16. apríl 2006

Laugardagur, 8.4.'06

Hér sit ég í púða prýddu horni svefn-/hornsófans í íbúð á annarri hæð Ottakringerstraße 104 í 16. hverfi menningarhöfuðborgar Evrópu og bíð eftir því að lognast út af. Furðulegt hvernig hluturinn á milli vöku og svefns er einmitt sá sami og olli þreytunni til að byrja með.
Dagurinn hefur einmitt einkennst af bið. Bið eftir leigubíl í morgun, bið í bílnum eftir að komast á flugvöllinn, bið eftir "tjekk-inn", bið eftir "tjekk-inn" dömunni, bið eftir flugvélinni, bið eftir hægfara farþegum, bið eftir að lenda í Køben, bið eftir næstu flugvél, bið eftir næstu lendingu í Vínarborg og að lokum bið eftir töskunum þremur sem við höfðum meðferðis.
Nú erum við komin á áfangastað, íbúðirnar á Ottakringerstraße, með aðstoð íslensks heimamanns á fjölskyldubíl og höfum nú komið okkur ágætlega fyrir. Á vinstri enda gangsins býr "hipp og kúl" fólkið, þ.e.a.s. ég, Sveinbjörn stóri bróðir minn og Halldóra kærastan hans. Eftir því sem lengra er farið til hægri eftir ganginum stiglækkar "hipp og kúl" stuðullinn og á botni hans, við hægri enda gangsins, búa svo foreldrar mínir og litli bróðir (FEIS).
Þýska heyrist hér hvarvetna, bæði falleg austurríska sem og subbuleg vínaríska, og alls staðar finnu maður lyktina af ýmis konar kjöti, ferðamönnum, tónlist og ýmiss konar ólykt úr bjórverksmiðjunni sem sefur háværum svefni fyrir utan svefnherbergisglugga okkar.
Biðin er þó nú á enda - ég er að sofna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?