2. nóvember 2010

Handan glersins

"Hvað er málið með þennan gæja?!"
Hann sat í sætinu við gluggann og hefði það verið eðlisfræðilega mögulegt þá hefði hann setið inni í honum. Það fannst honum alla vega, miðað við hvernig svartklæddi, ljóshærði maðurinn sat alveg upp við hann.
Er þessi fáviti ekki nógu ánægður með að hafa fengið sæti í strætónum yfir höfuð? Þarf hann virkilega að fá mitt líka?
Hann vissi alveg að hann gat leyft sér að drulla yfir ljóshærða manninn í huganum eins og hann vildi - það var ekki eins og hann myndi einhvern tímann láta óánægju sína í ljós í raun og veru. Hann þekkti sjálfan sig nógu mikið til þess að vita að það þyrfti talsvert mikið meira en plássfrekan strætófarþega til að slíta af honum beislin og reita hann virkilega til reiði. Þannig að hann bölvaði manninum einu sinni enn í hljóði, hækkaði í iPodnum og fylgdist með hægri föstudagseftirmið-degisumferðinni út um gluggann. Það var kannski ekkert gríðarlega spennandi viðfangsefni í sjálfu sér, en hann stóð í þeirri trú að með réttri tónlist væri hægt að horfa á málningu þorna og samt verið spenntur.
En einbeitingin var rofin skömmu síðar þegar hann fann hvernig heitur þrýstingurinn á vinstra lærið á honum hvarf. Hann leit snögglega til hliðar og þar blasti við honum svartklæddur afturendi ljóshærða mannsins sem hafði staðið upp og stefni hægum skrefum í átt að afturdyrunum. Augu hans fylgdu ljóshærða manninum varlega eftir eins langt og hann þorði, svo hann væki nú ekki óþarfa athygli annarra farþega, en hann var þó eiginlega alveg búinn að snúa sér við í sætinu þegar ljóshærði maðurinn steig loksins út úr vagninum.
Það var ekki fyrr en hann fann aftur einhverja snertingu við lærið á sér sem hann áttaði sig á því hvernig hann hlyti að líta út, þar sem hann sat allur snúinn í sætinu og sneri sér því leiftursnöggt til baka áður en hann færi að roðna.
En í miðjum snúningi fraus allur hugsunagangur hans.
Ótti hans við smá roða í kinnum varð að engu og pirringurinn út í plássfreka ljóshærða manninn var gleymdur með öllu.
Honum fannst meira að segja tónlistin í heyrnartólunum þagna.

Hann horfði á hana.
Hann starði eiginlega.
Sólsetur yfir sjónum. Grasi gróin fjallshlíð eftir rigningarskúr. Kolsvartur, stjörnubjartur næturhiminn. Allt það sem hann hafði talið vera sanna fegurð vék fyrir nýrri skilgreiningu:
Fegurðin var dökkhærð, í gráum jakka og notaði strætó.

Hann starði í hátt í tvær sekúndur áður en hann kláraði snúninginn sem hann hafði byrjað á í síðasta lífi; Lífi þar sem hann hélt að hann þekkti fegurðina.
Hann sat nánast stjarfur við hliðina á henni og vissi ekkert hvernig hann átti að haga sér. Hann kunni ekkert á þetta nýja líf - þessa nýju fögru tilveru. Hann var ekki einu sinni viss hvort þessi heimur hlýddi sömu eðlisfræðilegu lögmálum og sá gamli hafði gert. Hann snerti rúðuna varlega með vísifingri hægri handar, bara til að athuga hvort hún væri ekki ennþá gegnheil.
Rúðan var alveg hörð og þegar hann var klesstur upp við hana tuttugu sekúndum fyrr.
Hann leit kæruleysislega aftur til vinstri. Eða, hann vonaði að það liti kæruleysislega út. Hefði hann fylgt löngun sinni algjörlega eftir þá hefði hann rofið hljóðmúrinn með snúningshraðanum. En það myndi væntanlega sundra rúðunni og hinum nýja fagra heimi með henni. Það vildi hann ekki.
Þannig að hann leit kæruleysislega til vinstri en að þessu sinni mættust augu þeirra eitt andartak.

Í gegnum árin - þessi rúmu 20 sem hann hafði upplifað - hafði hann heyrt og lesið ótalmargar lýsingar karlmanna þegar þeir litu í augu fagurrar stúlku og hann hafði því búið sig undir að geta "týnt sér í hinu bláa kyrrðarhafi sem voru augu hennar" en það var bara kjaftæði.
Hann sá ekki nein kyrrðarhöf. Hann sá enga glitrandi demanta. Hann sá ekki einhverja ímyndaða hamingjusama framtíð með henni.
Hann sá bara hana.
Hann sá ekkert nema hana.
Það var fallegra en nokkur myndlíking gæti mögulega höndlað.

Hann áttaði sig skyndilega á því að hann hafði ekki hugmynd um hve lengi hann hefði horft í augun á henni en þar sem hún hafði ekki enn litið undan þá gerði hann ráð fyrir því að það hefði alls ekki verið lengi. Hann ákvað því að verða fyrri til og brosti því feimnislega til hennar og leit undan. Hann sá þó útundan sér að hún gerði slíkt hið sama.

Fegurðin tapaði engu á brosinu. Þvert á móti. Við stjörnum prýddan næturhimininn hafði bæst litríkasta norðurljósaslæða sem sést hefur.

En þar sem hann sat við hliðina á henni í troðfullum strætónum áttaði hann sig á því að nú myndu vandamál hans byrja.
Hvað í andskotanum á ég að segja við hana?! Ég verð að segja eitthvað! Ég get ekki leyft sjálfum mér að sitja hérna þögull og brosa bara eitthvað út í loftið eins og einhver fáviti! Það væri móðgun við mannkynið að reyna ekki einu sinni!
Hann renndi hratt í huganum yfir allar mögulegar setningar sem hann gæti sagt til að hefja samræðurnar án þess að hljóma eins og lúði, nörd, fáviti, tilgerðarlegur spaði, pervert, geðsjúklingur eða allt í senn. Ekkert virtist fullnægja skilyrðunum.
Honum varð þó skyndilega hugsað til samræðna vinkvenna sinna. Aðeins fáeinum dögum áður höfðu þær komist að þeirri niðurstöðu að þeim fannst alltaf mest heillandi þegar strákurinn einfaldlega mannar sig upp, gengur til stelp---
„Fyrirgefðu, átt þú þetta?“

Þankagang hans rak í rogastans þegar hann heyrði rödd hennar.
Þessi rödd.
Þessi rödd var fegurri en nokkur tónlist sem hann hafði heyrt.
Þessi rödd hlaut að vera fegurri en nokkur tónlist sem samin hefur verið.
Það bara hlýtur að vera, annars hefði einhverju tónskáldinu dottið í hug að nota rödd hennar í verk sitt; Tónaljóð fyrir strengjakvartett og rödd fegurðarinnar.

Hann leit á hana þar sem hún hélt um iPodinn hans og horfði á hann spurnaraugum. Hann flýtti sér að kippa nú ótengdum heyrnartólunum úr eyrunum. Hann vissi ekkert hvenær iPodinn hafði dottið í jörðina né hvernig það hafði gerst án þess að hann tæki eftir því. „Já - vá - Ö, takk!“ sagði hann og tók við iPodnum. „Vandræðalegt...“ bætti hann við og brosti aftur.
Hann var nokkuð viss um að kinnaroðinn sem hann hafði óttast áðan væri nú mættur af fullum krafti.
„Bara pínu.“ svaraði hún og glotti örlítið.
„Ég veit samt ekki alveg hvernig ég fór að því að taka ekki eftir þessu sjálfur. Ég meina, það er ekki eins og ég hafi verið að hlusta á John Cage eða eitthvað.“

Hefði hann getað það, þá hefði hann slegið sig í heilann á þessu augnabliki.
Þar fór planið um að hljóma ekki eins og nörd!

En hún virtist ekki hneykslast á honum. Hún virtist ekki missa áhugann. Hún virtist ekki hafa uppgötvað að hún sæti við hliðina á „skrýtna gaurnum“ sem er furðulega oft að finna í strætóum landsins. Þess í stað flissaði hún bara og svaraði: „Nei, kannski ekki. Hann er ekki beint svona iPod-í-strætó hlustunarefni.“

Hann brosti. Hann gat ekki annað. Hlátur hennar greip á einhvern hátt í allar brostengdar taugar í líkama hans. Ef það var eitthvað hljóð í þessum heimi fallegra en rödd hennar, þá var það hláturinn. Ef hann væri til á MP3 formi, þá myndi iPodinn ekki innihalda neitt annað. Það væri algjörlega óþarfi.

„En á hvað varstu að hlusta sem var svona grípandi og skemmtilegt?“ spurði hún stríðnislega.
Hann leit á iPodinn. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann hafði verið að hlusta á áður en hún birtist. Það hafði, jú, verið í fyrra lífi.
„Mumford & Sons.“ svaraði hann. „Þekkirðu þá?“
„Hef bara eitthvað smá heyrt í útvarpinu. Ekkert hlustað á þá af ráði. Eru þeir ekki annars gæjarnir með banjóið?“
„Jú, það passar. Hvernig getur hljómsveit sem inniheldur banjó klikkað?“
Hún brosti til hans og svaraði: „Segðu! Það er allt betra með banjói.“
„Banjóið er eins konar beikon tónlistarheimsins.“ bætti hann við og hló.

Aftur hefði heilinn í honum fengið duglegt högg á þessu augnabliki.
Banjóið er beikon tónlistarheimsins?! Hvað í andskotanum var ég að segja?!

En aftur, honum til ánægjulegrar undrunar hló hún bara með honum. Hann var ekki viss hvort hún væri bara að vera kurteis eða hvort hún væri með jafn furðulegt skopskyn og hann, en honum var í raun og veru algjörlega sama. Fegurðin sat og hló með honum. Hann gat ekki beðið um neitt meira í þessu lífi.
Honum varð litið út um gluggann hægra megin við hann. Hann sá eftir því um leið. Strætóinn var að gera sig tilbúinn til að stoppa og það voru ekki nema 5 eða 6 stoppistöðvar þangað til að það kæmi að hans. Honum fannst venjulega 5 eða 6 stoppistöðvar of lengi að líða en í þetta skiptið yrðu þær allt of fljótar. Og jafnvel hefði hann ekki einu sinni svo langan tíma! Hún gæti farið út eftir 3 eða 4! Á þeirri næstu, þess vegna!
„Af hverju er ég þá ekki að tala við hana núna?“ spurði hann sjálfan sig. Hann gat ekki fundið neina trúverðuga afsökun svo hann leit aftur til hennar. Hann sá líka eftir því samstundis.
Hún var staðin upp.

„Heyrðu, ég fer víst út hérna. Takk fyrir spjallið!“ sagði hún og brosti til hans. Hann brosti til baka, þó það væri einna aftast á hans löngunarlista á þessum tímapunkti. „Já, takk sömuleiðis!“ sagði hann. Hún gekk að afturdyrunum, steig út úr vagninum og tók heiminn með sér.

Hann sat einn eftir í sætinu við gluggann og horfði út. Hinn gamli, litlausi heimur hafði tekið hann í faðm sér aftur, en hann kannaðist ekki við sig. Allt var gjörbreytt.
Hann hafði séð fegurðina. Hann hafði talað við hana. Fegurðin hafði setið við hliðina á honum í nokkrar mínútur og hann hafði ekki einu sinni náð nafninu hennar.
Fegurðin er dökkhærð, í gráum jakka og farinn úr lífi hans.
En hún er til.
Hún er til.

-Einar Sv. Tryggvason


(Taka skal fram að þessi frásögn er aðeins 7% sönn - ég hef setið við hliðina á plássfrekum gaur í strætó.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?