7. júní 2010

Fyrsta skrefið

Eins og venja er tók ég margar litlar ákvarðanir í dag. Flestar þeirra, ef ekki allar voru minniháttar og báru aldrei meira vægi en það að fá mér Maryland kex í hádegismat og spila aðra umferð af Word Challenge.
Aftur á móti er ein þessara litlu ákvarðana minna sem stendur allrækilega upp úr.

Á ákveðnum tímapunkti í kvöld, þegar ég var búinn að blóðmjólka Word Challenge algjörlega, þá fékk ég þá flugu í höfuðið að kíkja út. Ég var búinn að kúldrast inni í herbergi með þynnkunni minni í allan dag og það hvarflaði að mér að ég hefði kannski bara gott að því að viðra hausinn á mér aðeins.
Þannig að ég smeygði mér í jakkann minn, skellti iPodnum í eyrun og lagði af stað með nýju vinum mínum í Mumford & Sons. Bróðir minn hafði skilið "heimilisreiðhjólið" eftir hjá vini sínum fyrr í dag, þ.a. ég ákvað að rölta yfir nesið og sækja það.

Á miðri gönguleið helltist samt yfir mig furðuleg tilfinning sem ég tel með mikilli vissu að hafi sprottið algjörlega út frá tónlistinni í eyrunum á mér.

Ég fékk þá gríðarlegu löngun til að henda af mér jakkanum og hlaupa af stað.

Hugsanlega stafar þessi hlaupalöngun mín af því að vegna lærmeiðslanna sem hafa hrjáð mig undanfarnar vikur, hef ég ekkert getað hlaupið í langan tíma.
Kannski hélt ég að tónlistin hljómaði betur með vindinn í andlitið.
Kannski var undirmeðvitundin að gefa mér merki um að "drífa í því".

Hver svo sem ástæðan var þá gaf ég undan og hljóp af stað. (Ég hélt mig reyndar í jakkanum af praktískum ástæðum)

En þegar að hjólinu var komið, þá var lönguninni ekki fullnægt. Þannig að ég steig á hjólið og hjólaði af stað og tók stefnuna upp á Garðaholt. Af hverju upp á Garðaholt? Því þegar þú ert búinn að hjóla upp á Garðaholt, þá færðu að hjóla niður Garðaholt. Og ég get sagt ykkur það - tónlistin hljómaði miklu betur með vindinn í andlitinu.

Af hverju, það er ég ekki alveg viss um. Ég hef þó talið mér trú um það að það sé vegna þess að ég dreif í því og fór út; af því ég hljóp af stað; af því ég hjólaði upp á Garðaholt.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög gjarn á það að bíða með hluti fram á síðustu stundu. M.a.s. þessa stundina eru nokkur verkefni sem ég er, af einhverjum ástæðum, ekki búinn að gera. Það er hægt að kenna áðurnefndum dyraverði um eitthvað af þessu en ég held að það sé svolítil einföldun. Ég held, persónulega, að þetta sé vegna þess að líf mitt er á nokkuð öruggum stað þessa stundina, og allar stærri ákvarðanir sem gætu mögulega breytt einhverju í lífi mínu til frambúðar virka áhættusamar og allt að því hættulegar.
En þá er það hin sívinsæla hugsun: Er líf án áhætta það sem maður vill? "If it ain't broke - don't fix it?"
Því eftir allt saman - tónlistin hljómaði betur með vindinn í andlitið...



Vó... þessi færsla æxlaðist svolítið öðruvísi en ég lagði upp með.
Ég var eiginlega búinn að ákveða það að verða ekki svona djúpur og væminn aftur nærri því strax.
Ok - ég lofa því að næsta færsla verður stuttur, hugsanlega ósmekklegur, langsóttur brandari - svona eins og í 'gamla daga'.

2 ummæli:

  1. Hvað varð eiginlega um kommentið sem ég skildi eftir hérna í morgun?

    Jæja, það sem ég vildi sagt hafa þá var að þessar djúpu og væmnu færslur eru frábærar. Haltu endilega áfram að birta þær.

    - Mágkonan

    SvaraEyða
  2. Séð Yes Man Einar minn?

    SvaraEyða

Hvað liggur þér á hjarta?