29. apríl 2006

Föstudagur 14.4.'06

Þá er hann runninn upp - síðasti heili dagur okkar í Vínarborg í bili. Ég geri nefnilega sterklega ráð fyrir því að fara hingað aftur e-n tímann. Nú höfum við bara eitt hús í viðbót til að heimsækja.
Dagurinn byrjaði á gönguferð eins og allir aðrir. Núna gengum við hins vegar að ráðhúsinu. Það er aðeins flottara en hálfsokkna glerhýsið okkar (Þá á ég að sjálfsögðu við ráðhús Reykjavíkur). Þaðan gengum við um lífshættulegan garð (rok=fjúkandi greinar) og niður á Hotel Sacher þar sem við gæddum okkur á alvöru, vínarískri Sacher tertu. Hún var go-óð! Þaðan fórum við niður í Óperu og fórum þar í skoðunarferð ásamt fjöldanum öllum af Bandaríkjamönnum í fylgd afar hárprúðs leiðsögumanns.
Eftir þessa skoðunarferð var haldið á Kertnerstraße þar sem ég keypti mér glæsilegan disk með samansafni verka Hans Zimmer.
Svo var haldið heim á Ottakringer.
Þetta kvöld fórum við ekki út að borða, ótrúlegt en satt. Hins vegar borðuðum við á tveimur stöðum í staðinn. Við fórum fyrst í forrétt til vinafólks okkar og fórum þaðan í aðalrétt til annars vinafólks. Eftir fjörugt kvöld sem einkenndist af spaghettíi og bolta með sogskálum fórum við svo heim og pökkuðum niður fyrir brottförina í fyrramálið.
Þar sem ég er þreyttur og latur nenni ég ekki að vera skemmtilegur í þessari færslu og biðst ég forláts á því.

[Nú er dagbókinni lokið. Jibbí jeij!]

26. apríl 2006

Fimmtudagur 13.4.'06

Ég er geðveikur ofurhugi. Alveg svaðalegur. Svo mikill að þannig vil ég að minningargreinin um mig verði skyldi eitthvað slæmt gerast (Guð forði því): "Ástkær sonur okkar, bróðir, vinur og ýkt klikkaður töffari."
Dagurinn byrjaði mjög rólega vegna þess að sum okkar voru úti á lífinu langt fram eftir nóttu í gær. Ég nefni engin nöfn en það voru foreldrar mínir. Við fórum þess vegna ekkert út úr húsi fyrr en um hádegi og héldum þá niður á Maríuhjálparstræti í verslunarleiðangur. Ég kom úr þeim leiðangri tölvuleik, tveimur bolum og einni peysu ríkari - en þónokkrum Evrum fátækari.
Þá var komið að enn einni máltíðinni í þessari matmiklu ferð okkar. Þar fengum við að því virtist erfðabreyttar samlokur á stærð við lítinn hund. En enginn samloka er of stór fyrir okkur.
Þaðan var farið heim til að losa okkur við pokana því okkar beið mikið verkefni - Tívolíið í Prater.
Mamma og pabbi höfðu fyllt hausinn á okkur af frásögnum af þessum 'pínulitla' garði sem ekkert var hægt að gera nema að fara í hringekju og kasta boltum í píramída af dósum, eða svo gott sem. Þær sögur voru greinilega úreltar.
Þá tók við ofurhugatímabilið mitt. Ég fór í, að ég held, öll stærstu tækin, einn, nema tvö. Annað var bilað en hitt var nokkuð ógnandi þ.a. ég vildi ekki fara einn. En ekki fékkst neinn til að fara með mér í það. Ég verð greinilega að fara þangað aftur seinna. Líkt og samlokur er ekkert tæki of stórt fyrir mig.
Á leiðinni heim fórum við fjölskyldan og Lárus - litli blái fílsvinurinn minn sem ég vann í skotbakka - á gömlu pízzeríuna 'okkar' sem er staðsett á móti gamla húsinu 'okkar'. Þar sannaðist aftur að engin pizza er of stór fyrir mig.
Þá var barasta dagurinn búinn og ekkert annað að gera en að halda heim í rúglyktina.

21. apríl 2006

Miðvikudagur 12.4.'06

Þessi hornsófi er greinilega bæði bölvun og blessun. Ég sef ekkert gríðarlega vel í honum (stuttur, harður og brakar meira en stiginn í Gamla skóla) en hins vegar er mjög þægilegt að sitja í honum og skrifa. Ég hef held ég aldrei skrifað svona mikið óumbeðinn.
Ég vaknaði semsagt í morgun, nokkuð skapbetri en í gær en þó þungur á brún og nokkuð súr. Þess vegna var fyrsta verkefni dagsins mjög vel við hæfi. Við gengum niðri í bæ og litum þar á mjög súr hús hönnuð af arkitektinum/listamanninum/brjálæðingnum Hundertwasser (sem heitir í raun Friedrich Stowasser). Hann afneitar í sinni list öllum almennum reglum arkitektúrs, svo sem beinum línum og réttum hornum. Mjög súrt.
Því næst fórum við yngra fólkið, ég, Baldvin, Sveinbjörn og Halldóra í 20 mínútna ferð um miðbæ Vínarborgar í hestvagni og verð ég að segja að það er afskaplega þægilegur og afslappandi ferðamáti. Þegar við stigum út úr vagninum á Stephansplatz þurftum við að bíða í einhvern tíma eftir foreldrum mínum sem voru einhvers staðar á vappi. Á meðan dáðumst við að þrautseigju hvítklædds látbragðsleikara sem mig langaði ofboðslega mikið að kasta klinki í. Ekki til - í.
Þá var haldið í Haus der Musik - gagnvirkt tónlistarsafn. Alls kyns hlutir fundust þar, bæði sætir og súrir. Aðallega súrir, svo sem heilatrommusettið, prumpu- og rophljóðin út úr veggnum og óskiljanlegi hljóðstóllinn.
Eftir þetta ó, svo skraulega safn gengum við niður - já, bókstaflega niður - í 12 postulakjallarann og fengum okkur hressingu. 12 postulakjallarinn er semsagt bar/veitingahús sem staðsett er nokkra metra ofan í jörðinni og er víst frá 16. öld. Ansi töff.
En dagskránni var ekki lokið. Þá fórum við heim á Ottakringer og hvíldum okkur aðeins fyrir kvöld sem átti aðeins eftir að einkennast af mat, drykkju, bið og óperutónlist. Mikilli óperutónlist.
Matarhluti kvöldsins átti sér stað á enn einni pizzeríunni. Svo sem ekkert merkilegt við það. Drykkjarhlutinn hófst einnig á þessari sömu pizzeríu en teygði sig svo inn á Café Peters, þar sem hann átti eftir að lifa langt fram á nótt. Þar byrjuðum við líka á að bíða. Við sexmenningarnir biðum þar eftir hinum umtöluðu íslensku heimamönnum og Saltborgurum (eldri en 18, að sjálfsögðu).
En svo ég staldri aðeins við þetta kaffihús í eigu fanatíska óperuhommans Peters. Þar hanga myndir af óperusöngvurum uppi um alla veggi og óperutónlist spiluð í botn. Það er afskaplega erfitt að tala við einhvern þar inni á meðan 200 kílóa maður syngur hástöfum um hversu sárt það er að deyja einn og án 180 kílóa elskunnar sinnar, sem í raun er að halda við einhentan bróður hans sem er aðeins 160 kíló.
Við yngra fólkið nenntum svo ekki að bíða lengur og héldum heim á leið. Nú ætla ég að horfa á DVD og fara að sofa.
Tími til kominn....

19. apríl 2006

Þriðjudagur 11.4.'06

Góðir draumar eru asnalegir, leiðinlegir og óþarfir. Mig langar ekkert að sjá hve hamingjusamur ég væri ef ég hefði þetta og væri laus við hitt því þegar allt kemur til alls eru þetta bara draumar; brenglaðar ímyndir heims sem maður býr ekki í og mun hugsanlega aldrei gera.
Ég sit hér enn á ný í hornsófanum mínum klukkan 25 mínútur í miðvikudag og naga mig enn í handarbökin vegna draums sem mig dreymdi einhvern tímann milli 4 og 8 klst yfir mánudag í morgun. Þessar hugsanir og mjög óraunhæfu eftirsjár drógu því aðeins úr ánægju dagsins: Mozart safninu með ljóta bleika teppið í Albertina, kakóbollanum á Tirolerhof, Hofburg höllinni og nágrenni hennar, innkaupunum á Mariahilfstraße (þar sem ég fékk Wrangler buxur á 65 evrur) og að lokum bíóferðinni á Ice Age 2, á ensku, Guði sé lof.
Nú ætla ég að hætta þessari óskaplega niðurdregnu færslu og fara að sofa áður en ég brýt öll lög líffræðinnar og fer að naga mig í eyrað...

18. apríl 2006

Mánudagur 10.4.'06

Pandabirnir eru svalir. Þeir eru svo töff og svo ýkt mega hipp og kúl að þessi orð eiga varla við þá. Þeir eru ekki bara svalir í útliti heldur hátterni líka. Þeim var svo skítsama um þá tugi gesta sem stóðu handan glersins og biðu eftir að þeir færu að leika sér í bambusnum eins og örgustu apakettir. Þeir lágu bara þarna með bakið upp að trjádrumb og átu sína 30 kíló af bambusgreinum. Allt of svalir til að sýna einhverju Homo Sapiens liði nokkra athygli.
En pandabirnir ganga ekki lausir í Vínarborg, ekki frekar en aðrar svalar lífverur yfirleitt, þannig að gera má ráð fyrir því að ég hafi verið í dýragarði, sem er raunin. Ég var í einkadýragarði Maríu Teresu, keisarynju af Austurríki, sem staðsettur er í bakgarði sumarhallar hennar í Schönbrunn. Og þvílíkur bakgarður! Ef ég ætti svona bakgarð, þá þyrfti Ólafur Ragnar að borga mér leigu.
Eftir þessa drjúgu gönguferð um garðinn fannst sumum nauðsynlegt að hvíla lúin bein og var því farið rakleiðis heim í skugga bjórtankanna. Einhverju seinna tókum við U-bahn niður í bæ og röltum að því virtist stefnulaust í leit að einhverjum veitingastað. Við enduðum á króatíska veitingastaðnum Dubrovnik þar sem við gæddum okkur á Vínarsnitzel á stærð við ungabarn. En það var ekki nóg, nei nei. í eftirrétt skelltum við okkur á einhvers konar hnetukremsfylltar pönnukökur með flórsykri og súkkulaði. Þá var hámarkinu náð og rúmlega það.
Enn einu sinni gengum við af stað og aftur á Sechskrügelgasse þar sem við heilsuðum upp á heimamenn og Saltborgara í annað og örugglega ekki síðasta sinn í þessari ferð. Nokkrum glösum af áfengi og fáeinum kjaftasögum síðar varð síðasti U3 svo þess heiðurs aðnjótandi að koma okkar fríða, sex manna föruneyti heim, eða því sem næst. Við þurftum samt að rölta dágóðan spotta. Lappirnar gáfu okkur síðasta séns.
Nú sit ég líkt og pandabjörn með bakið upp að nokkrum púðum í þessum hornsófa sem ég hef hertekið og japla á einhverju sem jafngildir 30 kílóum af bambusgreinum. Það vantar þó nokkuð mikið upp á að ég verði jafn svalur.

17. apríl 2006

Sunnudagur 9.4.'06

Ég átti hér heima, sem mér finnst skrýtið. Ég bjó hérna í fjögur ár en man ekki eftir neinu sem átti sér stað á þeim tíma. Mig rámar í bragðið af Milkschnitte og Almdudler en man annars ekki eftir neinu að ráði.
Við höfum sem sagt núna gengið um gamlar slóðir Vínarborgar; fetað í fótspor fortíðarinnar og heilsað upp á gamla staði, svo sem íbúðina okkar við Praterstraße 32, gamla skóla og leikskóla, verslanir, veitingahús og leikvelli.
Eftir þetta einstaklingsbundna minningaflóð hélt helmingur hópsins, Sveinbjörn, Halldóra og mamma, heim á leið á meðan ég, pabbi og Baldvin gengum niður nokkur þrep í menningarstiganum og inn á írska fótboltapöbbinn Flanagan's. Þar sköpuðust hins vegar afar skemmtilegar knattspyrnutengdar minningar þegar við horfðum á Manchester United valta yfir Arsenal, 2-0. Á milli markanna tveggja rúmlega tvöfaldaðist hópur Íslendinga á barnum þegar heimamaður og 3 Saltborgarbúar slógust í hópinn.
Eftir þennan mjög svo verðkuldaða sigur gengum við um aðeins fleiri götur og enduðum á sexkrúsastræti og heilsuðum þar upp á enn fleiri íslenska heimamenn og 2 íslenska Saltborgara í viðbót. Sveinbjörn, Halldóra og mamma voru einnig komin þangað. Þar voru síðan öll börnin, níu talsins, skilin eftir á meðan við fullorðna fólkið röltum niður á ítalska pizzeríu þar sem við hámuðum í okkur fjöldann allan af hálfum pizzum. Það gerðu sum okkar, a.m.k.
Seinna um kvöldið fórum ég, Sveinbjörn, Halldóra og Baldvin heim í íbúð og lutum þar í lægra haldi í ósanngjarnri baráttu gegn svefngalsanum. Eftir að ég legg frá mér blýantinn mun ég ekki sofna í dágóða stund þar sem "svefn" er of kjánalegt orð til að taka mark á því.

16. apríl 2006

Laugardagur, 8.4.'06

Hér sit ég í púða prýddu horni svefn-/hornsófans í íbúð á annarri hæð Ottakringerstraße 104 í 16. hverfi menningarhöfuðborgar Evrópu og bíð eftir því að lognast út af. Furðulegt hvernig hluturinn á milli vöku og svefns er einmitt sá sami og olli þreytunni til að byrja með.
Dagurinn hefur einmitt einkennst af bið. Bið eftir leigubíl í morgun, bið í bílnum eftir að komast á flugvöllinn, bið eftir "tjekk-inn", bið eftir "tjekk-inn" dömunni, bið eftir flugvélinni, bið eftir hægfara farþegum, bið eftir að lenda í Køben, bið eftir næstu flugvél, bið eftir næstu lendingu í Vínarborg og að lokum bið eftir töskunum þremur sem við höfðum meðferðis.
Nú erum við komin á áfangastað, íbúðirnar á Ottakringerstraße, með aðstoð íslensks heimamanns á fjölskyldubíl og höfum nú komið okkur ágætlega fyrir. Á vinstri enda gangsins býr "hipp og kúl" fólkið, þ.e.a.s. ég, Sveinbjörn stóri bróðir minn og Halldóra kærastan hans. Eftir því sem lengra er farið til hægri eftir ganginum stiglækkar "hipp og kúl" stuðullinn og á botni hans, við hægri enda gangsins, búa svo foreldrar mínir og litli bróðir (FEIS).
Þýska heyrist hér hvarvetna, bæði falleg austurríska sem og subbuleg vínaríska, og alls staðar finnu maður lyktina af ýmis konar kjöti, ferðamönnum, tónlist og ýmiss konar ólykt úr bjórverksmiðjunni sem sefur háværum svefni fyrir utan svefnherbergisglugga okkar.
Biðin er þó nú á enda - ég er að sofna.

Heima, sætt heima!

Jæja - þá er maður kominn heim frá Austurríki.
Ferðadagbókin mín mun verða birt á næstu dögum (ég mun þá sleppa 'lagi færslunnar').
Fylgist með!

6. apríl 2006

Ójá!

MA vann.
Nei.
MA rústaði.
Nei!
MA slátraði!!!

Ekki það að ég sé mikill MA maður...
Nú töpuðum við þó fyrir þeim bestu (með minnsta mun af öllum öðrum, by the way).

Lag færslunnar

Tabula Rasa eftir Einarus


P.S. Ekki það að ég sé mikill egóisti...

5. apríl 2006

VARÚÐ!

Ég er búinn að vefsmíða svo mikið í dag að það mætti halda að ég héti Peter og væri ljósmyndari...


...ég varaði ykkur við...

Lag færslunnar:

Unwashed eftir McBoy.

4. apríl 2006

Breytt plön

Ég ætlaði að skrifa geðveikt stóra færslu en komst svo að því að ég nennti því ekki. Þess í stað sat ég og horfði á bílasölumann með flottan hatt og geðveikt skegg hjá Jay Leno og ýmislegar fígúrur sem vinna hjá honum selja ljótum manni og feitri konu vespur á 500 dollara.
Ég er farinn að efast um að ég hafi tekið rétta ákvörðun...


Lag færslunnar:


Cliff's Edge eftir Tobin James Mueller


(Ef ske kynni að fólk fatti ekki, þá er hægt að smella á myndina til að heyra lagið)

3. apríl 2006

Prozac Barbeque

Eins og flestir lesendur þessarar vefdagbókar ættu að vita hef ég afskaplega gaman af því að semja tónlist. Eins og þeir ættu líka að vita þá er ég nokkuð virkur meðlimur internettónlistarsamfélagsins www.macjams.com. Og enn eitt sem fólk ætti að vita þá hefur mér hlotnast sá heiður að vinna með 3 gítarleikurum yfir internetið, John Chakeres frá Ohio, David Gomez Sanz frá Segovia á Spáni og Fran Dagostino frá Massachusetts.
Hins vegar vita ekki allir að Fran Dagostino gaf út geisladiskinn Zetes ekki alls fyrir löngu. Þar ber fyrsta lag disksins nafnið Remembrance og er eftir yðar einlægan.
Núna langaði mig hreinlega að fræða ykkur um það, mér til mikillar ánægju, að Fran Dagostino er að fara að gefa út sinn annan geisladisk, Prozac Barbeque, og hef ég nú (að sjálfsögðu) gefið honum leyfi til að nota lagið Rampancy Part I: Melancholy.

Þetta er í raun og veru það eina sem ég vildi gera með þessari færslu; að svala grobblöngun dagsins. Því eins og merkur maður sagði einu sinni: "Ég er alls ekkert montinn, þó ég hafi góða ástæðu til þess!"

Jú, reyndar er einn tilgangur í viðbót. Ég ætla nú að byrja á nýrri hefð á þessu bloggi mínu.

Lag færslunnar:

Lover Lay Your Lies on Me með M-Lab.

2. apríl 2006

Af hverju?

Vegna þess að ég má það!

Tímaeyðsla nr.1.
Tímaeyðsla nr.2.
Tímaeyðsla nr.3.
og að lokum tímaeyðsla frá litla bróður mínum. (Ég lofaði honum að pósta linknum).

Btw, MHahaha!