15. apríl 2010

"There is no Spoon"

Ég uppgötvaði eitt um daginn. Í raun og veru hef ég verið að safna upplýsingum fyrir það í rétt rúm 22 ár en fann ekki hnitmiðaða skilgreiningu á því fyrr en fyrir örfáum vikum.

"Það er ekki til neitt sem heitir vont veður, bara það sem heitir rok."


Ég fór nefnilega að pæla í þessu um daginn.
Rigning ein og sér er í fínu lagi - falleg og endurnærandi - en strax og þú blandar roki saman við hana, þá ertu kominn með eitthvað sem er meira óspennandi en brauðsneið með hnetusmjöri og lifrarpylsu. Fótbolti í rigningu er ein besta íþróttaupplifun sem ég veit en um leið og vindurinn mætir, þá fer gleðin.
Það er sama sagan með snjó. Snjókoma í blankalogni er mjög heillandi og notaleg og fyllir hjartað hlýju og gleði. En þegar Kári blessaður mætir til að fylgjast með, fáum við einhvern viðbjóð sem heitir bylur og er álíka heillandi og andfúll nasisti.
Það er aðeins erfiðara að verja haglél, en það getur enginn heilvita maður mótmælt því að það er skömminni skárra að fá élið í hvirfilinn en andlitið.

Þess vegna legg ég til að orð á borð við "bylur" og orðasambönd líkt og "rok og rigning" verði hér með lögð niður! Þessi orð koma illu orði á annars falleg og skemmtileg fyrirbæri eins og rigningu og snjó.

"En Einar, af hverju segirðu að að það sé vindurinn sem skemmi snjóinn og rigninguna en ekki öfugt"?
Góð spurning, við hverri ég hef gott svar. Þið hafið upplifað það að líta út um gluggann og við manni blasir grænt gras og blár himinn og brjóstið fyllist von og gleði. Svo klæðið þið ykkur í fínustu sumarfötin ykkar og hlaupið hlæjandi út í sumarylinn.
En þið eruð ekki fyrr kominn út en þið neyðist til að drullast inn aftur og klæða ykkur betur því það er svo fokking mikið rok. Þetta eru bara ein mestu vonbrigði sem ég veit um!
Rok í sjálfu sér er nefnilega ekki meinlaust og fallegt, líkt og snjórinn og rigningin. Rok á það nefnilega til að eyðileggja fleira en gleði og von mannsins. Þeir sem hafa upplifað það að tjalda í roki vita að það er jafnleiðinlegt og að fara einn í reiptog. Garðvinna, sér í lagi að raka gras, í hvassviðri er álíka pirrandi og stelpan sem fær alltaf hiksta í jólaprófunum.
Í raun og veru er allt leiðinlegra í roki, með augljósum undantekningum á borð við flugdreka og vindmyllur.

Ég ætlaði að enda þennan reiðilestur á hárbeittri og hnyttinni limru, en hún þarf eiginlega að bíða betri tíma...

2 ummæli:

  1. haha gæti ekki verið meira sammála þessu... en bara til að koma því á hreint þá er mikill munur á vindi og roki... því að vindur getur verið mjög góður oft á tíðum.

    SvaraEyða
  2. 100% sammála! Ég áttaði mig á þessu þegar ég bjó í Vancouver. Þar er nefnilega aldrei rok og það var alveg yndislegt. Og þó að það rigndi þar mjög oft þá var það allt í lagi, af því að rigningin kom bara beint niður en ekki úr öllum áttum.

    - Halldóra

    SvaraEyða

Hvað liggur þér á hjarta?