23. nóvember 2004

Allt í vitleysu

Tímaskyn mitt er farið út um þúfur. Ég þekki varla muninn á fortíð og framtíð lengur.
Ég kem heim um hálf fimm eftir tíu og hálfs tíma vöku. Ég fæ mér dágóðan hádegisverð, vegna þess að í morgun komst ég ekki til þess að láta almennilegan morgunmat ofan í mig. Eftir það dotta ég í mínu ástkæra og aðlaðandi rúmi, sem er enn meira lokkandi í þessum kulda. Ég vakna í örstutta stund við hundsgá. Móðir mín er kominn heim. Vakna síðan nokkrum klukkustundum síðar. Eitthvað sem hljómar eins og jólatónlist ómar í eyrum mínum.
Í smástund hugsa ég: "Þorláksmessa!"

Faðir tími hefur haft mig að fífli. Hálftími hefur liðið í fantasíulandi. Tími heimanna tveggja rennur saman fyrir huga mínum.
Nú ráfa ég stefnulaust um í húsinu og reyni að átta mig á því hvar ég er.
Ég þekki ekki sekúndur frá árum, klukkustundir frá öldum.
Ég er tímalaus!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?