið sjáið bara sorgina - og treystið mér, ég var ekkert mikið hressari þar sem ég sat í náttfötunum og horfði í hryllingi á. En ég trúi ekki öðru en að vel fari... en það verður bara að koma í ljós á næstu vikum.Nr. 5: Scrubs:

Ég bar mjög blendnar tilfinningar til þessa lokaatriðis Scrubs seríanna (ég tel 9. seríu ekki með - hún er eitthvað allt annað dæmi).Þar stendur J.D. á tröppum Sacred Heart og horfir á framtíð sína með Peter Gabriel í bakgrunni. Það er bara eitthvað svo hjartnæmt og fallegt við þetta atriði að ég var nánast klökkur. En á sama tíma var ég afskaplega sorgmæddur, vitandi það að þessir stórkostlegu grínþættir voru við það að klárast (aftur - ég tel 9. seríu ekki með!).
Gullfallegt, alveg.Nr. 4: Friends:

Það þekkja allir Friends og vel flestir hafa horft á alla þættina, oftar en einu sinni, og þeir vita það vel að Friends eru uppfullir af fallegum og hjartnæmum atriðum. En það er eitt atriði sem hefur alltaf farið meira í mig en önnur. Það er þegar Chandler er staddur á bar með Joey og nýju kærustunni hans, henni Kathy.
Æjh... Kathy.
Anyways - þegar Chandler gjörsamlega hellir hjarta sínu á gólfið fyrir framan Joey um hve mikið hann sé ástfanginn af Kathy, það gefur hjartanu mínu hnéspark í punginn. Ég finn svo til með honum að það er engan veginn fyndið - en þá er ég ekki að segja að ég hafi lent í þessu sama. Bara að taka það fram.
En já - klárlega sársaukafyllsta atriði Friends sögunnar.Nr. 3: Californication:

Fokksjitt - við erum kominn út djúpan pakka núna. Afar hollt svona seint á kvöldin...
Lokaatriði þriðju seríu Californication er hardcore dæmi. Og þá meina ég hardcore.
Þessar rúmar þrjár mínútur sem "Rocket Man" með Elton John hljómar undir játningu dauðans eru fáránlega magnaðar. Og rétt þegar maður heldur að það versta sé afstaðið, þá hleypur Becca af stað á eftir pabba sínum þar sem honum er troðið inn í lögreglubíl.
Og alltaf syngur Elton John, hress og kátur.
Contrastinn er ógeðslega flottur.


Nr. 2: Scrubs:

Já, það er annað Scrubs atriði á listanum og ótrúlegt en satt - öllu þyngra en lokaatriðið.
Í 20. þætti 5. seríu flagga þau öllu sem hægt er og toga í alla spotta sem tengjast á einhvern hátt sálartetrinu mínu. Aftur er þetta eins og hádramatískt tónlistarmyndband, nema að þessu sinni "How to Save a Life" með The Fray. Hérna á ég auðvitað við atriðið þegar sjúklingarnir þrír deyja vegna mistaka Dr. Cox. Það er sárt þegar maður horfir upp á þá fyrstu tvo deyja, en þegar sá þriðji gefur upp öndina og Cox fríkar út...
...Vó.
Ég táraðist yfir þessu - og klökkna enn.


Nr. 1: Dexter:

Djöfulsins fokking fokksjitt helvíti?!?!?

15. apríl 2010

"There is no Spoon"

Ég uppgötvaði eitt um daginn. Í raun og veru hef ég verið að safna upplýsingum fyrir það í rétt rúm 22 ár en fann ekki hnitmiðaða skilgreiningu á því fyrr en fyrir örfáum vikum.

"Það er ekki til neitt sem heitir vont veður, bara það sem heitir rok."


Ég fór nefnilega að pæla í þessu um daginn.
Rigning ein og sér er í fínu lagi - falleg og endurnærandi - en strax og þú blandar roki saman við hana, þá ertu kominn með eitthvað sem er meira óspennandi en brauðsneið með hnetusmjöri og lifrarpylsu. Fótbolti í rigningu er ein besta íþróttaupplifun sem ég veit en um leið og vindurinn mætir, þá fer gleðin.
Það er sama sagan með snjó. Snjókoma í blankalogni er mjög heillandi og notaleg og fyllir hjartað hlýju og gleði. En þegar Kári blessaður mætir til að fylgjast með, fáum við einhvern viðbjóð sem heitir bylur og er álíka heillandi og andfúll nasisti.
Það er aðeins erfiðara að verja haglél, en það getur enginn heilvita maður mótmælt því að það er skömminni skárra að fá élið í hvirfilinn en andlitið.

Þess vegna legg ég til að orð á borð við "bylur" og orðasambönd líkt og "rok og rigning" verði hér með lögð niður! Þessi orð koma illu orði á annars falleg og skemmtileg fyrirbæri eins og rigningu og snjó.

"En Einar, af hverju segirðu að að það sé vindurinn sem skemmi snjóinn og rigninguna en ekki öfugt"?
Góð spurning, við hverri ég hef gott svar. Þið hafið upplifað það að líta út um gluggann og við manni blasir grænt gras og blár himinn og brjóstið fyllist von og gleði. Svo klæðið þið ykkur í fínustu sumarfötin ykkar og hlaupið hlæjandi út í sumarylinn.
En þið eruð ekki fyrr kominn út en þið neyðist til að drullast inn aftur og klæða ykkur betur því það er svo fokking mikið rok. Þetta eru bara ein mestu vonbrigði sem ég veit um!
Rok í sjálfu sér er nefnilega ekki meinlaust og fallegt, líkt og snjórinn og rigningin. Rok á það nefnilega til að eyðileggja fleira en gleði og von mannsins. Þeir sem hafa upplifað það að tjalda í roki vita að það er jafnleiðinlegt og að fara einn í reiptog. Garðvinna, sér í lagi að raka gras, í hvassviðri er álíka pirrandi og stelpan sem fær alltaf hiksta í jólaprófunum.
Í raun og veru er allt leiðinlegra í roki, með augljósum undantekningum á borð við flugdreka og vindmyllur.

Ég ætlaði að enda þennan reiðilestur á hárbeittri og hnyttinni limru, en hún þarf eiginlega að bíða betri tíma...

5. apríl 2010

Breytingar til hins betra

Hér sit ég við skrifborðið mitt með algjörlega nýja sýn á lífið og tilveruna.
Og með orðunum "lífið og tilveruna" meina ég "herbergið mitt".

Því eftir aðgerðir síðustu viku - sem innihéldu kúbein, hávaða, parket, vélsög, nokkra lítra af málningu, brotna nagla, gólflista, svita, blóð, verðskuldaðan bjór og kannski örfá tár - er herbergið mitt nú brúnt í grunninn, grænt í miðið, hvítt í toppinn og speglað um y=x (ég hef greinilega engu gleymt!).

Það er greinilegt að þessi viðsnúningur á vinnurýminu mínu hefur jákvæð áhrif, a.m.k. svona til að byrja með, því það tók mig ekki nema 2 sólarhringa að ljúka við nýtt lag:


Eye of the Storm

29. mars 2010

Það tók ekki langan tíma

Endurreisnin var ekki fyrr hafin þegar þessu blessaða bloggi virtist fatast flugið.
En við reddum því snöggvast með einni góðri punktafærslu.

...Takk fyrir.

11. mars 2010

Blogblog?

Stutt færsla í kvöld:

Mér er illt í handleggnum.

Túlki hver sem vill en það mun segja meira um ykkur en mig.Nýtt öpplód, bæðeúei.


A Forest Trail

3. mars 2010

Ljós í myrkrinu

Hann var búinn að sitja við stýrið í hátt í 8 klukkustundir og það var ekki laust við það að hann væri orðinn heldur þreyttur.
Hann geispaði, hristi höfuðið kröftuglega og sló sig svo tvisvar sinnum utan undir.
-Ég verð að halda mér vakandi! Ég verð!
Hann sló sig einu sinni til viðbótar, bara til að vera viss.
Það ríkti algjör þögn í bílnum fyrir utan nauðið í miðstöðinni. Útvarpið hafði ekki virkað síðan sumarið áður. Það hafði hreinlega gefið upp öndina einn daginn í miðjum flutningi á "Video Killed the Radio Star". Hann hafði alltaf getað brosað að kaldhæðninni.
En hlátur var honum ekki ofarlega í huga þessa stundina.

Það hafði verið hið fínasta veður þegar hann lagði af stað, fyrr um daginn. Að vísu var svolítill snjór en skyggnið var fínt og færðin góð, samkvæmt öllum fréttum. Að vísu var hans ekki vænst fyrr en daginn eftir en það er nú nákvæmlega það sem skilgreinir óvæntar heimsóknir. Hann hafði gert þetta nokkrum sinnum áður og það hafði alltaf glatt þær svo mikið. Hann hafði alltaf verið veikur fyrir fallegu brosi og bros þeirra voru þau fegurstu sem hann gat hugsað sér.

Hann sló sig aftur.
-Koma svo, haltu þér vakandi!
Hann teygði sig í pakka af bréfþurrkum sem lágu í farþegasætinu og tók eina slíka úr plastinu. Þetta var sú næstsíðasta.

Hún hafði alltaf sagt honum að það væru 3 hlutir sem maður ætti alltaf að hafa á sér: Penni, varasalvi og bréfþurrkur. Hann komst snemma að því að pennar kæmu sér alltaf vel, hvort sem það væri fyrir símanúmer, heimilisföng eða fyndna brandara sem hann heyrði hér og þar. Varasalvinn kom sér einnig vel á þurrum, heitum dögum. Eða þá í bíó, þar sem varirnar hans virtust vera allt annað en hrifnar af söltu poppinu.
Þetta var í fyrsta sinn sem hann hafði þurft á bréfþurrkunum að halda.

Hann tók þurrkuna og strauk sér um ennið. Hann braut hana saman og strauk sér aftur.
Þetta var greinilega að skána, fyrir hálftíma hafði þurrkan verið gegnblaut strax og hann snerti ennið á sér. Hann kuðlaði þurrkunni svo saman og kastaði henni á gólfið, farþegamegin. Þar lágu fyrir átta slíkar þurrkur, allar álíka blautar og rauðar.
Miðstöðin þagnaði skyndilega. Ljósin í mælaborðinu dofnuðu hratt og dóu út. Loftljósið fór sömu leið. Nú sat hann einn í þögninni og myrkrinu.
Hann hafði svo sem búist við þessu. Í raun og veru var merkilegt að rafgeymirinn hafði enst svona lengi. Hann tók í hurðarhúninn. Dyrnar opnuðust ekki. Ekki frekar en í hin skiptin. Þögnin var alger. Hann var hættur að heyra í rokinu fyrir utan bílinn. Myrkrið hjálpaði svo ekki til. Hann sá ekki einu sinn eigin andardrátt í kuldanum. Hann gerði ráð fyrir því að það væri ennþá að snjóa. Hann gat ekkert gert nema haldið í vonina um að hjólförin sem lágu af veginum ofan í skurðinn væru ennþá til staðar.
Hann var ekkert gríðarlega vongóður.

Eina ljósið í myrkrinu var brosið þeirra.

2. mars 2010

Helstu tölur febrúarmánaðar:

0 orð voru skrifuð á þetta blogg.
1 lítill sigur hlotnaðist mér í lottói.
3 ný lög voru samin.
23. ár lífs míns hófst.
26 þættir af Q(uite) I(nteresting) glöddu mig.
28 dagar liðu.
38 ummæli voru skrifuð við nýju lögin 3 á MacJams.
102 afmæliskveðjur bárust mér á Facebook.
194 GB af hljóðfærasömplum voru keypt.

Gaman að því.

Úr öskustónni

Þar sem ég sit einn inni í herberginu mínu og hlýði á ljúfa tóna Peter Gabriel í nýju headphonunum mínum er voða erfitt að komast hjá því að láta hugann reika.

Af einhverjum ástæðum ráfaði hann hingað.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á undanförnum vikum sem mér verður hugsað til þessa gamalreynda, góða bloggs. Margar sögurnar hafa ratað hingað í gegnum árin, sem og fjöldinn allur af hálfleirkenndum vísum. Ófáar umræðurnar hafa sprottið fram í ummælahlutanum sem hafa að vísu verið afar mismálefnalegar.

Sumir vilja halda því fram að bloggið sé dautt og hefði einhver spurt mig að þeirri spurningu fyrir örfáum mánuðum þá hefði ég tekið undir það af fullum krafti.
En ég held að það sé kominn tími á endurkomu.

Nú er "bloggbólan" sprungin, þ.a. Moggabloggararnir hafa skriðið aftur ofan í þá myrku holu illskiljanlegra hugleiðinga, lélegra orðabrandara og almenns asnaskaps og kjánaláta sem þeir komu úr fyrir 3 árum eða svo.
Er þá til betri tími en nú fyrir þennan glæsta fönix að rísa úr öskunni og taka á loft upp í stórfenglegt himinhvolfið?
Er ekki kominn tími til að ýta við rithöfundinum innra með mér og segja honum að hans bíði hreint blað?
Er ekki mál að endurreisa mannorð heiðvirðra bloggara?

Það held ég.