30. apríl 2010

Versta lýsing sögunnar?

Fyrst ætla ég að valda Antoni vonbrigðum með því að taka það fram að þessi færsla tengist lýsingu ("lighting") ekki neitt. Öllu heldur tengist þetta "innihaldslýsingunni" aftan á DVD-hulstri hryllingsmyndarinnar Drag me to Hell, sem ég horfði á fyrir nokkrum dögum.

Þetta er mögulega verst skrifaði texti sem ég hef séð á DVD-hulstri... eða hvaða hulstri sem er, ef út í það er farið.
Ég skal deila þessum texta með ykkur:

Drag Me To Hell er ein besta spennumynd ársins 2009 og er nýjasta kvikmynd leikstjórans Sam Raimi frá hinum sama og færði okkur Army of Darkness árið 1992.“


Ok, ok - þetta er kannski ekkert skelfilega skrifað. Höfundur er kannski ekki mjög hrifinn af greinarmerkjum en það er svo sem fyrirgefanlegt. Einnig finnst mér athyglisvert að af öllum Sam Raimi myndum skuli þeir nefna Army of Darkness frá 1992...
En við skulum halda áfram...

Drag Me To Hell fjallar um Christina Brown sem vinnur í banka einum og er hún að klifra upp metorðalistann í bankanum og á von á stöðu og kauphækkun fljótlega ef all gengur upp hjá henni.


Nú fara skemmtilegheitin að byrja. í fyrsta lagi heitir óheppna sögupersónan okkar ekki Christina, heldur Christine. Í öðru lagi finnst mér ótrúlega sniðugt að hún skuli "klifra upp metorðalistann", þar sem við hin reynum bara við stigann. Sniðug er hún! Það er líka tími til kominn að hún fái stöðu! Greyið manneskjan getur ekki verið stöðulaus í lífinu!

„Allt leikur í lyndi þar til gömul sígaunakona birtist í bankanaum og biður Christinu um biður um aframhaldandi lán til þess að bjarga heimili hennar ef gamla konan fær ekki lánið mun hún missa heimilið sitt.“


Taka skal fram að allar stafsetningar-, málfræði- og innsláttarvillur eru eins og þær eru á hulstrinu. Og þá meina ég ALLAR - þetta er það slæmt.

„Christina þorir ekki að samþykkja lánið í ótta um að það hafi áhrif á stöðuhækkun sína í bankanum og þess vegna missir gamla konan heimilið sitt . Í hefndarhug hefnir gamla konan sín á Christinu með því að leggja á hana Lamia bölvunina á Christinu og eftir þessa bölvun verður líf Christinu að helvíti á jörðu því hún er elt útum allt af illum anda , hún leitar hjálpar hjá ýmsum aðilum sem endar hjá miðli einum sem þekki bölvunina.“


Öhh... já.

„Hvað gerist svo er best fyrir ykkur að sjá sjálf ef þið þorið.“


Hver skrifar svona texta? Ég bara spyr! Og er virkilega enginn tilbúinn að eyða 5 mínútum í að lesa þetta yfir og lagfæra?
Frekar pínlegt...

Og þar með lýkur mesta nördavælubloggi lífs míns.

4 ummæli:

  1. Æ, þetta er bara sorglegt. Manni finnst ótrúlegt að þetta skuli geta gerst.

    - HK

    SvaraEyða
  2. Þetta "banka einum" og "miðli einum" er eitthvað sem maður sér oft hjá krökkum í svona 5.-7. bekk. Kannski var útgefandinn að spara aðeins og fékk bara dóttur sína í verkið...

    SvaraEyða
  3. Það er hárrétt hjá þér, þetta er einfaldlega illa staðið að verki frá einstaklingi sem vinnur við það að skrifa aftan á DVD.

    En að segja "Á von á stöðu og kauphækkun" er ekki rangt að mínu mati.

    Einfaldlega því það er til nokkuð sem heitir stöðuhækkun.

    En það sem mér finnst hinsvegar standa upp úr, úr þessum texta.(þessi komma á eftir úr og svo annað úr strax á eftir er 100% viljandi) Er sú staðreynd að söguþráðurinn í þessari mynd er crap...

    Hef ekki séð hana, en man eftir auglýsingunni og ætlaði alltaf að gæla við það að sjá hana, en ég get ekki horft á hryllingsmyndir í bíó, þar sem ég get ekki lækkað hljóðið í bregðuatriðum, en núna mun ég aldrei leigja þessa mynd.

    :)

    SvaraEyða
  4. Vitleysan er að þegar þú skrifar svona þá seturðu bandstrik fyrir aftan "ókláraða" orðið. Þ.a. rétt væri: Á von á stöðu- og kauphækkun.

    Smámunasemi, ég veit - en hvað er lífið án smáatriða?
    :P

    SvaraEyða

Hvað liggur þér á hjarta?