31. janúar 2005

Stærðfræði er fyndin

Hún var það að minnsta kosti í þetta sinn.

Þannig er mál með vexti að yðar einlægur var í stærðfræðiprófi fimmtudaginn var. Þetta var fyrsta prófið mitt eftir fjarvistirnar vegna handarinnar, svo ég var ekki alveg klár á öllu.
En jæja, ég byrja á prófinu og það gengur svona sæmilega.
Nema hvað, að ég gat hreinlega ekki munað hvernig maður sannar: "Jafnan x í öðru = 2 hefur enga ræða lausn."
Þannig að ég byrja bara að skrifa. Allt í lagi, byrjunin tekst án vandkvæða.
En þegar ég er búinn að skrifa þrjár línur, þá gat ég hreinlega ekki meira, svo ég gafst upp.
Spratt þá upp í hausinn á mér þetta í framhaldi:

Glugga vil ég bókina' í,
spurning hvort það megi.
Nú hætti ég að skrifa, því
meira man ég eigi.

(Ég veit að vísan stuðlar ekki, en komm on, ég var í stærðfræðiprófi. Give me a break)

Í vonleysisaðgerðum svaraði ég líka þremur spurningum:
"Kann ekki :("
"Get ekki :("
"Skil ekki :("
Og fannst mér það ákaflega sniðugt á þeim tímapunkti.

En annað kom upp á bátinn eftir tímann. Skyndilega fór ég að sjá eftir þessu og var orðinn logandi hræddur um hvað Siffa mundi gera.
Prófblöð með stóru núlli svifu fyrir augum mér í draumum mínum og á blaðinu stóð:
"Haltu kjafti eða farðu á málabraut, fíflið þitt!"

Við fengum síðan prófblöðin afhent í dag.

Ég var búinn að búa mig undir margt. Alls kyns orðsendingar og óbjóð, en þessu átti ég ekki von á.
Búið var að skrifa með bleikum penna við hliðina á vísunni góðu:

Betra er bók að glugga í
bæði vel og lengi.
Lesið efni læra því
ljótt er þetta gengi!

(Hennar vísa stuðlar, já. En hún fékk líka 4 daga til að æfa sig. (Þess vegna fengum við prófin ekki á föstudaginn))

En já, stærðfræðin er skemmtileg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?