18. apríl 2006

Mánudagur 10.4.'06

Pandabirnir eru svalir. Þeir eru svo töff og svo ýkt mega hipp og kúl að þessi orð eiga varla við þá. Þeir eru ekki bara svalir í útliti heldur hátterni líka. Þeim var svo skítsama um þá tugi gesta sem stóðu handan glersins og biðu eftir að þeir færu að leika sér í bambusnum eins og örgustu apakettir. Þeir lágu bara þarna með bakið upp að trjádrumb og átu sína 30 kíló af bambusgreinum. Allt of svalir til að sýna einhverju Homo Sapiens liði nokkra athygli.
En pandabirnir ganga ekki lausir í Vínarborg, ekki frekar en aðrar svalar lífverur yfirleitt, þannig að gera má ráð fyrir því að ég hafi verið í dýragarði, sem er raunin. Ég var í einkadýragarði Maríu Teresu, keisarynju af Austurríki, sem staðsettur er í bakgarði sumarhallar hennar í Schönbrunn. Og þvílíkur bakgarður! Ef ég ætti svona bakgarð, þá þyrfti Ólafur Ragnar að borga mér leigu.
Eftir þessa drjúgu gönguferð um garðinn fannst sumum nauðsynlegt að hvíla lúin bein og var því farið rakleiðis heim í skugga bjórtankanna. Einhverju seinna tókum við U-bahn niður í bæ og röltum að því virtist stefnulaust í leit að einhverjum veitingastað. Við enduðum á króatíska veitingastaðnum Dubrovnik þar sem við gæddum okkur á Vínarsnitzel á stærð við ungabarn. En það var ekki nóg, nei nei. í eftirrétt skelltum við okkur á einhvers konar hnetukremsfylltar pönnukökur með flórsykri og súkkulaði. Þá var hámarkinu náð og rúmlega það.
Enn einu sinni gengum við af stað og aftur á Sechskrügelgasse þar sem við heilsuðum upp á heimamenn og Saltborgara í annað og örugglega ekki síðasta sinn í þessari ferð. Nokkrum glösum af áfengi og fáeinum kjaftasögum síðar varð síðasti U3 svo þess heiðurs aðnjótandi að koma okkar fríða, sex manna föruneyti heim, eða því sem næst. Við þurftum samt að rölta dágóðan spotta. Lappirnar gáfu okkur síðasta séns.
Nú sit ég líkt og pandabjörn með bakið upp að nokkrum púðum í þessum hornsófa sem ég hef hertekið og japla á einhverju sem jafngildir 30 kílóum af bambusgreinum. Það vantar þó nokkuð mikið upp á að ég verði jafn svalur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?