7. nóvember 2006

Köllunin (Part II)

Hann sneri sér aftur að hurðinni og tók nú að toga af öllu afli.
Hann hefði alveg eins getað togað í brúarstólpa.
Drengurinn leit þá til gluggans.
Ekkert var fyrir aftan rimlagardínurnar. Bara blár, kaldur veggur.
Hróp drengsins virtust heldur ekki bera neinn árangur. Enginn heyrði í honum. Það var eins og einhver hefði múrað hann inni.
Reglubundna suðið frá skrifborðinu hækkaði.
Hann leit á tölvuna og öskraði „Haltu kjafti, tíkin þín! Þetta er allt þér að kenna!“
Hann henti sér í rúmið og gróf höfuðið í koddanum. Mjúkur dúnninn skildi angist hans.
Mjúkur dúnninn.
Drengurinn lyfti höfðinu varfærnislega upp og leit yfir koddann. „Hvar er fjarstýringin mín?“
Hann stóð upp og reif sængina og koddann úr rúminu. Fjarstýringin var hvergi sjáanleg.
“Þú hefur ekkert við hana að gera! Þú hefur mig!“ sagði rám, mjóróma rödd.
Hún virtist koma frá skrifborðinu.
Drengnum varð litið til tölvunnar og samstundis hófst suðið aftur, nú hærra en nokkru sinni fyrr.
„Ég er að fokking klikkast!“ hrópaði drengurinn upp yfir sig.
Hann stóð nú á miðju gólfteppinu og leit hratt í kringum sig. Honum fannst herbergið snúast hraðar og hraðar í kringum hann. Veggirnir urðu að móðu.
Veröldin jafnaði sig þó þegar augu hans staðnæmdust við sjónvarpið.
Rauða Standby ljósið hafði slokknað. Ástæðan var greinileg.
Þarna var fjarstýringin, grafin hálfa leið inni í sjónvarpsskerminn.
„Ég sagði þér að þú þyrftir hana ekki! Ég er það eina sem þú þarft!“ sagði röddin.
Drengnum fannst hann heyra furðulega mikla hlýju í þessari rámu rödd, en hann gat ekki verið viss. Hann var, jú, að missa vitið.
„Ég sagði þér að halda kjafti!“ öskraði drengurinn á hvítu tölvuna. „Ég veit að þetta varst þú!“
Nú kviknaði skært hvítt ljós á tölvuskjánum. Svo skært að drengurinn gat ekki annað en litið undan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?