26. apríl 2006

Fimmtudagur 13.4.'06

Ég er geðveikur ofurhugi. Alveg svaðalegur. Svo mikill að þannig vil ég að minningargreinin um mig verði skyldi eitthvað slæmt gerast (Guð forði því): "Ástkær sonur okkar, bróðir, vinur og ýkt klikkaður töffari."
Dagurinn byrjaði mjög rólega vegna þess að sum okkar voru úti á lífinu langt fram eftir nóttu í gær. Ég nefni engin nöfn en það voru foreldrar mínir. Við fórum þess vegna ekkert út úr húsi fyrr en um hádegi og héldum þá niður á Maríuhjálparstræti í verslunarleiðangur. Ég kom úr þeim leiðangri tölvuleik, tveimur bolum og einni peysu ríkari - en þónokkrum Evrum fátækari.
Þá var komið að enn einni máltíðinni í þessari matmiklu ferð okkar. Þar fengum við að því virtist erfðabreyttar samlokur á stærð við lítinn hund. En enginn samloka er of stór fyrir okkur.
Þaðan var farið heim til að losa okkur við pokana því okkar beið mikið verkefni - Tívolíið í Prater.
Mamma og pabbi höfðu fyllt hausinn á okkur af frásögnum af þessum 'pínulitla' garði sem ekkert var hægt að gera nema að fara í hringekju og kasta boltum í píramída af dósum, eða svo gott sem. Þær sögur voru greinilega úreltar.
Þá tók við ofurhugatímabilið mitt. Ég fór í, að ég held, öll stærstu tækin, einn, nema tvö. Annað var bilað en hitt var nokkuð ógnandi þ.a. ég vildi ekki fara einn. En ekki fékkst neinn til að fara með mér í það. Ég verð greinilega að fara þangað aftur seinna. Líkt og samlokur er ekkert tæki of stórt fyrir mig.
Á leiðinni heim fórum við fjölskyldan og Lárus - litli blái fílsvinurinn minn sem ég vann í skotbakka - á gömlu pízzeríuna 'okkar' sem er staðsett á móti gamla húsinu 'okkar'. Þar sannaðist aftur að engin pizza er of stór fyrir mig.
Þá var barasta dagurinn búinn og ekkert annað að gera en að halda heim í rúglyktina.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?