11. september 2007

Bissí deis!

Alvöru-Einar og Blogg-Einar eru líklega að miklu leyti andhverfur hvors annars. A.m.k. lítur það út fyrir að svo sé. Til að mynda hefur Blogg-Einar ekki gert sjitt í heillangan tíma en á meðan hefur Alvöru-Einar farið hamförum í aðgerðum og stússi.

Fyrst ber að nefna Busadaginn og -kvöldið.
Ég vil ennþá meina að Busavígsla MRinga sé ein svalasta hefð sem ég hef orðið vitni að og hún er bara svalari þegar maður horfir á hana klæddur í tóga. Og málaður. Og ofboðslega reiður út í busakvikindin. Þegar „O Fortuna“ fer á fullt flug og við byrjum öll að öskra á leiðinni upp göngustíginn að MR þá fékk ég svo svakalega gæsahúð að það var ekki fyndið. Og ég neita að trúa því að það hafi nokkuð með það að gera að ég var ekki í neinu nema nærbuxum, laki og sandölum í rigningu og íslenskri septembergolu.
Ég hef sjaldan glaðst svo mikið yfir hræðslu annarra.
Seinna sama dag hófst svo partýið. Sjötti Z og þriðji I fögnuðu þá saman í veislu þar sem drykkjuhlutfallið var tógaklæddum sjötta bekk mjög í hag. Eðlilega.
En til að gera langa og æðislega skemmtilega sögu mjög stutta og frekar óspennandi þá er þetta eflaust besta fyrirpartý sem ég hef farið í. Ballið var aftur á móti ekkert æðislegt, en þá sigtar maður þá minningu bara í burtu.

Föstudagurinn byrjaði á afskaplega þreyttum, mygluðum og hljóðum skóladegi, sem er ekki óalgengt eftir böll sem þessi. En ég var nokkuð hress. Ég þurfti að vera nokkuð hress þar sem mín beið annað partý um kvöldið: Lokahóf meistaraflokks Álftaness.
Eins og við má búast frá slíkum íþróttapartýum var fátt annað gert en að drekka, borða, drekka, reykja og skemmta sér - oftar en ekki við það að drekka. Einhvers staðar á milli atriða í þessu stífa prógrammi var svo verðlaunaafhending. Veitt voru verðlaun fyrir:

Ljótasta mark ársins: Guðbjörn Sæmundsson.
Flottasta mark ársins: Ómar „Bangsi“ Rafnsson.
Gullkorn ársins: Yðar einlægur. („Ég finn greindarvísitöluna mína lækka við það að hlusta á þá tala saman!“)
Vinsælasti leikmaðurinn: Ragnar Arinbjarnarson.
Mestu framfarir: Yðar einlægur.
Leikmaður ársins: Andri Janusson.

Þannig að þið getið ímyndað ykkur hvort ég var ekki ánægður þetta kvöld.
En þegar verðlaunaafhendingu var lokið hélt teitið áfram þar til þar var búið, enda er það venjan með partý.

Laugardagurinn byrjaði svo eldsnemma á fótbolta uppi í Mosfellsbæ á Firmamóti. En vegna atburða kvöldsins á undan var frammistaða mín þar ekkert sem ég ætla að minnast á - því annars gæti ég þurft að skila bikarnum mínum. Ég ætla líka að sleppa því að minnast á landsleikinn sem ég fór á vegna spælingar. Og fyrst ég er í því að minnast ekki á hluti þá ætla ég ekkert að minnast á chillið/rúntinn um kvöldið með Partýpleis-fólkinu, tölvuleikinn sem ég keypti mér í gær og hef verið að spila síðan - eða svo gott sem - og ég ætla alls ekki að minnast á fyrstu æfinguna mína sem þjálfari 8. flokks barna á Álftanesi. Enda var hún svo fámenn og róleg að ef ég myndi minnast á hana, þá mynduð þið biðja mig um að hafa aldrei gert það. Sem ég er að gera - eða... ekki.

...ég er að fá hausverk....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?