2. september 2008

Listaspíra

Það er skemmtilegt að hugsa til þess að nú þegar skólinn er byrjaður og maður ætti að vera að nota tímann til að læra, þá loksins fer maður að blogga, en það gerir maður ekki þegar maður hefur ekkert að gera.
Gaman að því.

En já, ég er sumsé opinberlega orðin listaspíra, þó ég klæði mig ekkert sérstaklega sem slík. Ég þyrfti kannski að fara í verslunarleiðangur í leit að þröngum skærlitum buxum, treflum og stórum gleraugum.
Ekki það að ég sé eitthvað að setja út á klæðaburð skólasystkina minna.
Nú hef ég lokið heilli námsviku í LHÍ og enn svo komið er hef ég (t.d.)
-lært um Napólíhljóminn (lækkað 2. sæti í 6undarstöðu með tvöfalda 3und - ekki það að þið hafið ekki vitað þetta fyrir) í tónfræði.
-lært aðeins um Gregor-sönginn og fyrstu ár tónlistar (kirkjutónlist, aðallega) í tónlistarsögu.
-sungið og "ta-títtí-ta-að" í tónheyrn.
-næstum því sofnað í hljóðfærafræði.
-leiðst brjálæðislega í stafrænum miðlum (ég hef notað Makka síðan ég man eftir mér - ég VEIT hvað Dock er og hvernig maður lokar gluggum með lyklaborðinu!)
Sem sagt - gott stöff!

Keep the good times going!

En að öðru ekki jafn skemmtilegu.
Ég fór í bíó á sunnudagskvöld með Guðrúnu minni á heiladauðu aksjón-myndina Death Race. Myndin var svo sem fín - töff bílamynd með nóg af blóði, byssum, dauðsföllum og sprengingum.
En bíóferðin sjálf var full af litlum leiðindum.

Fyrst, í sjoppunni. Fólk sem treðst fram fyrir er ekkert nema ömurlegt. Ég get fyrirgefið ef einhver gengur til vina sinna sem eru framar í röðinni (það er samt á gráu svæði) en almennur troðningur og frekja er bara leiðinlegur.
Nr. 2 - Klemenz, Oddur og Viktor klikka á að passa sæti fyrir okkur Guðrúnu. Jú, rétt er það að ég hringdi ekki í þá fyrirfram og BAÐ þá um að passa fyrir okkur. En þess á ekki að þurfa! Þeir vissu að við ætluðum að koma og af hverju ættum við ekki að vilja sitja hjá þeim eins og við höfum gert síðan frá upphafi kvikmyndanna? Það er ekki eins og þeir væru að passa sæti fyrir 8 manns! Bara hugsunarleysi og ekkert annað.
Nr. 3 - Þessi helvítis hlé! Ég tel mig ekki þurfa að segja meira!
Nr. 4 - Fólk sem situr við hliðina á mér og fær sér að reykja í hléi lyktar alveg eins maðurinn sem er að reykja sígarettu í salnum 4 sætaröðum frá mér - það er enginn munur! Bara bögg.
Nr. 5 - Asnalegir töffarar sem tala sín á milli yfir 5-6 sæti í miðri mynd. Svo ekki sé minnst á í símanum. Heimska fólk.

Nú er röflarinn í mér sáttur og getur lagt sig eitthvað fram yfir helgi - vonandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?