29. apríl 2006

Föstudagur 14.4.'06

Þá er hann runninn upp - síðasti heili dagur okkar í Vínarborg í bili. Ég geri nefnilega sterklega ráð fyrir því að fara hingað aftur e-n tímann. Nú höfum við bara eitt hús í viðbót til að heimsækja.
Dagurinn byrjaði á gönguferð eins og allir aðrir. Núna gengum við hins vegar að ráðhúsinu. Það er aðeins flottara en hálfsokkna glerhýsið okkar (Þá á ég að sjálfsögðu við ráðhús Reykjavíkur). Þaðan gengum við um lífshættulegan garð (rok=fjúkandi greinar) og niður á Hotel Sacher þar sem við gæddum okkur á alvöru, vínarískri Sacher tertu. Hún var go-óð! Þaðan fórum við niður í Óperu og fórum þar í skoðunarferð ásamt fjöldanum öllum af Bandaríkjamönnum í fylgd afar hárprúðs leiðsögumanns.
Eftir þessa skoðunarferð var haldið á Kertnerstraße þar sem ég keypti mér glæsilegan disk með samansafni verka Hans Zimmer.
Svo var haldið heim á Ottakringer.
Þetta kvöld fórum við ekki út að borða, ótrúlegt en satt. Hins vegar borðuðum við á tveimur stöðum í staðinn. Við fórum fyrst í forrétt til vinafólks okkar og fórum þaðan í aðalrétt til annars vinafólks. Eftir fjörugt kvöld sem einkenndist af spaghettíi og bolta með sogskálum fórum við svo heim og pökkuðum niður fyrir brottförina í fyrramálið.
Þar sem ég er þreyttur og latur nenni ég ekki að vera skemmtilegur í þessari færslu og biðst ég forláts á því.

[Nú er dagbókinni lokið. Jibbí jeij!]

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hvað liggur þér á hjarta?