21. apríl 2006

Miðvikudagur 12.4.'06

Þessi hornsófi er greinilega bæði bölvun og blessun. Ég sef ekkert gríðarlega vel í honum (stuttur, harður og brakar meira en stiginn í Gamla skóla) en hins vegar er mjög þægilegt að sitja í honum og skrifa. Ég hef held ég aldrei skrifað svona mikið óumbeðinn.
Ég vaknaði semsagt í morgun, nokkuð skapbetri en í gær en þó þungur á brún og nokkuð súr. Þess vegna var fyrsta verkefni dagsins mjög vel við hæfi. Við gengum niðri í bæ og litum þar á mjög súr hús hönnuð af arkitektinum/listamanninum/brjálæðingnum Hundertwasser (sem heitir í raun Friedrich Stowasser). Hann afneitar í sinni list öllum almennum reglum arkitektúrs, svo sem beinum línum og réttum hornum. Mjög súrt.
Því næst fórum við yngra fólkið, ég, Baldvin, Sveinbjörn og Halldóra í 20 mínútna ferð um miðbæ Vínarborgar í hestvagni og verð ég að segja að það er afskaplega þægilegur og afslappandi ferðamáti. Þegar við stigum út úr vagninum á Stephansplatz þurftum við að bíða í einhvern tíma eftir foreldrum mínum sem voru einhvers staðar á vappi. Á meðan dáðumst við að þrautseigju hvítklædds látbragðsleikara sem mig langaði ofboðslega mikið að kasta klinki í. Ekki til - í.
Þá var haldið í Haus der Musik - gagnvirkt tónlistarsafn. Alls kyns hlutir fundust þar, bæði sætir og súrir. Aðallega súrir, svo sem heilatrommusettið, prumpu- og rophljóðin út úr veggnum og óskiljanlegi hljóðstóllinn.
Eftir þetta ó, svo skraulega safn gengum við niður - já, bókstaflega niður - í 12 postulakjallarann og fengum okkur hressingu. 12 postulakjallarinn er semsagt bar/veitingahús sem staðsett er nokkra metra ofan í jörðinni og er víst frá 16. öld. Ansi töff.
En dagskránni var ekki lokið. Þá fórum við heim á Ottakringer og hvíldum okkur aðeins fyrir kvöld sem átti aðeins eftir að einkennast af mat, drykkju, bið og óperutónlist. Mikilli óperutónlist.
Matarhluti kvöldsins átti sér stað á enn einni pizzeríunni. Svo sem ekkert merkilegt við það. Drykkjarhlutinn hófst einnig á þessari sömu pizzeríu en teygði sig svo inn á Café Peters, þar sem hann átti eftir að lifa langt fram á nótt. Þar byrjuðum við líka á að bíða. Við sexmenningarnir biðum þar eftir hinum umtöluðu íslensku heimamönnum og Saltborgurum (eldri en 18, að sjálfsögðu).
En svo ég staldri aðeins við þetta kaffihús í eigu fanatíska óperuhommans Peters. Þar hanga myndir af óperusöngvurum uppi um alla veggi og óperutónlist spiluð í botn. Það er afskaplega erfitt að tala við einhvern þar inni á meðan 200 kílóa maður syngur hástöfum um hversu sárt það er að deyja einn og án 180 kílóa elskunnar sinnar, sem í raun er að halda við einhentan bróður hans sem er aðeins 160 kíló.
Við yngra fólkið nenntum svo ekki að bíða lengur og héldum heim á leið. Nú ætla ég að horfa á DVD og fara að sofa.
Tími til kominn....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?