22. ágúst 2007

Tjútt og tan og léleg slagorð!

Já, lífið getur loksins haldið áfram - ég er kominn heim.
Og aðeins of snemma ef ég á að vera hreinskilinn.
Ein vika var kannski aðeins of stutt. Hún leið a.m.k. aðeins of hratt fyrir minn smekk.
Kannski vegna þess að rútínan var svo regluleg og skemmtileg, ég veit það ekki. En hún var semsagt í grófum dráttum svona:

1. Vakna upp úr hádegi.
2. Leggjast út á sólbekk/strönd með bók og liggja í leti í nokkurn tíma.
3. Fara inn á herbergi í smástund, þrífa sig og jafnvel leggja sig aðeins.
4. Fá sér að borða einhvers staðar.
5. Fara út á svalir heima á hóteli með nóg af "vökva".
6. Halda niður í bæ í leit að meiri "vökva".
7. Koma heim milli 6 og 8, stúta vatni í lítravís og skríða upp í rúm.
8. Endurtaka skref 1-7.

Þó var fleira að finna á Tene en "vökva" og sól. Þar voru líka háværar, pirrandi apabrúður sem öskruðu úr sér sitt litla mekaníska líf, litlir hraðskreiðir kakkalakkar, uppáþrengjandi starfsfólk skemmtistaða, svartir gleraugna- og úrsalar sem höfðu á einhvern ótrúlegan hátt fundið upp nýja leið til viðskipta; þeir gefa manni fríar vörur gegn því að við gefum þeim einhverja smá skiptimynt. Það er það minnsta sem maður getur gert fyrir fríar vörur, ekki satt?
Og ekki má gleyma hinum fríða flokki nemenda Lærða skólans í Reykjavík sem varla var hægt að tvífóta fyrir.Þar á meðal var að finna:
a) fólk sem ég þekki vel
b) fólk sem ég kannaðist við
c) fólk sem ég hafði aldrei talað við áður.
Síðasti flokkurinn var eiginlega sá sem gerði ferðina eins skemmtilega og raun bar vitni.

En til að gera langa sögu mjög stutta:
Besta útlandaferð lífs míns.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?