17. september 2008

Blautur, blautari, rakastur

Jæja, þá er knattspyrnutímabilið formlega búið.
Svona lauk þessum síðasta degi 2. árs míns sem leikmaður meistaraflokks Álftaness:

Dagurinn fór snemma af stað, strax á hinum óguðlega tíma 11:45 þegar ég kvaddi Guðrúnu mína og fór á Bessann. Þar voru þegar mættir nokkrir meðlimir 2. og meistaraflokks Álftaness, sem og hópur af fólki sem ég þekkti ekki baun, sem var sérstakt, því fyrir þá sem ekki þekkja Bessann af eigin raun þá rúmar Bessinn ekki "hóp" fólks - og hvað þá fleiri.
Brátt voru öll sæti inni á Bessanum - auk útistólanna - upptekinn og Leikurinn hófst.
Nú ætti stóri stafurinn að gefa upp hvaða leikur var þar á ferð.
Að sjálfsögðu stórleik Liverpool og Manchester United - en af gefnu tilefni ætla ég ekkert að fjalla meira um þann tíma sem ég eyddi í að horfa á leikinn...

Næsti liður á dagskrá hófst svo klukkan hálf þrjú þegar 12 leikmenn meistaraflokksins (ég meðtalinn) hittust, búnir hjólum og keppnistreyjum niður í íþróttahús. Nú var kominn tími á refsinguna okkar, þar sem við töpuðum veðmáli okkar við þjálfara liðsins.
(Díllinn var sem sagt sá að ná 15 af 18 síðustu stigum sumarsins, en við náðum einungis 13. Svekk.)
Veðmálið átti auðvitað við um alla leikmenn liðsins en sumir voru uppteknir við vinnu, fjölskyldu eða aumingjaskap.
Þ.a. við hjóluðum frá Álftanesi og niður í Smáralind í hávaðarigningu og roki í keppnistreyjum Álftaness. Þar höguðum við okkur eins og bjánar á meðan við litum út eins og fávitar. Rennblautir fávitar.

Annars segir mynd meira en þúsund orð.
Ennfremur segir myndband u.þ.b. 24x meira á hverri einustu sekúndu, þ.a. þetta myndband ætti því að vera meira en 5,4 milljónir orða.

(Myndbönd af ferðinni í Smáralindina eru alls 4 - þið smellið hreinlega á myndbandið hér að ofan og finnið linkana á hin, ef þið eruð á þeim buxunum.)

Hjólreiðaferðin endaði svo í ljósu fjörunni á Álftanesi þar sem smá viðbót var gerð við refsinguna.
Við vorum látnir hlaupa í sjóinn.
Þar með rennblotnuðu endanlega þær flíkur sem voru einungis hundvotar fyrir.
Aftur - myndband segir allt sem segja þarf.


Eftir þetta var gert smá hlé fyrir sturtu og snyrtingar á húð og hári, því klukkan 7 hófst hið eiginlega lokahóf í hátíðasal íþróttahússins. Þar beið okkar dýrindismatur, nokkur misgóð, mistruflandi skemmtiatriði (ég bíð bara eftir að það komi á youtube) og gríðarlegt magn af áfengi.
Taka skal fram að yðar einlægur hlaut þar verðlaun - "Flest mörk í eigið mark" og fékk ég að launum eina máltíð á Serrano's á eigin kostnað.

Kvöldið endaði svo á því að ég og Guðrún gengum heim í roki og rigningu - ekki það að ég hafi ekki verið vanur bleytunni eftir daginn...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?