31. maí 2010

Hugarfjötrar

Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir á undanförnum vikum að ég er gripinn einhverri skyndilegri og sterkri löngun til að skapa eitthvað. Eitthvað fallegt.
En það er nokkurn veginn það eina sem þessi löngun segir mér.
Hún tekur ekkert fram hvernig ég eigi að gera það. Hún segir ekkert til um hvort ég eigi að grípa í hljómborðið og semja eitthvað lítið lag eða hvort ég eigi að vippa fram þessum blessaða bloggglugga og pikka inn einhverja ljóðræna romsu um hafið og sólina og ástina, eins og ég er vanur að gera endrum og eins.
Þessi óskilgreinda löngun veldur því að ég stend skyndilega frammi fyrir nokkrum vandamálum:

Í fyrsta lagi þarf ég að átta mig á því hvaða form þessi sköpun mín eigi að taka. Það er ekki eins auðvelt og maður myndi halda.
Í öðru lagi þarf ég að vona að það séu engin skylduverkefni sem ég þurfi að sinna þegar þessi löngun tekur yfir, því það er nánast ógjörningur að yfirvinna þessa sköpunarþörf þegar hún sýnir sig.
Í þriðja lagi - sem er í raun og veru ástæða þess að ég ákvað og hripa þessar hugleiðingar mínar niður - þarf ég að yfirvinna ritskoðandann í höfðinu á mér.

Það hafa allir einhverjar hindranir í hugsanagangi sínum, bæði meðvitaðar og ómeðvitaðar. Sumir hafa girt einhverjar minningar eða hugsanir af vegna sársaukans sem fylgir því að draga þær fram. Aðrir ýta ákveðnum hugsunum til hliðar því samviska þeirra mælir gegn því að leyfa þeim að njóta sín (ósmekklegir brandarar og almennur dónaskapur fellur inn í þennan flokk). Helsta hindrunin sem ég - og eflaust flestir aðrir - þarf að glíma við er minn innri ritskoðandi; Tröllvaxna vöðvabúntið sem stendur vörð um útgang heilans og heldur föngnum öllum þeim hugmyndum sem gætu mögulega saurgað orðspor mitt.
Sumsé, allir þeir brandarar sem gætu fallið flatir á jörðina, öll sú list sem fær fólk til að ranghvolfa í sér augunum og allar aðrar aðgerðir sem gætu mögulega látið mig líta út eins og vitlausan, klaufskan, örvæntingarfullan og/eða dónalegan.
Og trúið mér - þessi ritskoðendadyravörður minn er mjög smámunasamur og vandlátur.

Allt frá því í grunnskóla hefur þessi "fangavörður vandræðaleika" verið í fullu starfi og ef eitthvað, þá varð hann bara kröfuharðari með árunum - svo mikið að undir lok 10. bekkjar fór ég lítið sem ekkert út úr mínum hlýja og góða þægindahring. Það verður að segjast að ritskoðandinn slakaði aðeins á þegar ég byrjaði í MR, en ekki meira en það að ég tók afskaplega lítinn þátt í félagslífi skólans, sem og félagslífi utan hans. Ég man að ég átti það til að koma mér upp hinum ýmsu ástæðum til að komast hjá félagslegum samkomum, einfaldlega vegna þess að mér fannst ég ekki þáttökuhæfur. Undantekningalaust spurði ég sjálfan mig í kjölfarið hvað í andskotanum ég hafi verið að gera. Ég hef ekki ennþá getað gefið mér réttmætt svar.
En fyrir örfáum árum fékk ég tækifæri til að þróa vopn gegn þessum ofvirka útkastara í hugsanaferli mínu - Dale Carnegie.
Ég held að það hafi ekki farið framhjá neinum hve miklu það breytti fyrir mig. En bara til öryggis, þá skal ég taka nokkur dæmi:
1. Ég sótti um nám í LHÍ og opinberaði formlega listsköpun mína fyrir öllum sem hana vildu sjá, ólíkt fyrri árum þar sem aðeins mínir allra nánustu vinir vissu að ég semdi tónlist.
2. Ég eignaðist mína fyrstu kærustu. Ég veit ekki hve oft á mínum unglingsárum ég var yfir mig hrifinn af einhverri stelpu og gerði ekkert í því, því ég trúði því ekki að ég ætti nokkurn séns.
3. Ég varð talsvert virkari í öllu félagslífi - eignaðist marga góða vini og enn fleiri kunningja.

Nú er ég farinn að hljóma eins og ég sé einhvers konar talsmaður Dale Carnegie námskeiðsins - en það er einfaldlega raunin að Dale Carnegie breytti lífi mínu til hins betra.

En auðvitað útrýmdi hún ekki vandamáli mínu - hún hjálpaði mér að eiga við það, en það háir mér enn þann dag í dag. Ég þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en til gærkvöldsins til að finna atvik þar sem minn innri ritskoðandi hélt aftur af mér til að segja þá brandara sem mig langaði að segja, spyrja þeirra spurninga sem mig langaði að spyrja, stíga þau skref sem mig langaði að stíga.
Og til hvers? Til að forða mér frá skömm og vanlíðan?
Ég er nokkuð viss um það að vonbrigðin sem ég veld sjálfum mér, trekk í trekk, í slíkum aðstæðum valda mér jafnmiklu hugarangri og vandræðaleikinn sem mögulega gæti fylgt því að láta einfaldlega vaða.

Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að það er nauðsynlegt að hafa smá hemil á sjálfum sér, enda er ég ekki að reyna að drepa þennan dyravörð langana minna - ég er einfaldlega að reyna að ná honum úr steranotkuninni.

1 ummæli:

  1. Gott blogg, takk fyrir að deila þessu. Skemmtileg líking sem þú notar um hugarfjötur manns sem ætti aðeins að virka sem almenn siðfræðiskennd en yfirstígur oft hlutverk sitt og lætur mann í staðinn gleypa það sem maður vill segja, láta lítið fyrir sér fara eða einfaldlega sleppa félagslífi vegna áðurnefndum dyraverði.

    Þessi dyraverðir eru mismikið á sterum milli fólks og ég held að barátta við dyravörðin sé hverjum manni heilbrigð.
    Ég er allavega mjög ánægður að hafa náð að kynnast þér eftir að þú náðir sterafíkninni undir kontról því þú ert mikilvægur partur af vinahópnum okkar :)

    Sýnir bara hversu mikla stjórn þú hefur á þínum dyraverði að skrifa þetta blogg.

    SvaraEyða

Hvað liggur þér á hjarta?