28. júní 2007

Lagakast

Ég átti mín fyrstu kynni við lögregluna síðasta laugardag og ef það er alltaf svona skemmtilegt þá er ég alveg tilbúinn til að íhuga það að gera þetta að áhugamáli mínu.
Þessi laugardagur hafði verið langur og skemmtilegur. Byrjaði fyrir alvöru þegar ég, Klemmi og Atli fórum í sund í Laugardalslaug og hittum þar fyrir Elfar, Davíð og seinna meir Steinunni. Eftir 2-3 tíma sundsprett (og vægar líkamsmeiðingar) fengum við okkur í gogginn á American Style. Þar leyfði ég myndlistarhæfileikum mínum að blómstra þegar ég skapaði persónu sem ég kýs að kalla "Vegga" (nf = Veggi). Hann samanstóð sem sagt úr grænmetisbitum og kartöflubútum - glæsileg fígúra. Svo glæsileg að stelpan sem tók til af borðinu eftir okkur sótti vinkonu sína til að sýna henni... svo stútaði tíkin Vegga.
...

Eftir ömurlegan póker (allur póker er ömurlegur póker ef veskið er ekki þyngra eftir á...) fórum við niður í bæ. Eftir stutt stopp á N-einum við Hringbraut tókum við stefnuna á Laugaveginn og keyrðum þess vegna eftir gömlu Hringbrautinni og stoppuðum á ljósunum við Snorrabraut.
Þá hófst fjörið.
Viktor stekkur út úr bílnum mínum, með hrekkjalómsglampa í augunum, hleypur að bíl Steinunnar sem var stopp fyrir framan okkur og byrjar að lyfta upp rúðuþurrkum, opna bílhurðir o.þ.h. skemmtilegheit. Klemenz, sem sat í bíl Steinunnar, er ekki náungi sem lætur slíkt viðgangast og gerði því slíkt hið sama við minn bíl, auk þess sem hann stal tösku Davíðs í leiðinni. Davíð rýkur þá út úr bílnum og ræðst á Klemma sem var búinn að fela sig í skottinu á bíl Steinunnar - Yarisnum hennar Steinunnar, svo þið getið ímyndað ykkur plássið.
Þ.a. staðan er svona: Klemmi liggur kraminn í skottinu á Yaris með Davíð ofan á sér, Viktor með rúðuþurrku í höndinni, ég úti að loka bílhurðunum á bílnum mínum og bíllinn minn því ökumannslaus. Þá gerðum við okkur grein fyrir því að hinum megin við götuna hafði stoppað lögreglubíll með blikkandi ljós.

Præsless.

(P.S. Engin sekt - bara ábending um að vera bara heima ef við ætlum að haga okkur eins og fífl.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?