19. febrúar 2006

Það er komið að því...

Ójá, tíminn er kominn.
Nú mun ég segja reynslusögu af sjálfum mér.

Hún nær alla leið aftur til sunnudagsins 12. febrúar síðastliðins. Þar var ég að iðka knattspyrnu ásamt félögum mínum í mesta sakleysi þar til *BÚMM* (*KRAKK* - það kom þó ekki í ljós fyrr en síðar). Þar hafði ég farið upp í sama skallabolta og samherji minn sem endaði þó á því að ég fékk olnbogann á honum beint í andlitið með þónokkrum þunga.
Eins og við má búast var það ansi vont en ég hélt þó áfram mínu daglega lífi þrátt fyrir verkinn og litlu skekkjuna sem virtist hafa lagst á nefið á mér.
Á föstudagsmorgun, eftir árshátíðina, fór ég svo upp á Háls-, nef- og eyrnadeild borgarspítalans. Ungur læknir (sem var svolítið líkur Edwin Van Der Sar, nema með minna nef (haha)) leit þar á nefið á mér og potaði eitthvað í það og þreifaði. Hann sagði mér þá að beinið hafði kýlst inn að einhverju leyti og ég sagðist að sjálfsögðu vilja láta laga það.
Hann byrjaði þá á því að sprauta mig með einhverri deyfingu (ég man að það var skylt kókaíini) fjórum sinnum - einu sinni í hvert 'horn' nefsins, þ.e.a.s. tvisvar við efri vör og tvisvar undir augunum. Því næst rak hann nokkra pinna upp undir brotstaðinn (já, langt upp í nös) til að deyfa nefið að innanverðu.
Eftir 15 mínútna bið (sem ég eyddi liggjandi með hausinn hallandi niður á við vegna svima (deyfingin var nokkuð sársaukafull og/eða óþægileg)) kom hann svo inn ásamt hjúkrunarkonu og tók þá upp langan járnpinna. Hann tróð honum svo upp í nefið á mér og ýtti brotinu út.
Það var miklu verra en þegar það var kýlt inn.
Því fylgdi að sjálfsögðu svimi, verkur, blóðnasir, verkur, þreyta eftir átökin og verkur. Sá verkur situr enn að einhverju leyti hjá mér. Ekki mikill, en nógu mikill til að ég hafnaði bæði bíóferð og afmælispartýi (Fyrirgefðu Klemmi og co.) (Fyrirgefðu Halla og co.).

Jæja, þá er þessari frásögn lokið og vona ég að ykkur hafi fundist lesturinn skemmtilegur, því ekki var athöfnin skemmtileg.
Hreint ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?