6. nóvember 2006

Köllunin (Part I)

Bjarminn frá tölvuskjánum náði ekki langt fram á gólfið, en nógu langt til að fanga athygli drengsins sem sat hinum megin í herberginu. Hann sat á rúminu sínu með bakið upp að veggnum og horfði á sjónvarpið.
Í fyrstu hunsaði hann litlu tölvuna á borðinu. Hún var einnig upp við vegginn og sat þar í hnipri milli tveggja stórra hátalara. „Hún er bara afbrýðisöm,“ hugsaði drengurinn með sjálfum sér, „hún jafnar sig.“
En tölvan jafnaði sig ekki.
Hún sat bara í skugga svörtu kassanna og starði dauflega út í herbergið.
Upp í rúmið.
„Fyndið... það er eins og hún sé að horfa á mig.“ Drengurinn hló með sjálfum sér og lagaði koddann sinn.
Tónlist ómaði nú um herbergið. Þátturinn var búinn í sjónvarpinu.
Drengurinn rétti úr sér og teygði sig í fjarstýringuna. Hann ýtti á stóran gráan takka; Standby.
Tónlistin hætti ekki.
Honum varð snögglega litið á tölvuna. Hún sat og starði sem fyrr.
Hann smellti aftur á takkann.
Þögn.
Drengurinn hristi höfuðið. „Ég þarf greinilega að fara fyrr að sofa. Ég er að fá hausverk.“
Hann henti fjarstýringunni kæruleysislega aftur fyrir sig um leið og hann stóð upp. Hann var búinn að æfa þessa hreyfingu í nokkurn tíma og var ansi lunkinn að láta hana lenda á koddanum.
Hann gekk að hvítmálaðri hurðinni og tók í húninn.
Hurðin haggaðist ekki.
Hann togaði aftur en án árangurs.
Hurðin var pikkföst.
Lágt reglubundið suð heyrðist fyrir aftan hann. Hann sneri sér við. „Var hún að hlæja að mér?“

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?